Neytendur

Segir stjórn­völd fórna heimilum ítrekað fyrir bankana

Bjarki Sigurðsson skrifar
Ásthildur Lóa Þórsdóttir er formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og þingmaður Flokks fólksins.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir er formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og þingmaður Flokks fólksins. Vísir/Vilhelm

Hagvöxtur mældist sjö prósent á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Aukin einkaneysla, þrátt fyrir verðhækkanir, bendir til þess að heimili séu farin að ganga á sparnað sinn til að ná endum saman. Formaður Hagsmunasamtaka heimilanna segir stöðuna gríðarlega alvarlega. 

Hagvöxtur mældist sjö prósent á fyrsta ársfjórðungi 2023 miðað við sama tímabil síðasta árs. Ekkert lát er á vexti einkaneyslunnar sem áætlað er að hafi aukist um 4,9 prósent frá því á síðasta ári. Samkvæmt skýrslu Hagstofunnar mun það benda til þess að heimili séu að einhverju leyti að ganga á sparnað til þess að ná endum saman þar sem einnig eru umtalsverðar verðhækkanir á neysluvörum.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og þingmaður Flokks fólksins, segir það ekki þurfa neina skýrslu til að sýna fram á erfiða stöðu heimilanna. Með vaxtahækkunum sé verið að auka gjöld heimilanna um hundruð þúsunda á mánuði.

„Það er gríðarlega alvarleg staða. Hvað á svo að gera? Hvað á að gera þegar sparnaðurinn er uppurinn? Þessu tímabili, þessum útgjöldum og þessum vaxtahækkunum er ekki lokið. Það mun taka sinn tíma að fara niður. Þá verður fólk í rauninni í verri stöðu heldur en það var áður. Það er gríðarlega vont að sjá fyrir sér,“ segir Ásthildur Lóa.

Hún segir fólk vera orðið heldur örvæntingarfullt. Þá hafi stjórnvöld engan áhuga á að aðstoða heimilin.

„Stjórnvöld hafa bara engan áhuga á stöðu heimilanna. Það er nákvæmlega mín skoðun. Þau geta sagt það en aðgerðir tala hærra heldur en orðin og það bara sést að stjórnvöld og seðlabankinn hafa engar áhyggjur af heimilum landsins. Þau eru algjörlega tilbúin til að fórna þeim enn og aftur fyrir bankana,“ segir Ásthildur Lóa.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×