Viðskipti innlent

Gústi B og Rikki G opna FM95mathöll

Bjarki Sigurðsson skrifar
Gústi B ásamt merki nýju mathallarinnar. Er það byggt á gömlu merki FM957.
Gústi B ásamt merki nýju mathallarinnar. Er það byggt á gömlu merki FM957. Aðsend

Ný mathöll verður opnuð í JL-húsinu í vesturbæ Reykjavíkur við hátíðlega athöfn klukkan 11:30 í dag. Það eru útvarpsmennirnir Ágúst Beinteinn Árnason, betur þekktur sem Gústi B, og Ríkharð Óskar Guðnason, betur þekktur sem Rikki G, sem eru í forsvari fyrir hana. Mun hún heita FM95Mathöll. 

Fyrirtækið Mathöll Ventures ehf. er rekstraraðili mathallarinnar. Alls verða þar sex veitingastaðir, þar á meðal nýr staður Gústa, Matar-Veislan. Þar verður til að mynda boðið upp á TikTok-hamborgara, FM95Franskar og fleiri rétti.

Hundrað fyrstu sem mæta á opnun mathallarinnar borða frítt á einum af nýju stöðum mathallarinnar. Þá fara allir gestir í pott og geta unnið veglega vinninga, þar á meðal ársbyrgðir af FM95frönskum. Þeir Gústi og Rikki verða að sjálfsögðu á svæðinu og hver veit nema þeir grípi sjálfir í grillspaðann. 

„Þetta er bara geggjað. Það er ógeðslega gaman að gera eitthvað nýtt og bjóða upp á eitthvað svona spennandi. Við Rikki erum auðvitað geggjað teymi, við erum búnir að vera saman í útvarpinu og erum miklir „business-kallar“,“ segir Gústi B í samtali við fréttastofu.

„Mér líst svo vel á Gústa, það er svo gaman að vinna með honum þannig það var bara tímaspursmál hvenær við færum saman í eitthvað annað verkefni,“ segir Rikki sem lofar besta kaffinu á landinu í kaffihorni mathallarinnar, Brennslunni. 


Fleiri fréttir

Sjá meira


×