Neytendur

Klappið umtalaða hjá Strætó vinnur til alþjóðlegra verðlauna

Máni Snær Þorláksson skrifar
Klappið hlaut alþjóðleg verðlaun.
Klappið hlaut alþjóðleg verðlaun. Vísir/Egill/Strætó

Klappið, greiðslukerfi Strætó, hlaut alþjóðleg verðlaun sem veitt eru framúrskarandi lausnum á sviði rafrænna greiðslukerfa. Greiðslukerfið hefur verið nokkuð umtalað síðan það var tekið í gagnið og valdið mörgum notandanum hugarangri.

Greiðslukerfi Strætó var á meðal sjö tilnefndra greiðslukerfa og fékk það sérstök verðlaun fyrir besta greiðslukerfi almenningssamgangna með færri en 200 þúsund daglegar ferðir.

Daði Áslaugarson, yfirmaður upplýsingatæknimála hjá Strætó, segir að viðurkenningin sé sérstaklega ánægjuleg því dómnefndin sé skipuð fremstu sérfræðingum heims á sviðinu. Þá hafi aldrei verið sendar inn fleiri tilnefningar.

„Hún sýnir okkur að við erum á réttri leið og hvetur okkur til að halda ótrauð áfram á þeirri löngu vegferð að gera greiðslukerfi Strætó að frábærri lausn fyrir bæði farþega og alla þá sem vinna við að gera almenningssamgöngur að góðum valkosti fyrir fólk á ferðinni,“ er haft eftir Daða í tilkynningunni.

Þá segir Daði að nýjungar séu í fatvatninu. Meðal annars greiðsluþak og að hægt verði að greiða beint með snertilausu greiðslukorti.

Umdeilt greiðslukerfi

Það er óhætt að segja að Klappið sé umdeilt. Síðan því var hleypt af stokkunum fyrir jólin 2021 hafa notendur Strætó reglulega kvartað yfir greiðslukerfinu. 

Í apríl í fyrra var fjallað um greiðslukerfið og brösulegt upphaf þess í kvöldfréttum Stöðvar 2. Strætó var miður sín vegna vandamálsins og lofaði miklum breytingum strax.

Í nóvember á sama ári var svo greint frá því að skipta ætti út skönnum í Strætó svo hægt væri að taka við snertilausum greiðslum. 

Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, sagði þá að nýju skannarnir myndu vonandi leysa þau „litlu vandamál“ sem eftir lifa af skannavandamálum Strætó.

Þessi vandamál virðast þó ekki vera alveg úr sögunni ef marka má ummæli um Klappið á samfélagsmiðlinum Twitter. Þar kvarta netverjar reglulega yfir greiðslukerfinu. 

Síðast í febrúar var bent á að það væri frosið með tilheyrandi vandamálum.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×