Innlent

Hætta starf­semi ung­menna­búða á Laugar­vatni

Máni Snær Þorláksson skrifar
UMFÍ hefur starfrækt ungmennabúðir á Laugarvatni frá árinu 2019.
UMFÍ hefur starfrækt ungmennabúðir á Laugarvatni frá árinu 2019. Aðsend

Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) hefur ákveðið að hætta starfsemi ungmennabúða á Laugarvatni. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að rekja megi ákvörðunina til myglu og rakaskemmda sem fundust í febrúar á þessu ári. 

Ungmennabúðunum var lokað tímabundið í síðasta mánuði vegna myglu og rakaskemmda. Bláskógabyggð á húsnæðið og upplýsti UMFÍ að sveitarfélagið ætlaði ekki að fara í nauðsynlegar framkvæmdir til að hægt væri að halda starsfemi þar áfram. Bláskógabyggð bauð hins vegar UMFÍ að kaupa húsnæðið og sjá þá um framkvæmdirnar.

Í tilkynningu frá UMFÍ kemur fram að stjórn og stjórnendur félagsins hafi skoðað og metið framkvæmda- og kostnaðaráætlanir í tengslum við það til framtíðar. Það hafi þó verið mat þeirra að áætlaður kostnaður við kaup og framkvæmdir væri af þeirri stærðargráðu að ekki væri skynsamlegt að takast að fara í það.

„Stjórn UMFÍ þykir afar miður að þetta sé niðurstaðan og þar með tilneydd til að ljúka starfsemi Ungmennabúðanna á Laugarvatni.

Öllum þeim sem komið hafa að starfi Ungmennabúða UMFÍ í gegnum tíðina, kennurum, nemendum og öðrum gestum í gegnum árin vill UMFÍ þakka innilega fyrir ómetanlegt framlag. Við vonum að þær minningar sem starfsemi búðanna skilur eftir verði þátttakendum gott veganesti til framtíðar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×