Umræðan

Ekki tjaldað til einnar nætur í íslenskum áliðnaði

Pétur Blöndal skrifar

Stundum er gengið að því sem gefnu að íslensk orkufyrirtæki skili hagnaði. Ef litið er til sögunnar, er það hinsvegar ekki sjálfgefið. Í byrjun tíunda áratugarins hafði Landsvirkjun til að mynda ráðist í að reisa Blönduvirkjun, en ekki fannst kaupandi að þeirri orku fyrr en með stækkun álversins í Straumsvík undir lok tíunda áratugarins. Landsvirkjun var því ótrúlegt en satt rekin með tapi um árabil og var þá ekki talað um hvort nýta ætti arðinn af Landsvirkjun til að takast á við heimsfaraldur, reisa Landspítala eða stofna þjóðarsjóð.

Orkunýting á úthjara veraldar

En Íslendingum tókst ætlunarverkið. Ekki aðeins hefur stoðum fjölgað undir íslensku efnahagslífi með uppbyggingu orkugeirans, heldur tókum við um leið risaskref í loftslagsmálum. Við höfum þegar að mestu lokið orkuskiptum í íslenskum iðnaði sem sækir þrótt í 100% endurnýjanlega orku, þó að enn eigi eftir að skipta út eldsneyti sem nýtt er í samgöngum í lofti, sjó og á landi. Ekki aðeins það, heldur búum við yfir ótrúlega miklu afhendingaröryggi á þessari afskekktu, strjálbýlu og fámennu eyju. Og já, vel á minnst, harðbýlu. Í landi sem er þrisvar sinnum stærra en Danmörk, en sextán sinnum fámennara, hefur atvinnulífið aðgang að raforku á samkeppnishæfu verði og almenningur á einu lægsta verði sem þekkist á byggðu bóli. Það er ekki sjálfgefið.

Erlend fjárfesting og áframvinnsla

Nú er mikil áhersla lögð á að laða að erlenda fjárfestingu í formi kvikmyndagerðar. En ef horft er yfir söguna, þá hefur stærsta innspýtingin í íslenskt atvinnulíf síðustu áratugi verið í orkusæknum iðnaði, bæði í formi fjármagns og þekkingar. Stærsta fjárfesting Íslandssögunnar var bygging Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði, sem hóf starfsemi árið 2007, stærsta fjárfestingarverkefni frá hruni nam 60 milljörðum í álverinu í Straumsvík og fólst m.a. í að skipta út álbörrum fyrir sérhæfðar málmblöndur fyrir hátt í 200 viðskiptavini, og nú standa yfir framkvæmdir upp á 16 milljarða yfir hjá Norðuráli, en það verkefni fékk græna fjármögnun og felst í nýrri framleiðslulínu með virðisaukandi stöngum með málmblöndum. Öll hafa álverin stigið stór skref í að fjárfesta í áframvinnslu og er það skýr vísbending um að ekki er tjaldað til einnar nætur. Það er hreint ekki sjálfgefið.

Nú þegar hafa íslensk álver náð verulegum árangri, en losun á hvert framleitt tonn hefur dregist saman um 75% frá árinu 1990 og er losun hvergi minni á heimsvísu en hér á landi.

Metafkoma orkugeirans aðeins hálf sagan

Og það munar um orkusækinn iðnað. Stundum hefur verið haft á orði að framleiðsla áls hér á landi jafngildi útflutningi á orku. En það segir langt í frá alla söguna. Áætla má að álverin þrjú á Íslandi hafi keypt raforku fyrir yfir 60 milljarða á síðasta ári, enda hafa orkufyrirtækin skilað metafkomu á síðustu misserum.

Það átta sig hinsvegar ekki margir á því að þegar horft er á heildarmyndina hjá álverunum, þá bætast við 60 milljarðar í innlendum kostnaði, en sú tala stendur m.a. saman af kaupum á vörum og þjónustu upp á yfir 35 milljarða af hundruðum innlendra fyrirtækja og launum og launatengdum gjöldum til 1.500 starfsmanna upp á yfir 22 milljarða. Rannsóknir sýna að álver greiða almennt hærri laun en gengur og gerist fyrir sambærileg störf á íslenskum vinnumarkaði. Ekki er það heldur sjálfgefið.

Betur má ef duga skal í loftslagsmálum

Ísland er í öfundsverðri stöðu nú þegar við tökumst á við loftslagsvandann. En betur má ef duga skal. Ljóst er að álverin þrjú á Íslandi þurfa að umbylta sínum framleiðsluferlum með ærnum tilkostnaði á tæpum tveim áratugum. Nú þegar hafa íslensk álver náð verulegum árangri, en losun á hvert framleitt tonn hefur dregist saman um 75% frá árinu 1990 og er losun hvergi minni á heimsvísu en hér á landi. Til þess að stíga næsta risaskref þurfa álfyrirtækin að þróa og fjárfesta í nýrri tækni, sem ekki er enn til staðar. Nú þegar er unnið að margvíslegum þróunarverkefnum, svo sem að leiða gas í grjót með Carbfix-tækninni, og þróun kolefnislausra skauta, en Rio Tinto og Alcoa vinna að því undir hatti Elysis í samvinnu við Apple og kanadísk stjórnvöld. Ekkert er sjálfgefið í þessum efnum, en viljinn hefur verið staðfestur með sameiginlegri yfirlýsingu stóriðjunnar og stjórnvalda í ráðherrabústaðnum sumarið 2019.

Ríkissjóður hefur verulegar tekjur af ETS-kerfinu, þar sem ríkið fær úthlutað heimildum sem kallast á við útgjöld stóriðjunnar.

Kostnaður við losun margfaldast

Íslensku álverin falla undir ETS, viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir, og hefur kostnaðurinn margfaldast á fáum árum. Á sama tíma er slíkur kostnaður hverfandi utan Evrópu og er áhyggjuefni ef ekki næst samkomulag um hnattrænt viðskiptakerfi til þess að jafna samkeppnisstöðuna. Ekki síst þar sem kolefnisfótspor álframleiðslu í Evrópu er mun minna en víðast hvar annars staðar. Ríkissjóður hefur verulegar tekjur af ETS-kerfinu, þar sem ríkið fær úthlutað heimildum sem kallast á við útgjöld stóriðjunnar. Þó að útfærslan hafi ekki verið þannig hér á landi, þá er hugsunin með ETS-kerfinu er sú, að tekjur ríkja af kerfinu renni aftur til atvinnulífsins í formi styrkja til loftslagsvænna verkefna. Ekki er því lagt upp með að þetta sé bein skattlagning heldur að stjórnvöld og atvinnulíf leggist á eitt við að leysa loftslagsvandann. Enda fyrirséð að fyrirtækin þurfi að fjárfesta verulega í nýrri tækni á sama tíma og þau standa í harðvítugri samkeppni á heimsmarkaði. Ekki er sjálfgefið að það geti farið saman. 

Til þess að fyrirtæki sjái sér fært að fjárfesta í nýrri tækni, sem getur tekið mörg ár og jafnvel áratugi að þróa, þá þurfa þau að vera samkeppnishæf – og þar varðar miklu að stjórnvöld styðji við þá þróun en leggi ekki stein í götu atvinnulífsins. Það þarf að horfa til langrar framtíðar.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka álframleiðenda. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.×