Umræðan

Lærdómurinn frá Þýskalandi

Þórður Gunnarsson skrifar

Öll Evrópa sýpur nú seyðið af þeim mistökum að hafa treyst um of á rússneska orkugjafa. Þar er um að ræða bæði jarðgas sem er nýtt til húshitunar, rafmagnsframleiðslu og reksturs samgangna. Sem og dísilolíu, sem knýr stóran hluta fólksbílaflotans, mestalla þungaflutninga auk vinnutækja sem nýtt eru til landbúnaðar- og matvælaframleiðslu. 

Sé litið til stærsta hagkerfisins Þýskalands sérstaklega, má gera ráð fyrir að um helmingur hráefna nýttra til orkuframleiðslu landsins hafi verið upprunninn frá Rússlandi þar til síðasta vor.

Rússneskt metangas er auðvitað ekkert frábrugðið því sem framleitt er í Persaflóa, Norðursjó eða Bandaríkjunum – sameindin er nákvæmlega eins, hvar sem henni er dælt upp úr jörðu og hún aðskilin öðrum efnum. 

Vandamálið snýr ekki að landfræðilegum uppruna sameindanna sem um ræðir, eða ríkisfangi seljenda þeirra. Heldur þeim mistökum að leggja svo mikið traust á einn birgja við afhendingu vöru sem er grundvöllur nútímalífskjara.

Þrátt fyrir að átökin í Úkraínu myndu stöðvast á morgun hefur skipan alþjóðamála tekið varanlegum breytingum.

Það er auðvelt að vera vitur eftir á. Að vísu voru allmargir sem bentu á það á allra síðustu árum að Þýskaland væri í slæmri stöðu með sín orkumál – að þeir hafi treyst um of á Rússana. Meðal annars Bandaríkjaforsetinn fyrrverandi sem sumir elska að hata – Donald Trump. Algeng viðbrögð við slíkum athugasemdum voru ávallt á eina og sömu lundina: Það er beinlínis fáránlegt og hlægilegt að hafa áhyggjur af þessu.

Annað kom á daginn. Sú viðtekna forsenda að milliríkjaviðskipti og hnattvæðing tryggi alheimsfrið er brostin. Rússar sýndu að þeir voru tilbúnir að slökkva ljósin í Evrópu til að ná fram hernaðarlegum markmiðum sínum í álfunni. Þrátt fyrir að átökin í Úkraínu myndu stöðvast á morgun hefur skipan alþjóðamála tekið varanlegum breytingum.

12 innfluttar teravattstundir

Hvaða lærdóm getur Ísland dregið af gasskortinum í Evrópu? Við erum vissulega sjálfum okkur næg um raforku og hitaveitu. Stór hluti orkunotkunar hér á landi byggist hins vegar á orkugjöfum sem Ísland hefur ekki yfir að ráða. Sé húshitun undanskilin þá á um 40 prósent af orkunotkunar landsins uppruna sinn í jarðefnaeldsneyti, eða sem nemur um 12 teravattstundum.

Jarðefnaeldsneyti er grundvöllur stórra og mikilvægra grunnatvinnuvega hér á landi. Flugsamgöngur standa að baki um helmingi allrar olíunotkunar hér á landi og skip nota um fjórðung. Ferðaþjónustan og sjávarútvegurinn byggja alfarið á innfluttu jarðefnaeldsneyti.

Ítök OPEC og Rússlands munu því eflast horft fram á veginn – tíminn vinnur með þeim.

Ísland flytur inn mest af olíu frá Noregi. Þrátt fyrir að Noregur teljist seint til þjóða sem eru líklegar til að beita sér ómaklega gegn Íslandi (þrátt fyrir Smugudeiluna), þá hefur Noregur nánast ekkert markaðsvald alþjóðlega.

Samtök olíuframleiðenda (OPEC) og Rússland hafa sýnt á undanförnum mánuðum að tök þeirra á heimsmarkaðnum eru að herðast. Er það ekki síst vegna þess að Vesturlönd hafa sig nú öll við að draga úr framleiðslu á jarðefnaeldsneyti, sem á endanum lækkar hlutdeildina í heimsframleiðslunni. Ítök OPEC og Rússlands munu því eflast horft fram á veginn – tíminn vinnur með þeim.

Hversu líklegt er hið óhugsandi?

Hið óhugsandi gerðist þegar Rússland beitti gasvopninu gegn Evrópu. Hvað ef alvöru stríðsátök, til dæmis við Persaflóa, brytust út og olíuverð hækkaði í 200 eða 300 Bandaríkjadali fyrir tunnuna? Þá verður Ísland alveg jafn berskjaldað fyrir þeim hækkunum eins og aðrir. Norðmenn munu selja á heimsmarkaðsverði eftir sem áður, eins og allir aðrir olíuframleiðendur. Við verðum ekki aftur í sömu sápukúlu og síðastliðna 12 mánuði.

Í ljósi þessa sætir furðu að sjónarmið um orkusjálfstæði Íslands mæti jafnmikilli andstöðu og raun ber vitni. Til þess að af orkusjálfstæði megi verða, þarf að skipta út þessum tólf, innfluttu teravattstundum fyrir innlenda orkugjafa.

Mannskepnunni hættir til að ofmeta tækniframfarir til skemmri tíma, en vanmeta þær til lengri tíma. Tækni við framleiðslu og nýtingu sjálfbærara eldsneytis fleygir fram. Ætlum við að vera tilbúin, eða treysta áfram á vinfengi fjarlægra þjóða, í heimi sem er töluvert ótryggari en fyrir einu ári síðan?

Höfundur er viðskiptablaðamaður á Innherja.


Tengdar fréttir

Varanlega breyttur heimur

Þeir sem halda að heimurinn verði aftur eins og áður var, ef á einhvern ótrúlegan hátt tekst að stöðva stríðsrekstur Rússa í Úkraínu og í kjölfarið hleypa landinu aftur í viðskipti við hinn vestræna heim, gætu þurft að endurskoða þær væntingar sínar. Varanlegar breytingar á heimshagkerfinu eru komnar af stað. Þriggja áratuga hagvaxtarskeiði sem einkenndist af lágri verðbólgu og ódýru fjármagni er lokið. Nýr veruleiki blasir við.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×