Í tilkynningu segir að á afkomubati sem gert hafi verið ráð fyrir þegar síðasta ársfjórðungsuppgjör var birt hafi ekki skilað sér. Á þessum tíma hefur eldsneytisverð hækkað um tæplega þrjátíu prósent.
Þó forsvarsmenn Icelandair geri áfram ráð fyrir hagnaði af rekstri félagsins á þessu ári, hefur afkomuspáin verið breytt á þann veg að nú er gert ráð fyrir að heildartekjur verði um 1,5 milljarðar dala og rekstrarhagnaður milli fimmtíu og 65 milljóna dala. Það samsvari um 3,3 til 4,3 prósentum af tekjum.
Í síðasta ársfjórðungsuppgjöri Icelandair var gert ráð fyrir að hagnaðurinn yrði fjögur til sex prósent af tekjum.
Í áðurnefndri tilkynningu segir að mikil áhersla verði lögð á að koma fraktstarfseminni aftur í jákvæðan rekstur. Þá séu horfur í farþegaflugi góðar og bókunarstaða sterk út árið.
„Fjárhagsstaða Icelandair er mjög sterk og félagið vel í stakk búið til áframhaldandi arðbærs vaxtar. Þegar hefur verið gengið frá samningum um þrjár farþegavélar til viðbótar í flota félagsins fyrir næsta ár sem munu skapa tækifæri fyrir félagið til að stækka leiðakerfið og auka framboð um í kringum 10% á milli ára,“ segir í tilkynningunni.