Viðskipti innlent

Halldór Benjamín lætur af störfum

Máni Snær Þorláksson skrifar
Halldór Benjamín hefur verið framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í tæp sjö ár.
Halldór Benjamín hefur verið framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í tæp sjö ár. Vísir/Arnar

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA) hefur ákveðið að láta af störfum. Hann mun taka við nýju starfi sem forstjóri Regins í sumar.

Halldór Benjamín Þorbergsson hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra SA undanfarin sjö ár. Fram kemur í tilkynningu frá samtökunum að hann sé búinn að ákveða að láta af störfum sökum þess að hann er að taka við nýju starfi. 

„Það eru óneitanlega blendnar tilfinningar sem fylgja því að kveðja þennan vettvang, enda eru alger forréttindi að gegna starfi framkvæmdastjóra SA. Starfið hjá SA hefur verið mjög lærdómsríkt og skemmtilegt en það er á sama tíma engum hollt að vera í slíku starfi of lengi,“ er haft eftir Halldóri í tilkynningunni.

Þá segist hann vera lánsamur að hafa átt gott samstarf við starfsfólkið og stjórnarmenn:

„Ég veit að ég skil við starf samtakanna í góðum höndum, hjá öflugum hópi starfsfólks og stjórnarmanna, sem ég hef verið svo lánsamur að eiga gott samstarf við á þeim tæpu 7 árum sem ég hef gegnt þessu starfi.“

Tekur við sem forstjóri Regins

Starfið sem Halldór er að taka við er starf forstjóra Regins hf. en Halldór mun hefja störf þar fyrri hluta sumars á þessu ári. Fram kemur í tilkynningu frá Regin að Helgi S. Gunnarsson, sem gegnt hefur starfi forstjóra frá stofnun félagsins árið 2009, muni láta af störfum á sama tíma. Hann verði þó Halldóri innan handar til að byrja með.

„Stjórn Regins er afar stolt af því að hafa fengið til liðs við félagið öflugan leiðtoga til að leiða áframhaldandi uppbyggingu Regins. Halldór Benjamín hefur í störfum sínum sýnt mikla forystuhæfileika og getu til að leiða vandasöm verkefni til lykta. Hann hefur yfirburðaþekkingu og tengsl í íslensku atvinnulífi sem munu reynast bæði félaginu og viðskiptavinum þess vel. 

Stjórnin hefur miklar væntingar til Halldórs Benjamíns til að leiða félagið áfram til vaxtar í samræmi við framtíðarsýn þess,“ er haft eftir Tómasi Kristjánssyni, stjórnarformanni Regins, í tilkynningunni frá félaginu.

Fréttin verður uppfærð.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.