Neytendur

Neyt­enda­stofa slær aftur á hendur Nýju vín­búðarinnar

Eiður Þór Árnason skrifar
Sverrir Einar Eiríksson rekur Nýju vínbúðina.
Sverrir Einar Eiríksson rekur Nýju vínbúðina. Vísir

Neytendastofa hefur sektað Nýju vínbúðina um 750 þúsund krónur fyrir að brjóta gegn ákvörðun stofnunarinnar. Rekstraraðili verslunarinnar brást ekki við fyrri tilmælum um að gera breytingar á vefsíðu sinni sem Neytendastofa taldi veita villandi upplýsingar um verð og framboð.

Snemma á þessu ári komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að framsetning verðupplýsinga á vefsíðu Nýju vínbúðarinnar væri til þess fallin að neytendur teldu að þeir væru að kaupa vörur á tilboðsverði. 

Neytendastofa segir að með framsetningu verðupplýsinga og með því að tilgreina ekki hvað sé átt við með fullyrðingunni „allt að 40% ódýrara“ hafi rekstraraðili Nýju Vínbúðarinnar veitt villandi upplýsingar um verð og annað verðhagræði auk þess sem fullyrðingin var ekki sönnuð. Þetta kemur fram á vef Neytendastofu.

Að mati eftirlitsstofnunarinnar braut rekstraraðili Nýju vínbúðarinnar einnig gegn ákvæðum laga með því að auglýsa takmarkað magn, án þess að tiltaka hvaða vörur það eigi við um eða hve mikið magn sé í boði. Bannaði Neytendastofa í febrúar rekstraraðila Nýju vínbúðarinnar að viðhafa þessa viðskiptahætti og kallaði eftir úrbótum.  

Gætu þurft að greiða 100 þúsund krónur í dagsektir

Að sögn Neytendastofu var vefsíðu Nýju vínbúðarinnar ekki breytt til að fara að ákvörðun stofnunarinnar sem birt var í febrúar. Í ljósi þessa hefur stofnunin lagt 750 þúsund króna stjórnvaldssekt á rekstraraðila netverslunarinnar. 

Ef ekki verður búið að gera viðeigandi breytingar innan fjórtán daga frá því að ákvörðunin er dagsett er fyrirtækinu gert að greiða 100 þúsund krónur í dagsektir þar til farið hefur verið að ákvörðun Neytendastofu.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×