Klinkið

Ríkisstjórnin þarf að virða leikreglurnar

Ritstjórn Innherja skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson vinnumarkaðsráðherra og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. 
Guðmundur Ingi Guðbrandsson vinnumarkaðsráðherra og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. 

Dramatískar yfirlýsingar formanns Eflingar héldu áfram um helgina. Þeim fjölgar ört óvinum hennar og greinilegt er að leikfléttan sem lengi hefur verið í undirbúningi, að ætla aldrei að semja eins og aðrir aðilar á vinnumarkaði en efna þess í stað til verkfalla til að knýja fram pólitísk áherslumál, er í uppnámi eftir útspil ríkissáttasemjara.

Fyrst var starfsfólk Eflingar vandamálið sem varð að hreinsa út. Svo voru það trúnaðarmenn félagsins. Engu skiptir þótt flest af þessu fólki hafi komið inn í baráttuna sem nýja verkalýðshreyfingin ásamt Sólveigu Önnu Jónsdóttur. Ef þú fylgdir ekki línu hennar í einu og öllu varðstu sjálfur óvinurinn. Svo varð forysta ASÍ vandamálið og yfirtaka þar gekk ekki. Þetta er segin saga: þá var auðvitað gengið út til að koma í veg fyrir mælingu á raunverulegum styrk. Og sama stendur til að gera nú, alls ekki má undir neinum kringumstæðum bera samninga og talsverðar kjarabætur og afturvirkar launahækkanir undir almenna félagsmenn, því það gæti komið í ljós að þeir styðji þá og hvað yrði þá um formann félagsins og öll stóryrði hans?

Formaður Eflingar óttast ekki bara atkvæðagreiðslu meðal starfsfólks hótela um verkfall, hún óttast að spilaborg hennar sé að hrynja.

Sólveig Anna segir digurbarkalega að Efling virði lög og leikreglur, en er það svo? Félagið afhendir ríkissáttasemjara ekki kjörskrá félagsins, eins og því ber að gera. Hann er nú óvinurinn. Félagið var dæmt í Félagsdómi um daginn en formaðurinn gaf ekkert fyrir það og bætti þeim dómstól samstundis á óvinalistann. Héraðsdómur mun bætast í þann hóp á næstu dögum, ef að líkum lætur.

Formaður Eflingar óttast ekki bara atkvæðagreiðslu meðal starfsfólks hótela um verkfall, hún óttast að spilaborg hennar sé að hrynja. Þess vegna er síðasta hálmstráið að skrifa vinnumarkaðsráðherra bréf og krefjast fundar með honum strax í fyrramálið. Formaðurinn sem vill virða leikreglur ætlar þannig að láta framkvæmdavaldið hlutast til um gjörðir ríkissáttasemjara og koma í veg fyrir atbeina dómstóla—hún er til í að gera allt til að virða ekki leikreglurnar sem í gildi eru. Það eiga bara allir að standa og sitja eins og hún vill. Annars er ófriður.

Hrifnæmur, brosmildur og réttsýnn formaður Eflingar er ekki hafinn yfir lög landsins.

Vinnumarkaðsráðherra getur auðvitað ekki blandað sér inn í deiluna á þessum tímapunkti. Nú er dómstóla að skera úr um hvort ríkissáttasemjari hefur heimildir sem halda að lögum. Ef hann fer að skipta sér af, þá er vandi ríkisstjórnarinnar um leið orðinn risastór, því þá þarf hún að leysa þá stöðu sem upp er komin, en halda um leið friði á vinnumarkaði.

Forsætisráðherra vill pottþétt ekki þessa sjóðheitu kartöflu í sitt fang og þess vegna hlýtur Guðmundur Ingi Guðbrandsson vinnumarkaðsráðherra að afþakka hið ekki svo kurteisa fundarboð formanns Eflingar og benda henni á leikreglurnar sem í gildi eru. Hrifnæmur, brosmildur og réttsýnn formaður Eflingar er ekki hafinn yfir lög landsins.

Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×