Lögin fjögur eru „Eyes Open,“ „Safe and Sound,“ „This Was a Movie,“ og „All of the Girls You Loved Before.“ Síðastnefnda laginu var lekið í febrúar á þessu ári og hlaut mikið lof fyrir, meðal annars á samfélagsmiðlinum TikTok.
Tvö laganna, sem þá hétu „Eyes Wide Open“ og „Safe & Sound,“ voru upphaflega í fyrstu Hunger Games myndinni árið 2012. Þau verða því líklega gefin út í nýrri útgáfu. Variety greinir frá.
Fyrir íslenska aðdáendur ber að hafa í huga að Taylor miðar við miðnætti á austurströnd Bandaríkjanna. Lögin koma því ekki út fyrr en klukkan fjögur í nótt á íslenskum tíma.
Tónleikaferðalag Swift hefst formlega á morgun, með tónleikum í Glendale í Arizona. Þetta er fyrsta tónleikaferðalag Swift síðan árið 2018 sem hún hélt í tilefni af plötu sinni „Reputation.“ Síðan þá hefur hún gefið út fjórar plötur ásamt því að hafa gefið út tvær plötur í nýrri útgáfu.