Viðskipti erlent

Musk hyggst hætta þegar arf­takinn er fundinn

Atli Ísleifsson skrifar
Mikið hefur gustað um Twitter eftir að Elon Musk gekk frá kaupum á samfélagsmiðlarisanum í október síðastliðinn.
Mikið hefur gustað um Twitter eftir að Elon Musk gekk frá kaupum á samfélagsmiðlarisanum í október síðastliðinn. EPA

Bandaríski auðjöfurinn Elon Musk hyggst láta af störfum sem forstjóri samfélagsmiðlarisans Twitter þegar búið er að finna einhvern sem sé „nægilega vitlaus til að taka starfið að sér“.

Musk greindi frá þessu í nótt. Tilkynningin kemur í kjölfar skoðanakönnunar á Twitterreikningi hans þar sem hann spurði notendur hvort hann ætti að hætta sem forstjóri. Mikið hefur gustað um Twitter frá því að Musk keypti félagið í október.

Rúmlega 57 prósent þeirra sem þátt tóku í könnuninni greiddu atkvæði með því að Musk ætti að láta af störfum. Hann hafði heitið því að fara eftir niðurstöðunni, hver sem hún yrði.

Musk segist nú áfram munu stýra hugbúnaðar- og netþjónateymi félagsins þegar nýr forstjóri hefur verið ráðinn.

Frá því að Musk keypti Twitter í haust hefur hann látið reka um helming starfsfólksins og reynt að selja áskriftarþjónustu þar sem notendur greiða átta eða ellefu Bandaríkjadali fyrir blátt merki á reikningum sínum. Felur merkið í sér að starfsmenn Twitter hafa þá gengist úr skugga um að viðkomandi reikningur sé ósvikinn reikningur viðkomandi. Twitter hefur lengi glímt við, líkt og aðrir samfélagsmiðlar, að notendur þykjast margir vera aðrir en þeir raunverulega eru.

Félagasamtök hafa sömuleiðis gagnrýnt nýlegar stefnubreytingar Twitter og saka Musk um að gera breytingar á notkunarskilmálum sem munu fela í sér aukna hatursorðræðu og upplýsingaóreiðu.

Musk hefur einnig sætt gagnrýni fyrir að hafa lokað á reikninga blaðamanna sem hafa fjallað um samfélagsmiðla og málefni þeim tengdum.

Nefndir til sögunnar sem mögulegir arftakar

Í frétt BBC segir að einhverjir hafi velt því upp hvort að Jack Dorsey, stofnandi Twitter, verði fenginn til að snúa aftur í forstjórastólinn. Dorsey hætti sem forstjóri í nóvember 2021. 

Önnur nöfn sem hafa verið nefnd til sögunnar eru Sheryl Sandberg, fyrrverandi rekstrarstjóri Facebook, Sriram Krishnan, verkfræðingur og náinn samstarfsmaður Musks, og Jared Kushner, tengdasonur Donald Trump Bandaríkjaforseta og fyrrverandi ráðgjafi forsetans.

„Enginn vill starfið sem getur raunverulega haldið lífi í Twitter,“ sagði Musk í kjölfar niðurstöðu könnunarinnar.


Tengdar fréttir

Musk vill takmarka kannanir við áskrifendur Twitter

Auðjöfurinn Elon Musk segir að breyting verði gerð á framkvæmd kannana um stefnubreytingar hjá samfélagsmiðlinum. Eingöngu áskrifendur muni fá að taka þátt í þeim en hann tilkynnti þessa breytingu eftir að notendur greiddu atkvæði um að hann ætti að stíga til hliðar sem forstjóri Twitter.

Twitter bannar hlekki á aðra sam­fé­lags­miðla

Samfélagsmiðillinn Twitter hyggst banna færslur sem vísa eingöngu á aðra samfélagsmiðla. Miðillinn mun einnig eyða aðgöngum sem aðeins eru notaðir til að auglýsa efni á öðrum samfélagsmiðlum.

Musk leitar að auknu fjármagni

Auðkýfingurinn Elon Musk leitar nú að fjárfestum til að kaupa hluti í Twitter á sama verði og Musk greiddi sjálfur fyrir fyrirtækið þegar hann varð stærsti hluthafinn með hlutabréfakaupum upp á 44 milljarða dollara.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×