Innherji

SA með helmingi stærri vinnu­deilu­sjóð en Efling

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Sólveig Anna fyrir fund samninganefnda Eflingar og Samtaka atvinnulífsins í húsnæði ríkissáttasemjara fyrir áramót.
Sólveig Anna fyrir fund samninganefnda Eflingar og Samtaka atvinnulífsins í húsnæði ríkissáttasemjara fyrir áramót. Vísir/vilhelm

Vinnudeilusjóður Samtaka atvinnulífsins, sem ætlað er að bæta félagsmönnum samtakanna upp það tap sem þeir verða fyrir á meðan verkföllum stendur, er umtalsvert stærri en vinnudeilusjóður Eflingar. Þetta má lesa úr síðustu ársskýrslum samtakanna.

Samkvæmt ársskýrslu Samtaka atvinnulífsins námu eignir vinnudeilusjóðsins nærri fimm milljörðum króna í lok árs 2021 og eigið fé sjóðsins var um 4,6 milljarðar. Hann var því meira en helmingi stærri en vinnudeilusjóður Eflingar sem var með eigið fé upp á 3 milljarða króna. Ætla má að ávöxtun beggja sjóða á árinu 2022 hafi litast af mótvindi á verðbréfamörkuðum en að stærð þeirra í hlutfalli við hvorn annan sé áfram svipuð.

Efling sleit í gær kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins eftir margra mánaða viðræður og stefnir í hörðustu vinnudeilur á Íslandi í áratugi. Efling hefur farið fram á sérsamninga, ólíka þeim sem gerðir voru við öll önnur aðildarfélög Starfsgreinasambandsins í desembermánuði.

Í samtali við Vísi sagði Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins himinn og haf á milli nýjasta tilboðs Eflingar og þess sem samið hafði verið um við mikinn meirihluta fólks á almennum vinnumarkaði. Kostnaðurinn við tilboð Eflingar væri tvöfaldur miðað við þá samninga.

„Ef að við hefðum gengið lengra þá hefðum við þurft að taka upp alla kjarasamningana sem að nú þegar hafa verið undirritaðir í húsnæði ríkissáttasemjara. Síðan hafa þeir farið í atkvæðagreiðslu á meðal stéttarfélaganna, SGS, VR og iðnaðarmanna,“ sagði Halldór Benjamín og vísaði í að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem greitt hafi atkvæði um samningana hafi samþykkt þá.

Þá hefur Halldór Benjamín ekki útilokað að gripið verði til verkbanns til að bregðast við verkföllum. Verkbannsrétti atvinnurekenda hefur lítið verið beitt hér á landi en í honum felst að starfsfólki er bannað að mæta til vinnu og engin laun eru greidd.

„Við munum nýta þau úrræði sem vinnulöggjöfin býður upp á,“ sagði Halldór Benjamín við Ríkisútvarpið.

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari sagðist ekki ætla að boða samninganefndir Samtaka atvinnulífsins og Eflingar á fund eins og staðan er núna. Ekkert bendi til að samtalið geti þokast áfram með því að nefndirnar hittist.

„Eins og staðan er núna eru engar vonarglætu sem gefa ástæðu til að kalla til fundar á þessum tímapunkti,“ sagði Aðalsteinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×