Umræðan

Um starfskjör forstjóra

Árni Guðmundsson skrifar

Nýlega hafa verið sagðar fréttir af launakjörum forstjóra skráðra fyrirtækja hér á landi sem eiga það öll sameiginlegt að vera að nokkrum eða stórum hluta í eigu íslenskra lífeyrissjóða. Einn þeirra er Gildi-lífeyrissjóður.

Meðal annars hefur komið fram að nýr forstjóri Skel fékk að meðaltali tæplega 19 milljónir í laun og kaupaukagreiðslur á mánuði í fyrra og forstjóri Símans var með 9,7 milljónir króna að meðaltali á mánuði.

Nú vil ég taka fram að forstjórar fyrirtækja sinna flóknum og krefjandi verkefnum og eðlilegt er að launakjör þeirra taki mið af því. En umræddar upphæðir eru hins vegar úr takti við það sem eðlilegt getur talist í íslensku samfélagi. Enda hefur Gildi síðustu ár beitt sér gegn þeirri þróun í launakjörum sem við sjáum nú raungerast. Sú vinna byggir á hluthafastefnu sjóðsins þar sem tekin er einörð afstaða í þessum málum, en þar segir meðal annars: „Ef félög ákveða að notast við árangurstengd launakerfi er rétt að föst laun séu að sama skapi lægri, samanborið við félög þar sem slík árangurstengd kerfi eru ekki til staðar“. 

Reynslan hefur hins vegar sýnt að sífellt er verið að bæta við kaupaukum í ýmsu formi til stjórnenda án þess að það komi niður á háum föstum launum.

Forstjórar fyrirtækja sinna flóknum og krefjandi verkefnum og eðlilegt er að launakjör þeirra taki mið af því. En umræddar upphæðir eru hins vegar úr takti við það sem eðlilegt getur talist í íslensku samfélagi.

Greiðir atkvæði í samræmi við stefnu

Gildi hefur ítrekað beitt sér í samræmi við þessa stefnu síðustu ár. Í fyrra greiddu fulltrúar sjóðsins til að mynda atkvæði gegn starfskjarastefnu Arion á ársfundi bankans. Stefnan var engu að síður samþykkt. Gildi greiddi atkvæði gegn tillögum um breytingar á starfskjarastefnu og kaupréttaráætlun á aðalfundi Skeljungs 10. mars 2022 (nafni félagsins var breytt í Skel á sama fundi). Gildi sat hjá þegar tillaga um starfskjarastefnu Kviku banka var samþykkt á aðalfundi félagsins 31. mars 2022 og greiddi atkvæði gegn starfskjarastefnu Marel á aðalfundi 16. mars 2022 sem og tillögu um hlutabréfatengt hvatakerfi. Þá greiddi Gildi atkvæði gegn tillögu um starfskjarastefnu sem innihélt kaupaukakerfi á aðalfundi Icelandair 3. mars 2022.

Oft einn á móti straumnum

Gildi hefur oftast einn fjárfesta á markaði staðið á móti straumnum hvað þessar starfskjarastefnur varðar. Mikil vinna hefur verið lögð í greinargerðir og rökstuðning fyrir afstöðu sjóðsins en því miður hefur niðurstaðan oftast verið sú að starfskjarastefnurnar eru samþykktar, sem að lokum leiðir til launa- og bónusgreiðslna eins og rakið hefur verið hér að framan.

Höfundur er framkvæmdastjóri Gildi lífeyrissjóðs.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.