Neytendur

Allt að helmings verð­munur á­fengis í vef­búðum

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Smirnoff er ódýrastur í Costco en dýrastur í Nýju vínbúðinni.
Smirnoff er ódýrastur í Costco en dýrastur í Nýju vínbúðinni. Vísir/Vilhelm

Sante Wines og Costco bjóða oftast upp á lægsta verðið á áfengi samkvæmt óformlegri könnun Vísis. Fjölgar þeim stöðugt vefverslununum sem bjóða upp á áfenga drykki.

Tugprósenta verðmunur er á áfengum drykkjum íslenskra verslana samkvæmt könnun Vísis á nokkrum vinsælum tegundum. Til að mynda er Kaldi 46 prósentum dýrari hjá ÁTVR en hjá Sante Wines. Sami munur er á Smirnoff vodka hjá Nýju vínbúðinni og Costco.

Þrátt fyrir að ÁTVR hafi einkaleyfi á sölu áfengis hefur skapast sú staða að vefverslun virðist vera lögleg.

Eftir að dómstólar vísuðu frá máli ÁTVR gegn tveimur vefbúðum, Sante og Bjórlandi, í marsmánuði í fyrra hafa vefbúðir sprottið upp eins og gorkúlur.

Auk áðurnefndra verslana er hægt að kaupa áfengi hjá Nýju Vínbúðinni, Heimkaupum og Costco. Þá hafa forsvarsmenn Hagkaupa og Nettó tilkynnt að áfengisverslun hefjist innan skamms.

46 prósenta munur á Kalda

Vísir kannaði verð á nokkrum vinsælum bjórtegundum, innlendum og erlendum og einkum kraftbjór. Einnig á nokkrum tegundum léttvíns og sterkara víni. Ef varan var ekki til var miðað við síðasta þekkta verð.

Lítraverðið á Egils Gull í 500 millílítra dós er 800 krónur í Costco samanborið við 898 í ÁTVR og 1.178 í Nýju vínbúðinni. Costco er nýjasta viðbótin á áfengismarkaðinn og vakti innreið smásölurisans í Urriðaholti mikla athygli.

Vefbúðum hefur fjölgað hratt eftir að dómi ÁTVR gegn Sante og Bjórlandi var vísað frá í fyrra.Vísir/Vilhelm

Aðeins þau sem eiga meðlimakort hjá Costco geta hins vegar keypt áfengi í vefbúðinni. Þá er úrvalið frekar takmarkað og hvað bjórinn varðar er hann aðeins seldur í stórum einingum.

Bjórinn hjá Sante Wines mælist einnig ódýrari en hjá samkeppnisaðilum. Lítraverðið af hinum mexíkóska sumarbjór Corona Extra er sléttar 1.000 krónur samanborið við 1.124 í ÁTVR og 1.148 í Nýju vínbúðinni.

Lítraverð ljóss Kalda í 330 millílítra dós er 906 hjá Sante en dýrara í fjórum öðrum vefbúðum. Langdýrastur er Kaldi í ÁTVR, 1.324 krónur lítrinn, 46 prósentum dýrari en hjá Sante. Hafa ber þó í huga að Sante er með mikið úrval af víni en bjórúrvalið er takmarkaðra.

Costco með ódýran Smirnoff og Jack

Fimm vefbúðir selja vín. Sú eina sem gerir það ekki er Bjórland, sem hefur hins vegar mikið úrval kraftbjóra.

Lítraverðið á Faustino Reserva rauðvíni mældist lægst í ÁTVR, 4.265 krónur, en Sante var með lægsta verðið á Pesquera rauðvíni, 5.333 krónur lítrinn.

Ódýrasta freyðivínið, af gerðinni Moet & Chandon Brut Imperial, var að finna í Costco.

Þegar skoðuð eru sterkari vín, Smirnoff Red vodka og Jack Daniels viský er lægsta verðið í Costco, innan við 10 þúsund krónur lítraflaska, en það hæsta í Nýju vínbúðinni. Í Nýju vínbúðinni er hins vegar mun breiðari opnunartími, en þar er opið til klukkan 22:00 á virkum dögum og til miðnættis um helgar.


Tengdar fréttir

Costco opnar á sölu áfengis til einstaklinga

Verslunarrisinn Costco er kominn í samkeppni við Vínbúðina og netverslanir í sölu á áfengi á netinu. Einstaklingar geta nú pantað áfengi á vefsíðu Costco og sótt í verslunina í Kauptúni.

Hagkaup bætist í hóp verslana sem selja áfengi

Hagkaup stefnir að því að hefja netverslun áfengis á næstu misserum. Verslunin mun þá bætast í hóp með Costco, Heimkaupum og fjölda smærri netverslana. Dómsmálaráðherra segist ekki getað dregið aðra ályktun en að vefverslun með áfengi sé lögmæt.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×