Innlent

Hunda­dauðinn kominn á borð lög­reglu

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Hundarnir tíu fundust dauðir þann 8. júlí.
Hundarnir tíu fundust dauðir þann 8. júlí. Vísir/Vilhelm

Mál tíu hunda sem fundust dauðir fyrr í mánuðinum án skýringar er komið á borð lögreglu. Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, segir að verið sé að rannsaka hvort eitrað hafi verið fyrir þeim.

Þann 8. júlí síðastliðinn kom Askur Bárðdal Laufeyjarson, hundaræktandi, að tíu hundum sínum dauðum á bæ sínum Norðurdal í Breiðdal. Askur hafði skroppið á bæjarhátíð í nokkrar klukkustundir en þegar hann kom til baka lágu hundarnir tíu dauðir í hundagerðinu þar sem hann hafði skilið þá eftir. 

Askur bíður eftir niðurstöðu krufninga en grunar að hundunum hafi verið unnið mein. „Þetta er gjörsamlega búið að snúa lífinu á hvolf,“ sagði Askur í samtali við fréttastofu. 

Mjög einstakt mál

Sigurborg Daðadóttir er yfirdýralæknir hjá matvælastofnun. Vísir/Ívar Fannar

Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, staðfestir í samtali við Vísi að málið hafi farið á borð MAST en sé nú komið yfir til lögreglu. Krufning hafi farið fram á Keldum, tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði. Þá muni rannsókn leiða í ljós hvort eitrað hafi verið fyrir hundunum, en niðurstöður liggi fyrir eftir nokkrar vikur. 

Hún segir málið mjög einstakt og ekki sé fordæmi fyrir því. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×