Innherji

Slóvakískt fé­lag sem tryggði þúsundir Ís­lendinga svipt starfs­leyfi

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Seðlabanki Íslands hafði áður lagt 35 milljóna króna sekt á vátryggingamiðlunina sem hafði umboð fyrir tryggingum NOVIS á Íslandi.
Seðlabanki Íslands hafði áður lagt 35 milljóna króna sekt á vátryggingamiðlunina sem hafði umboð fyrir tryggingum NOVIS á Íslandi. Seðlabanki Íslands

Seðlabanki Slóvakíu hefur svipt líftryggingafélagið NOVIS starfsleyfinu en fyrirtækið hefur á síðustu árum tryggt þúsundir Íslendinga í gegnum miðlunina Tryggingar og ráðgjöf ehf., sem hefur haft drjúgar tekjur af samstarfinu.

Stjórnvaldsákvörðunin tók gildi 5. júní 2023 og frá þeim degi er NOVIS óheimilt að stunda vátryggingastarfsemi, að undanskilinni þeirri starfsemi sem nauðsynleg er til þess að framfylgja kröfum félagsins og gera upp skuldbindingar þess. Í þessu felst að NOVIS er óheimilt að stofna til nýrra samninga.

Slóvakískir fjölmiðlar greina frá stjórnvaldsákvörðuninni og rifja upp að tryggingafélagið, sem var stofnað árið 2014 og hefur selt tryggingar í fjölda Evrópuríkja, hafi áður komist í kast við lögin. Seðlabanki Slóvakíu lagði til að mynda 175 þúsund evra sekt á NOVIS árið 2019 fyrir að gefa viðskiptavinum villandi upplýsingar og var það hæsta sekt sem hefur verið lögð á tryggingafélag þar í landi.

Ári síðar var lagt tímabundið bann sölu trygginga af hálfu NOVIS, fyrst í Ungverjalandi og síðan Slóvakíu, eftir að upp komst að fyrirtækið hefði ekki fjárfest iðgjöld í samræmi við skilmála tryggingasamninga og í byrjun árs 2022 komst slóvakíski seðlabankinn að þeirri að niðurstöðu að NOVIS hefði ekki nægt gjaldþol til að mæta gjaldþolskröfum. Gjaldþolskrafa er mælikvarði yfir alla áhættu vátryggingafélags til þess að áætla mögulegt tap þess til næstu 12 mánaða.

Vátryggingarmiðlari NOVIS á Íslandi er fyrirtækið Tryggingar og ráðgjöf, en umsvif þess jukust verulega eftir að hafin var sala á líftryggingaafurðum slóvakíska félagsins í byrjun árs 2018. Velta Trygginga og ráðgjafar margfaldaðist upp í 850 milljónir á árinu 2018, hagnaðurinn nam 112 milljónum og eigendur greiddu sér 100 milljónir króna í arð.

Hákon Hákon­ar­son, fram­kvæmda­stjóri félags­ins, sagði í samtali við Kjarnann í byrjun árs 2022 að félagið hefði selt trygg­ingar frá NOVIS til tíu þús­und manns.

Seðlabanki Íslands lagði 35 milljóna króna sekt á Tryggingar og ráðgjöf árið 2020 fyrir að hafa ráðlagt 45 viðskiptavinum að fara fjárfestingaleið sem samræmdist ekki þörfum þeirra. Þá birti Seðlabankinn í gær niðurstöður athugunar sem leiddi í ljós að NOVIS hefði veitt vátryggingatökum á Íslandi misvísandi og blekkjandi upplýsingar um skilmálabreytingarnar þannig að þeim hefði verið nánast ómögulegt að átta sig á þýðingu breytinganna og taka upplýsta ákvörðun um hvort þær samræmdust hagsmunum þeirra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×