Umræðan

Icesave dómurinn: 10 ára afmæli

Jóhannes Karl Sveinsson skrifar

Það var 28. janúar 2013 sem EFTA-dómstóllinn kvað upp dóm sinn um að íslenska ríkið hefði ekki brotið af sér í hinu svokallaða Icesave máli. Með því lauk fjögurra ára harðri baráttu þar sem reynt hafði á EES-samninginn, samstarf við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn (AGS) og grunnhugmyndina um innstæðutryggingar sem síðasta haldreipið í fjármálakreppu.*

Ekki síður hafði reynt á hér innanlands. Stjórnmálaátök urðu gríðarleg um málið, stjórnarskráin sem íslenskur almenningur hafði lítið hugsað um áratugum saman var nýtt í tvígang til að skjóta málinu í þjóðaratkvæði þrátt fyrir að samningar um lausn málsins hefðu hlotið ríflegan þingmeirihluta.

Áhrif dómsniðurstöðunnar urðu margvísleg: Fáum mánuðum síðar varð Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem staðið hafði í farabroddi í baráttu gegn samningum um Icesave-málið, forsætisráðherra. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, sem leitt hafði samninga um málið, átti sér aldrei von eftir niðurstöðu dómsins.

Dómurinn leiddi líka í ljós veikleika innstæðutryggingakerfa og átti einnig eftir að leiða af sér harða gagnrýni á það hvernig stjórnkerfi og völd AGS voru nýtt til að ýta á Íslendinga að semja við Breta og Hollendinga um lausn málsins. Þegar yfir lauk breytti dómurinn hins vegar ekki miklu fyrir Breta og Hollendinga, sem höfðu borgað út innstæður í útibúum Landsbankans. Þær endurkröfur greiddust að fullu úr slitabúi Landsbankans ásamt talsverðum vöxtum.

Ég tel að Íslendingar geti að mörgu leyti verið stoltir af því hvernig unnið var úr þessu máli og það er ýmislegt áhugavert sem má minnast.

Ég tók þátt í samninga- og málflutningsteymi Íslands um Icesave-málið ásamt því að vera lögfræðilegur ráðgjafi stjórnvalda þegar ákvarðanir voru teknar um skiptingu Landsbankans og síðar samninga um uppgjör á milli gömlu og nýju bankanna. Flestir höfðu fengið nóg af málinu þegar því lauk og ekki mikið á það minnst nema til að berja á þeim stjórnmálamönnum sem höfðu samþykkt samninga á þingi. Ég tel að Íslendingar geti að mörgu leyti verið stoltir af því hvernig unnið var úr þessu máli og það er ýmislegt áhugavert sem má minnast.

Samstaða

Eftir að Icesave samningnum var hafnað í seinni skiptið í þjóðaratkvæðagreiðslu í apríl 2011 tók Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) málið upp á ný og krafði íslensk stjórnvöld svara og ábyrgðar hvernig þau teldu niðurstöðu kosninganna samrýmast skyldum gagnvart EES-samningum. Þær skyldur taldi ESA felast í því að ríkið ætti að búa svo um hnúta að innstæðutryggingakerfi landsins virkaði þegar á reyndi, en einnig að ekki mætti mismuna erlendum EES borgurum og Íslendingum þegar kæmi að innstæðutryggingum.

Það var viðskiptaráðuneytið, sem á þeim tíma var stýrt af Árna Páli Árnasyni, sem hélt á því kefli að verjast áminningarbréfum ESA. Í þeirri vinnu varð til stór hluti lögfræðilegrar málsvarnar Íslands. Kallaðir voru til sérfræðingar úr ýmsum áttum og sérstaklega var leitað til þeirra sem höfðu verið áberandi í andstöðu gegn Icesave-samningunum. Það var mjög ánægjulegt hversu vel sú samvinna tókst þrátt fyrir að það vantraust sem ríkt hafði skömmu áður.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands útbjó jafnframt mjög þýðingarmikið skjal sem sýndi svart á hvítu að innstæðutryggingakerfi geta ekki og hafa aldrei átt möguleika að virka þegar kerfishrun verður í bankastarfsemi.

Þegar ESA fór með málið fyrir EFTA dómstólinn fluttist málið yfir til utanríkisráðuneytisins þar sem Össur Skarphéðinsson réði ríkjum. Meirihluti utanríkismálanefndar hafði reyndar lagst gegn því að málið flyttist til ráðuneytisins, eins og venja var. Enn var skipað í hóp lögfræðinga til að skipuleggja varnir og var viðhaft víðtækt samráð, bæði á pólitískum vettvangi og við þá hópa sem höfðu áður barist gegn stefnu ráðherrans um samninga í málinu. Vikum og mánuðum saman vann þessi hópur að því að betrumbæta röksemdir og gögn sem hægt var að byggja á.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands útbjó jafnframt mjög þýðingarmikið skjal sem sýndi svart á hvítu að innstæðutryggingakerfi geta ekki og hafa aldrei átt möguleika að virka þegar kerfishrun verður í bankastarfsemi. Þá verður að beita öðrum úrræðum eins og gert hafði verið á Íslandi. Allt þetta starf gekk mjög vel og eldri andstæðingar sneru bökum saman á ögurstundu og fullt traust ríkti um hvernig halda ætti málstað Íslands á lofti.

Málflytjandi Íslands

Ákveðið var að Ísland myndi ráða aðalmálflutningsmann í Icesave málið. Ekki var langur tími til stefnu en fljótlega var lagt upp með að leita eftir enskum lögmanni með mikla reynslu af málflutningi fyrir alþjóðlegum dómstólum og þekkingu á sviði Evrópuréttar. Eftir víðtækt samráð var ákveðið að hafa samband við fjóra enska lögmenn og þeim send gögn málsins. Í byrjun janúar 2012 fór ég síðan ásamt tveimur fulltrúum íslenskra stjórnvalda, þeim Kristjáni Andra Stefánssyni, og Þóru Margréti Hjaltested, til London að halda nokkurs konar áheyrnarpróf. Fundað var einslega með hverjum lögmanni og hann beðinn um að segja skoðun sína á málinu og möguleikum Íslands. Allir höfðu lögmennirnir mikinn áhuga á að spreyta sig á málinu.

Að loknum áheyrnarprufum voru tvö nöfn eftir. Annars vegar einn reyndasti og virtasti enski lögmaðurinn sem völ var á, og hins vegar yngri maður, Tim Ward, sem var þá að ryðja sér rúms sem einn af bestu málflytjendum í Englandi, liðlega fertugur.

ESA reyndi að biðla til dómsins að senda skýr skilaboð til almennings í Evrópu um að innstæður væru tryggar og að ríkin væru ábyrg fyrir því. Sá málflutningur virkaði ekki.

Ekki var auðvelt að gera upp á milli þessara tveggja en ýmsum frumlegum aðferðum var þó beitt til að komast að niðurstöðu sem ekki má segja frá. Tim Ward var ráðinn til að vera málflytjandi Íslands. Honum fórst það einstaklega vel úr hendi og var allt samstarf við hann eins og best varð á kosið. Hann eyddi löngum stundum á Íslandi að kynna sér málið, ræða við stóran hóp fólks og einnig var ítrekað boðað til samráðs á vettvangi Alþingis. Hann vildi lítið gefa upp um líklega niðurstöðu málsins að eigin mati, en ekki fór á milli mála að hann lagði allt undir til að niðurstaðan yrði sem best fyrir Ísland.

Þegar málflutningur í Icesave málinu fór fram í Lúxemborg 18. september 2012 bar Tim Ward af öllum þeim fimm málflytjendum sem tóku þar til máls. Hann var rökfastur og áheyrilegur og reyndi ekki að beita neins konar brögðum. Málflytjandi Englendinga lýsti þó okkar málflutningi sem einhvers konar sjónhverfingum („smoke and mirrors“) og í málflutningi ESA var vísað til fréttaviðtals við íslenskan seðlabankastjóra sem átti að hafa sagt að íslenska ríkið myndi alltaf geta stutt við íslensku bankana. ESA reyndi líka að biðla til dómsins að senda skýr skilaboð til almennings í Evrópu um að innstæður væru tryggar og að ríkin væru ábyrg fyrir því. Sá málflutningur virkaði ekki.

Tim Ward var valinn málflutningsmaður ársins í Englandi árið 2013 (Barrister of the year) og var þar vísað til frammistöðu hans í Icesave málinu. Íslensk stjórnvöld hafa mér vitanlega ekki heiðrað hann sérstaklega þótt fullt tilefni sé til.

Innstæðutryggingakerfi – hver þarf þau?

Þrátt fyrir að Icesave hefði sýnt fram á veikleika innstæðutryggingakerfa var haldið áfram á sömu braut á vettvangi Evrópusambandsins. Reyndar voru gerðar ýmsar ráðstafanir í framhaldi bankakreppunnar 2008 til að minnka hættuna á því að skattgreiðendur þyrftu að greiða kostnað af bankagjaldþrotum. Ekki hefur þó verulega reynt á þau kerfi öll og að mínu viti eru þar veikleikar sem ekki hefur verið horfst í augu við. Evrópusambandið hefur hækkað lágmarksfjárhæð tryggðra innstæðna upp í 100.000 evrur (um 15 milljónir króna) sem er fimmföldun frá því sem var á tíma Icesave málsins og hefði þá málið verið til muna erfiðara viðfangs.

Að mínu mati ætti Ísland í lengstu lög að reyna að koma sér hjá því að þurfa að undirgangast jafn gagnslausa og hættulega löggjöf og dæmin sanna.

Enginn vafi er á því að innstæðutryggingakerfi samkvæmt uppskrift Evrópusambandsins ráða ekki við víðtækar fjármálakreppur og ef um er að ræða einangruð tilvik er mun nærtækara að beita öðrum úrræðum en tryggingakerfi. Einnig hef ég verulegar efasemdir um að slík kerfi þjóni einhverjum fjármálastöðugleikasjónarmiðum því innstæðueigendur munu alltaf frekar kjósa að taka fjármuni sína út á meðan það er hægt heldur en að bíða bara eftir því að banki verði gjaldþrota og sækja þá um greiðslu frá innstæðutryggingakerfinu. Innstæðutryggingakerfi koma því ekki í veg fyrir bankaáhlaup. Einnig er ljóst að innstæðutryggingakerfin munu einungis geta ráðið við hluta af heildarinnstæðum í hverju bankakerfi og veita falskt öryggi eins og dæmin sanna.

Íslensk lög um innstæðutryggingar eru ekki í samræmi við Evrópulöggjöfina og er þar í raun ekki kveðið á um neina lágmarksfjárhæð til tryggingar (einungis hámarksfjárhæð 100.000 evrur). Að mínu mati ætti Ísland í lengstu lög að reyna að koma sér hjá því að þurfa að undirgangast jafn gagnslausa og hættulega löggjöf og dæmin sanna.

Höfundur er lögmaður og meðeigandi á Landslögum. Jóhannes Karl átti meðal annars sæti í málflutningsteymi Íslands sem rak og flutti Icesave-málið fyrir EFTA-dómstólnum.

*Greinin birtist fyrst á vefsíðu Landslaga í gær, 28. janúar, í tilefni þess að tíu ár eru liðin frá því EFTA-dómstóllinn kvað upp dóm í Icesave-málinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×