Neytendur

Maki krókinn hjá bönkunum á kostnað heimila og neyt­enda

Máni Snær Þorláksson skrifar
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, gagnrýnir gífurlegan hagnað bankanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, gagnrýnir gífurlegan hagnað bankanna. Vísir/Sigurjón

Stóru viðskiptabankarnir þrír högnuðust um rúmlega tuttugu milljarða á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Formaður Neytendasamtakanna segir að um gífurlegan hagnað sé að ræða. Hagnaðurinn sé drifinn áfram af stýrivaxtahækkunum Seðlabankans sem bitna einungis á lántakendum.

„Ákvarðanir um vaxtahækkanir eru að maka krókinn hjá bönkunum, það er bara skýrt og klárt,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, í samtali við fréttastofu. „Þarna er verið að færa pening frá öllum lántökum, öllum þeim heimilum og neytendum sem eru með lán, frá þeim og til bankanna. Þannig virkar þetta.“

Greint var frá því í gær að bankarnir hafi jafnvel farið yfir áætlanir hvað varðar arðsemi fyrsta ársfjórðungs. Breki gagnrýnir að bankarnir séu að taka svona mikið til sín á kostnað heimila og neytenda.

„Það er galið að þeir séu hástökkvarar í arðsemi á tímum þar sem það er krafa stjórnvalda, atvinnulífsins og launþega að allir sýni ráðdeild og velti ekki öllum kostnaði yfir á heimilin og neytendur. Þarna sjáum við bara að bankarnir hafa tekið til sín stærri skerf af kökunni heldur en þeir sjálfir ætluðu sér. Það er langt til seilst.“

Skuldlaus heimili „stikkfrí“

Breki bendir á að það séu ekki öll heimili hér á landi sem skulda. Þessar vaxtahækkanir sem ýta undir hagnað bankanna séu því ekki að hafa áhrif á þau heimili. „Það eru á að giska þrjátíu prósent heimila sem skulda ekki neitt. Þessar vaxtahækkanir bíta ekkert á þau, það eru einungis heimilin sem skulda sem verða fyrir þessum þungu búsefjum sem vaxtahækkanirnar eru,“ segir hann.

„Það hefur margsinnis komið fram að að meðaltali höfum við það ágætt á Íslandi. En meðaltal virkar nú þannig að ef þú ert með aðra löppina í brennandi heitu vatni og hina í ísköldu vatni þá hefurðu það að meðaltali gott.“

Breki segir þau heimili sem ekkert skulda séu því „nánast stikkfrí“ frá aðgerðum Seðlabankans. 

„Núna hefur Seðlabankinn gefið út að það þurfi að slá á einkaneyslu en það er ekki verið að slá á einkaneyslu þeirra sem skulda ekki neitt með þessu.“

Aðgerðirnar hafi mögulega öfug áhrif

Breki veltir því fyrir sér hvort aðgerðir Seðlabankans séu að hafa þveröfug áhrif. Það er að segja hvort þær séu beinlínis að ýta undir verðbólguna í stað þess að minnka hana. „Það má jafnvel velta fyrir sér hvort ruðningsáhrif vaxtahækkana Seðlabankans séu farin að verða verri heldur en verðbólgan sem hún er að reyna að ryðja úr vegi,“ segir hann.

„Við sjáum það að reiknuð leiga er að hækka mjög mikið í tölum Hagstofunnar um verðbólgu, undanfarna tvo mánuði sérstaklega. Það má ætla að það sé bein afleiðing vaxtahækkana. Þannig það er spurning hvort vaxtahækkanir Seðlabankans séu að hafa áhrif til hækkunar verðbólgunnar sem hann hefur verið að berjast gegn.“

Þá segir Breki að annars staðar á Norðurlöndunum sé verðbólga farin að lækka stöðugt. „Verðbólga í Danmörku er til dæmis að fara niður sex mánuði í röð, samt eru stýrivextir þar mun lægri en hér,“ segir hann.

„Þeir eru að ná tökum á sinni verðbólgu með mun hóflegri aðgerðum. Það eru líka allar þessar gífurlegu sveiflur sem maður er að hafa áhyggjur af að sé verið að búa til með þessum gígantísku hækkunum.“

„Ein skilgreining á brjálæði“

Breki telur að það þurfi að leita annarra lausna heldur en að hækka stýrivexti aftur og aftur. „Þannig það er alveg spurning hvort það verði ekki að tala um fílinn í herberginu, sem eru þá ríkisfjármálin, bæði á tekju- og gjaldaliðnum,“ segir hann.

„Það er náttúrulega aldrei vinsælt að tala um skatta en það er spurning hvort það þurfi ekki að fara að tala um tekjuhlið ríkisins til þess að ná niður verðbólgunni og náttúrulega aðhald í ríkisfjármálum eins og hefur verið talað um, ég er ekkert að finna upp hjólið í því.“

Fólk hafi talað um skatta eins og hvalrekaskatt, erfðafjárskatt, hátekjuskatt og auðlindagjald. „Það eru alls konar leiðir í því, ég er enginn pólitíkus og er ekkert að finna upp hjólið,“ segir Breki.

  „Það sýnir sig að undanfarnar þrettán stýrivaxtahækkanir hafa ekki skilað þeim árangri sem vænst var af þeim sem ákváðu að hækka stýrivexti. Það að gera alltaf sama hlutinn aftur og aftur og aftur og vænta annarrar niðurstöðu, það er ein skilgreining á brjálæði.“

Því þurfi fólk að velta því fyrir sér hvort ekki sé komið að því að grípa til annarra aðgerða en að velta ábyrgðinni yfir á lántakendur og leigjendur með vaxtahækkunum.

„Sem eru bara að hækka bónusa hjá stjórnendum bankanna.“

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.