Neytendur

Rándýr samloka á Hvolsvelli

Jakob Bjarnar skrifar
Teitur segir að í góðu lagi sé að Ísland sé dýrt. Engu að síður varð hann hissa þegar hann þurfti að punga út 1.045 krónum fyrir eina samloku á einum viðkomustaðnum.
Teitur segir að í góðu lagi sé að Ísland sé dýrt. Engu að síður varð hann hissa þegar hann þurfti að punga út 1.045 krónum fyrir eina samloku á einum viðkomustaðnum. aðsend

Dýrtíðin á ferðamannaslóð er farin að segja til sín. Teitur Þorkelsson leiðsögumanni brá í brún þegar hann fékk til sín strimilinn eftir að hafa greitt fyrir samloku og komst að því að hún kostaði 1.045 krónur.

„Ég varð svolítið hissa,“ segir Teitur í samtali við Vísi. Hann segist yfirleitt hafa eitthvað með sér áður en hann leggur upp, ávexti, grænmeti, hnetur og eitthvað en greip á dögunum samloku á bensínstöðinni á Hvolsvelli og þótt þetta heldur dýrt.

„Hún var allt í lagi,“ segir Teitur spurður um hvernig hafi bragðast. 

Undraðist hversu dýr samlokan reyndist

Teitur er einherji, rekur lítið ferðaþjónustufyrirtæki sem heitir Polar Front Adventures, sem er með sérsaumaða þjónustu fyrir litla hópa. Teitur tekur skýrt fram að á Hvolsvöll sé afar gott að koma. Vel sé gert við alla leiðsögumenn og þar fái þeir kjötsúpu sér að kostnaðarlausu.

Teitur segir samlokuna hafa verið í lagi en kannski svolítið dýr. Hvolsvöllur er hins vegar í miklu uppáhaldi meðal leiðsögumanna, þar er tekið vel á móti þeim með ókeypis kjötsúpu.aðsend

„Þetta er uppáhaldsstaðurinn fyrir leiðsögumenn, kjötsúpa í boði, mikil manngæska og allir vingjarnlegir – hvergi betur tekið á móti manni. Kannski er verðlagningin allstaðar orðin þessi í dag eða kannski var hún eitthvað sérstaklega dýr þessi samloka. Ég var bara svolítið hissa. En maður tekur yfirleitt ekki eftir þessu.“

Teitur segir að verðlagningin sé auðvitað mismunandi og dýrust á bensínstöðvum, fólk fari til að mynda ekki þangað til að versla í matinn. Og hann reyni að gæta að hagsmunum þess hóps sem hann er með hverju sinni; ef hægt er að fá vöru og þjónustu á betra verði þá leitist leiðsögumenn við að fara með sína ferðamenn þangað.

Í lagi að Ísland sé dýrt

En er ekki þarna ákveðin hætta á ferð, ef dýrtíðin er orðin slík að það fari að spyrjast að á Íslandi sé verið að hafa ferðamanninn að féþúfu? Að vertíðarandinn geti komið í bakið á þessari starfsgrein?

„Það vita það allir sem vita vilja að það er allt ýkt á íslandi. Allt hér kostar fullt af peningum. Ég er ekki í því að kvarta undan kostnaði alla jafna. 

Teitur segist reyna að gæta hagsmuna sinna ferðamanna. Hann rekur lítið fyrirtæki á sviði ferðaþjónustu og sérsaumar ferðir fyrir sína ferðamenn.aðstend

Vissulega er gisting orðin dýr, nótt á hóteli er frá 30 þúsund krónum upp í 100 þúsund krónur nóttin. Fer eftir því hvernig herbergin eru. En þetta er auðvitað bara framboð og eftirspurn. Ég er ekki að selja mig ódýrt og þannig er það bara.“

Teitur segist ekki hræddur um að Ísland sé of dýrt.

„Fólk segir bara já og svo ræða menn ekki meira um það. Þetta er þannig í Noregi og þannig í Sviss og allt í lagi að Ísland sé á dýrri hillu í þessum bransa.“

Stjórnleysi í greininni

Teitur segir hins vegar það ákveðið áhyggjuefni, sem svo tengist íslenskri menningu, er að hér er allt meira og minna stjórnlaust.

„Ráðherra ferðamála er ekki að stjórna neinu, ferðamálstjóri er ekki að stjórna neinu… og nú bætast skemmtiferðaskip við þetta venjulega. Skyndilega eru tíu rútur að mæta samtímis á vinsæla staði. Þá myndast kös og röð á klósettin. Þá stendur landið ekki undir háum verðmiða. Ef þú ætlar að selja dýrt verður þú að hafa einhver gæði að bjóða uppá.“

Teitur segir landið uppselt og hefur áhyggjur af þeirri viðbót sem rútur sem fara með ferðamenn sem hingað koma með skemmtiferðaskipum mæta á vinsæla staði; þá myndist kös og þá standi landið ekki lengur undir því að selja sig dýrt.aðsend

Ferðmenn koma til Íslands til að upplifa víðerni en ekki mannmergð. Teitur segist hafa rætt þetta við stjórnmálamenn, hvort ekki þurfi regluverk en þeir svara því til að það sé bara á könnu ferðamannageirans.

„En allir eru að hugsa um sitt. Ég held að allir sem eru í harðri gagnrýni á þessa ferðamennsku séu með áhyggjur af rútuhernaði sem kemur frá þessum skemmtiferðaskipum. Sem bætist ofan á uppselt land. En þá bregst ég bara við með því að fara inn á hálendið, bý til mínar eigin ferðir.“

Teitur segir almennt það fagnaðarefni að nóg sé að gera. Greinin hafi endurreist landið eftir bankahrun og um sé að ræða mestu og bestu byggðastefnu sem um getur; fólk sé að flytjast aftur á æskuslóðir til að sinna ferðamennskunni.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.