Innherji

Þórð­ur Magn­ús­son hætt­ir sem stjórn­ar­for­mað­ur Eyr­is eft­ir 23 ára starf

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
„ Ég mun þó áfram sinna spennandi stjórnarverkefnum og vonandi geta stutt áfram við sprota og fólk framtíðarinnar, “ segir Þórður.
„ Ég mun þó áfram sinna spennandi stjórnarverkefnum og vonandi geta stutt áfram við sprota og fólk framtíðarinnar, “ segir Þórður. Aðsend

Þórður Magnússon hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs í stjórn Eyris Invest. Hann hefur leitt félagið sem stjórnarformaður í 23 ár. Friðrik Jóhannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Burðarás, mun taka við sem stjórnarformaður fjárfestingafélagsins. Hann mun koma nýr inn í stjórnina ásamt Elínu Sigfúsdóttur, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans. Kristín Pétursdóttir, annar stofnandi Auðar Capital, mun ekki heldur gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Ný stjórn hefur skipt með sér verkum. Aðalfundur Eyris Invest fer fram 10. maí næstkomandi.

Þórður er stærsti einstaki hluthafinn í félaginu með um 21 prósenta hlut. Þórður mun áfram sitja í stjórnum ýmissa fyrirtækja auk þess sem hann mun styðja við sprotaumhverfið. Þórður ákvað einnig að gefa ekki kost á sér áfram sem stjórnarformaður Eyris Venture Management (EVM) og sjóða í stýringu þess. Herdís Dröfn Fjeldsted, sem stýrðu Framtakssjóði Íslands um árabil, hefur tekið við sem stjórnarformaður EVM.

Friðrik Jóhannsson, nýr stjórnarformaður Eyris Invest.Aðsend

Eyrir Invest er fjárfestingafélag í eigu fagfjárfesta og fjársterkra einstaklinga. Næststærsti hluthafinn er Árni Oddur, sonur Þórðar með um 18 prósenta hlut. Hann er forstjóri Marels.

„Eftir að hafa stofnað Eyri Invest með Árna Oddi og leitt félagið í 23 ævintýraleg ár tel ég að nú sé kominn tími á breytingar sem felast í því að ég víki fyrir framúrskarandi fólki sem hefur áhuga á að leiða félagið til framtíðar,“ segir Þórður í tilkynningu. 

„Á undanförnum árum hef ég fyrst og fremst litið svo á að ég sé í hlutverki mentors til að styðja við afburðahæft fólk hjá Eyri og félögunum en nú blasir við að þau eru fullfær um að taka við keflinu og axla enn meiri ábyrgð. Ég mun þó áfram sinna spennandi stjórnarverkefnum og vonandi geta stutt áfram við sprota og fólk framtíðarinnar. Svo er það auðvitað svo að lífið hefur upp á svo margt að bjóða og okkur hjónin langar að sinna öðrum áhugamálum á meðan við búum svo vel að vera við góða heilsu og hafa tækifæri til. Því hlakka ég til að njóta framtíðarinnar og fylgjast sem hluthafi með vexti Eyris, Marel og félaganna sem við erum svo stolt af að hafa komið að,“ segir Þórður í tilkynningu.

Signý Sif Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Eyris Invest.Aðsend

Samhliða er unnið að því að einfalda og skerpa skipulag Eyris Invest og félaga sem því tengjast. Signý Sif Sigurðardóttir hefur nú tekið ein við starfi framkvæmdastjóra félagsins en áður voru framkvæmdastjórar tveir. Margrét Jónsdóttir sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra rekstrar hefur ákveðið að láta af störfum eftir 19 ára farsælt starf hjá félaginu. Signý Sif hóf störf hjá Eyri Invest sem framkvæmdastjóri fjármögnunar árið 2021 en var áður forstöðumaður fjárstýringar hjá Landsvirkjun.

Eyrir Invest er stærsti hluthafinn í Marel, með tæplega fjórðungshlut, og hefur leitt félagið til vaxtar á síðustu tuttugu árum. Eyrir var jafnframt stærsti innlendi hluthafinn í Össuri frá 2004 til 2011. Á umræddum tíma hafa umsvif þessara fyrirtækja vaxið gríðarlega, rekstrargrundvöllur þeirra styrkst, tekjustoðum fjölgað og rannsóknar- og þróunarstarf eflst. 

Herdís Dröfn Fjeldsted tók við sem stjórnarformaður Eyris Venture Management.Aðsend

Eyrir Invest á auk þess kjölfestuhlut í Eyri Sprotum og Eyri Vexti. Eyrir Invest er einnig eini hluthafi Eyris Venture og eru allir þessir sjóðir þátttakendur í fjölmörgum fyrirtækjum af ólíkum stærðargráðum í íslensku viðskiptalífi.

Fjárfestingafélagið tapaði yfir 80 milljörðum króna í fyrra samtímis verulegri lækkun á hlutabréfaverði Marels og til að tryggja fjárhagsstöðuna þurfti Eyrir Invest að ráðast í endurfjármögnun á skuldum sínum undir lok síðasta árs. Eigið fé Eyris stóð í rúmlega 350 milljónum evra í árslok 2022.

Auk Friðriks og Elínar leggur stjórn til að Hrund Gunnsteinsdóttir, Ólafur Steinn Guðmundsson og Stefán Árni Auðólfsson sitji áfram í stjórn en þau hafa setið í stjórn Eyris Invest undanfarin ár.

Friðrik hefur sinnt stjórnunarstörfum á sviði eignastýringar, tryggingarekstrar auk fjárfestingabankastarfsemi. Hann hefur setið í yfir 30 stjórnum, þar á meðal Marel, Eimskip, Kauphöllinni og Framtakssjóðs Íslands. Elín starfaði um árabil sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans og síðar sem bankastjóri auk þess að hafa setið í stjórnum og bankaráði Búnaðarbankans.


Tengdar fréttir

Eyrir Invest tapaði yfir 80 milljörðum eftir mikið verð­fall á bréfum Marels

Mikil umskipti urðu á afkomu Eyris Invest á árinu 2022 samtímis verulegri lækkun á hlutabréfaverði Marels, langsamlega stærstu eign fjárfestingafélagsins, og nam tapið samtals um 83 milljörðum króna. Til að tryggja fjárhagsstöðuna þurfti félagið að ráðast í endurfjármögnun á skuldum sínum undir lok síðasta árs en virkir vextir á breytanlegu láni sem Eyrir fékk frá erlendum sjóðum eru 17,4 prósent.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×