Neytendur

Óttast að svi­ka­upp­hæðin nemi 200 milljónum króna

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Árni Björn Björnsson segir sífellt fjölga í hópi þeirra sem átt hafi í viðskiptum við fyrirtækið.
Árni Björn Björnsson segir sífellt fjölga í hópi þeirra sem átt hafi í viðskiptum við fyrirtækið.

Árni Björn Björns­son, veitinga­maður á Sauð­ár­króki, segist óttast að Ís­lendingur sem gefið hafi sig út fyrir að flytja inn og selja hús frá Austur-Evrópu, hafi svikið hátt í 200 milljónir króna frá stórum hópi fólks. Hann segir fjölda þeirra sem hafi sam­band við sig vegna málsins aukast á hverjum degi. Hann mun gefa lög­reglu skýrslu í dag vegna málsins.

Þetta kom fram í morgunút­varpinu á Rás 2 í morgun þar sem Árni var til við­tals. Hann hyggst kæra manninn fyrir fjár­svik og segir rann­sókn lög­reglu á frum­stigi. Eins og Vísir hefur greint frá hefur Neyt­enda­sam­tökunum borist á­bending vegna málsins. Árni segir að sölu­aðilinn gefi sig meðal annars út fyrir að selja sumar­hús, heita potta, efnis­pakka, sauna­klefa og í­búðar­hús.

Þrjú til fimm sím­töl á dag

„Ég fæ þrjú til fimm sím­töl eða pósta á dag og það bætist í hópinn og upp­hæðirnar. Ég næ ekki alveg utan um það en það hafa bæst við alla­vega þrjá­tíu milljónir í við­bót þannig að þetta er orðið hærra en hundrað milljónir og lík­lega í 120 milljónum núna,“ segir Árni.

Hann stýrir hópi fólks á Face­book sem telur sig svikið eftir við­skipti við aðilann. „Þar hefur ekki nema partur af hópnum gefið upp tölur. Þannig ég er hræddur um að þetta slagi hátt í 200 milljónir.“

Árni segir að fólk hafi greitt ýmsar upp­hæðir, meðal annars 350 þúsund krónur fyrir sauna­klefa, 300 þúsund krónur fyrir heitan pott og helming fyrir smá­hýsi sem kosta 12 milljónir króna og fólk því greitt sex milljónir króna til fyrir­tækisins.

Fé­lagi mannsins sagði hann veikan

Árni kveðst svekktur í morgunút­varpi Rásar 2 að hafa ekki kært manninn strax í desember þegar hann hafi byrjað að gruna að ekki væri allt með felldu. Fé­laga hans á Sauð­ár­króki hafi verið lofað húsi föstu­daginn 12. desember.

„Á mánu­degi hringir ein­hver fé­lagi hans sem segist vera að starfa fyrir hann ýmist eða í sam­starfi með honum og hann segir að það sé búið að leggja við­komandi gæja inn á geð­deild og að það sé ekki að marka eitt einasta orð sem hann segir.“

Árni segir að þá hafi hafist at­burða­rás sem hann líkir við rússí­bana. Fé­lagi mannsins hafi ýmist lýst því að allt væri í skrúfunni hjá honum eða að það liti ekki eins illa út eins og hann hafi haldið í upp­hafi.

„Það sem veldur því að við kærðum ekki þá og þegar er að þessi sölu­aðili kemur þá út af spítala, eða hressist, þá lýsir hann því við okkur að þessi fé­lagi hans væri bara að reyna að ræna af honum fyrir­tækinu. Þetta gengur allt út á það að það sé alltaf ein­hver glæpon sem er að svíkja hann þegar við tölum við hann.“

Árni segir að því næst hafi bókari fé­lagsins stigið fram og haft sam­band við við­skipta­vini. Hann segist ekki vilja gefa sér það að hún hafi tekið þátt í svika­starf­seminni en segir hana hafa gefið manninum heil­brigðis­vott­orð og róað mann­skapinn.

„Hún lýsir því í tölvu­pósti til flestra í þessari grúppu að þetta sé ört vaxandi fyrir­tæki, ungt og að hann þurfi bara að fá rými til þess að ná utan um þetta. Hann hafi vissu­lega farið of­fari í fjár­festingum. Þannig að við bökkum og gefum honum tíma, tvo mánuði í við­bót þar sem hann heldur á­fram að ná við­skipta­vinum inn.“

Sagði bókarann svíkja sig

Árni segir að í febrúar síðast­liðnum hafi maðurinn sagt við við­skipta­vini að verk­smiðjan í Lett­landi væri nú vanda­málið. Hann hafi borgað henni allar upp­hæðir við­skipta­vina sinna án þess að hún hafi staðið við efndir.

„Ferlið hjá honum virðist vera þannig að í lok hvers á­falls þá er hann alltaf með ein­hverja lausn. Hann sagðist hafa leigt nýja verk­smiðju í Litáen og var allta að kaupa sér nokkrar vikur eða mánuði í senn.“

Árni segir í morgunút­varpinu að svo virðist vera sem tveir úr hópnum hafi fengið hús sín af­hent. Það sé þó á reiki. Bókarinn hafi sagt við hópinn að þrír hafi fengið hús og að tíu standi út af.

„En við­komandi aðili sem fékk hús sagði að þetta væri hvorki húsið sem hún hafði beðið um og þá var hann að reyna að hækka verð­miðann þegar húsið var komið.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×