Sagt er frá þessu á málinu á vef Neytendastofu. Þar kemur fram að samkvæmt verðmerkingarreglum skulu seljendur verðmerka söluvörur með endanlegu söluverði og einingarverði.
„Einingarverð er verð vöru miðað við ákveðna þyngdar- eða rúmmálseiningu svo sem kíló, lítra eða metra. Því er ætlað að auðvelda neytendum að gera verðsamanburð á vörum sem eru í ólíkum magnstærðum. Í reglum frá Neytendastofu er kveðið á um hvaða einingu skuli nota fyrir hvaða vöru.
Niðurstaða Neytendastofu í málinu var sú að verðmerkingar Samkaupa á vefsíðunni www.netto.is væru ekki í samræmi við lög og reglur þar sem einingarverð vantaði á margar vörur og notast var við rangar einingar á sumum vörum. Var þeim fyrirmælum beint til félagsins að koma einingaverðum í rétt horf en að öðrum kosti skyldi Samkaup sæta dagssektum,“ segir á vef stofnunarinnar.
Í ákvörðuninni segir að Samkaup muni sæta dagsektum að fjárhæð 50 þúsund krónum, verði ekki búið að koma merkingunum í lag innan tveggja vikna frá dagsetningu ákvörðunar Neytendastofu.