Formúla 1

Hamilton gagn­rýnir Marko harð­lega í kjöl­far rasískra um­mæla

Aron Guðmundsson skrifar
Helmut Marko ræðir við Sergio Perez, keppinaut Lewis Hamilton innan brautar í Formúlu 1
Helmut Marko ræðir við Sergio Perez, keppinaut Lewis Hamilton innan brautar í Formúlu 1

Lewis Hamilton, sjö­faldur heims­meistari í For­múlu 1, gagn­rýnir Helmut Marko, tækni­legan ráð­gjafa Red Bull Ra­cing, fyrir rasísk og takt­laus um­mæli sem hann lét falla um annan öku­mann liðsins, Sergio Perez.

Helmut Marko lét hafa eftir sér að dræmur árangur Sergio Perez, öku­manns liðsins á yfir­standandi tíma­bili stafaði af þáttum er tengdust þjóð­erni hans en Perez kemur frá Mexíkó.

Lewis Hamilton, öku­maður Mercedes og sjö­faldur heims­meistari öku­manni í For­múlu 1, gagn­rýnir Helmut Marko harð­lega í að­draganda komandi keppnis­helgar í Singa­púr og segir að þarna séu á ferð um­mæli sem menn geti ekki bara beðist af­sökunar á og svo haldið á­fram eins og ekkert hafi í skorist.

„Að hafa leið­toga og fólk í hans stöðu láta á eftir sér svona um­mæli lítur ekki vel út fyrir okkur til lengri tíma litið. Þetta varpar bara frekara ljósi á þá miklu vinnu sem enn á eftir að vinna í þessum efnum.“

Það séu margir á bak við tjöldin sem vinni hart að því að vinna niður svona orð­ræðu.

„En það er erfitt ef það er fólk í hátt settum stöðum sem hefur svona hugsunar­hátt og skoðanir. Það kemur í veg fyrir að árangur náist.“

Sjálfur hefur Perez greint frá því að af­sökunar­beiðni hafi borist frá Helmut Marko.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×