Neytendur

Skammaðist sín fyrir að vera Ís­lendingur

Vésteinn Örn Pétursson og Viktor Örn Ásgeirsson skrifa

Hundrað og sjötíu farþegar sátu fastir á flugvellinum í Glasgow í hátt í fjörutíu tíma, á meðan þeir biðu þess að komast um borð í vél til Íslands. Vélin lenti á Keflavíkurflugvelli upp úr klukkan tvö í nótt. Ástæða seinkunarinnar var bilun í vélinni. Þegar varahlutur barst reyndist hann síðan ónothæfur. Einn farþega segist hafa skammast sín fyrir að vera Íslendingur.

Upplýsingafulltrúi Icelandair tjáði fréttastofu í gærkvöldi að ákveðið hefði verið að senda aðra flugvél en þá sem var biluð til þess að sækja farþegana. Mannleg mistök hafi orðið þess valdandi að ekki var hægt að fara á loft fyrr en raun bar vitni og að félagið harmaði seinkunina.

Einn farþega vélarinnar, Jóna Ástríður Jóhannsdóttir, hefur tjáð fréttastofu að biðin hafi tekið mikið á farþega og hún hafi skammast sín fyrir að vera Íslendingur. Á þrjátíu og átta tímum hafi hver farþegi fengið 70 pund til að kaupa sér mat, og samskipti við flugfélagið hafi ekki verið góð. Hún hafi við komuna til Íslands ekið erlendum hjónum, sem voru í miklu uppnámi eftir að hafa misst tvo daga af fríi sínu og ekki séð fram á að komast á Selfoss um nóttina, á hótel þeirra fyrir austan fjall.

Formaður Neytendasamtakanna segir rétt farþega ríkan í aðstæðum sem þessum. Þar sé meðal annars réttur til hótelgistingar, þegar töfin er þetta löng.

Fólk átti sig ekki á réttarstöðunni

„Mér virðist, í þessu dæmi sem verið er að ræða, að vandamálið hafi verið samskiptaleysi og það að það hafi ekki verið allar upplýsingar til staðar,“ segir Breki Karlsson formaður samtakanna.

Ef farþegum hefði verið tjáð hvernig í pottinn væri búið hefðu þeir getað gert viðeigandi ráðstafanir og nýtt rétt sinn. 

„Að öðru leyti þá á fólk líka rétt á að fá staðlaðar skaðabætur, sem eru fyrir þessa lengd 250 evrur. Fyrir lengri flug getur það verið allt að 600 evrur,“ segir Breki og bætir við að reynsla Neytendasamtakanna sé sú að Icelandair greiði fólki almennt þær bætur sem því ber.

Hann telur að fólk átti sig ekki á réttarstöðu sinni í öllum tilvikum og hafa samtökin sett upp sérstaka vefsíðu, ns.is/flug, þar sem fólk getur reiknað út mögulegar skaðabætur, með hliðsjón af atvikum máls.

Icelandair harmar atvikið

Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi Icelandair segir í nýju svari til fréttastofu að reynt hafi verið að koma til móts við farþega.

„Við höfum sent farþegum upplýsingar um hvernig þau sækja bætur. Við reyndum eftir fremsta megni að upplýsa farþega um stöðuna með okkar bestu upplýsingum á hverjum tíma og sendum í heildina tíu upplýsingapósta/-skilaboð. Okkur þykir mjög leitt hvernig fór og viljum biðja farþega afsökunar á þeirri töf sem varð á ferð þeirra.“


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×