Niðurstöður nýrrar rannsóknar sýna að 46% starfsfólks í heiminum telur sig upplifa hamingjuna í vinnunni. Þá segjast 36% vera mjög ánægð alla daga eða flesta daga í vinnunni.
„Það sem kom mér skemmtilega á óvart er að efst á lista fólks um það sem skiptir máli eru atriði eins og frjálsræði í vinnu, að vera að gera eitthvað sem skiptir máli, að vinna við eitthvað sem veitir mér ánægju, að læra eitthvað nýtt í vinnunni og jafnvægi einkalífs og vinnu,“ segir Héðinn Sveinbjörnsson sem undanfarin misseri hefur boðað það erindi til allra sem vilja hlusta að hamingja í vinnunni sé mjög mikilvæg.
Launin og stöðuhækkun í neðstu sætum
Umrædd rannsókn var gerð á vegum The Woohoo partnership en þetta eru í raun samtök og samfélag um allan heim sem vinna að því statt og stöðugt að byggja upp hamingju á vinnustöðum.
Aðildarfélög eru vinnustaðir í öllum atvinnugreinum en meðal þekktra nafna má nefna KPMG, LEGO, Shell, Microsoft og Nespresso.
Könnunin fór þannig fram að í samstarfi við aðildarfélögin voru spurningar lagðar fyrir starfsfólk innan þeirra raða um allan heim.
Það sem vekur athygli er að í fimm neðstu sætunum mældust eftirfarandi liðir:
25. Í neðsta sæti mældist stöðuhækkun
24. Bónus eða önnur fjárhagsleg viðurkenning
23. Launahækkun
22. Frábær vinnuaðstaða, hönnunarlega séð og starfslega séð
21. Aðstaða eða atriði sem snúa að heilsu og vellíðan fyrir starfsfólk, til dæmis matur, drykkir, frítt nudd eða líkamsræktaraðstaða fyrir starfsfólk
„Þetta sýnir að það eru ekki utanaðkomandi áhrif eða ,,verðlaun“ sem mótíverar fólk heldur að fólki líki við það sem það er að gera, sé veitt frjálsræði og sjálfstjórn og upplifi árangurinn af vinnunni.“
Í efstu fimm sætunum um það sem fólk segir skipta mestu máli eru:
1. Í efsta sæti mældist tækifærið til fjarvinnu
2. Jafnvægi einkalífs og vinnu
3. Umhyggja vinnuveitenda fyrir vellíðan og heilsu starfsfókls
4. Tækifæri til sköpunar og skapandi hugsunar í vinnunni
5. Traust, samkennd og samvinna teymisins
„Þessar niðurstöður sýna vel að það verður að vera meining á bakvið vinnuna og jafnvægi á milli vinnu og einkalífs er mikilvægt,“ segir Héðinn sem sjálfur sagði upp starfi sem fjármálastjóri hjá Reykjavíkurborg, lærði að vera Chief Officer of Happines og starfar í dag sem þjónn á veitingastaðnum Bjargarsteinn í Grundarfirði.
Nú kynnu einhverjir að velta því fyrir sér hvers vegna það skipti mjög miklu máli að fólk upplifi hamingju í vinnunni. Enda ekki allir á barmi kulnunar þótt svo sé ekki.
Niðurstöðurnar hvað þetta varðar sýna skýrt að það er til mikils að vinna að horfa meira til ánægju og hamingju starfsfólks en veraldlega liði því 75% starfsfólks segist hafa meiri orku þegar það upplifir sig hamingjusamt í vinnunni og 67% segjast vera afslappaðri og minna stressað ef það er fyrst og fremst ánægt í vinnunni.
Þá sögðust tæplega 66% starfsfólks vera ánægðari í lífinu utan vinnu, þegar það upplifir sig mjög ánægt í starfi og hamingjusamt.
Niðurstöður könnunarinnar má sjá í skjali.