Jól

Segir eina vin­sælustu jóla­mynd í heimi vera „barn síns tíma“

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Love Actually er án efa ein vinsælasta jólamynd allra tíma. Myndin er þó afar umdeild.
Love Actually er án efa ein vinsælasta jólamynd allra tíma. Myndin er þó afar umdeild. imdb

Þær eru ófáar jólamyndirnar sem fjalla um ástina á einn eða annan hátt. Ástarsérfræðingurinn Brynhildur Björnsdóttir mætti í Bítið í morgun og ræddi um ástina, jólin og kvikmyndirnar sem tengja þessi tvö fyrirbæri saman.

„Það er búið að kenna okkur það að við eigum alltaf að vera leita að einhverju ævintýri. En þessar myndir eru eins og önnur ævintýri, við sjáum ekkert 16. janúar í þessum myndum, þegar allir eru að moka slabb,“ segir Brynhildur sem segir þá ást sem birtist okkur í jólamyndunum síður en svo raunhæfa.

Söguþráður jólamyndanna á það til að vera keimlíkur. Raunar svo líkur að netverjar hafa útbúið sérstaka töflu með nokkrum uppskriftum að hinni klassísku rómantísku jólamynd sem fyrirtækið Hallmark er þekkt fyrir. Ef maður skoðar þessa töflu er ekki ólíklegt að ein, ef ekki tvær eða þrjár jólamyndir komi upp í kollinn.

Nokkrar svipaðar töflur er að finna á netinu.

Framakonan úr borginni sem lendir óvart í smábæ

„Það er svona ákveðið trend sem birtist í þessum jólamyndum. Framakona á pinnahælum sem hefur alla tíð búið í stórborginni, lendir fyrir slysni úti í sveit, í einhverjum svona jólabæ þar sem er snjór. Þar kynnist hún einhverjum svona gæðalegum bangsa í lopapeysu og bomsum,“ útskýrir Brynhildur.

„Ekki nóg með það, heldur hittir hún heilt samfélag. Það er athyglisverður hluti af þessu. Hún hittir fjölskylduna hans, það er nágranninn í næsta húsi, það er gjarnan einhver veitingastaður eða kaffihús sem er miðlægt. Þetta samfélag tekur á móti henni og hún ákveður að hún vilji vera hluti af því. Ekki bara vera með manninum, heldur fara aftur í þessi gömlu góðu gildi.“

Love Actually vinsæl en umdeild

Ein af þeim rómantísku jólamyndum sem við flest þekkjum er myndin Love Actually sem kom út árið 2003. Þó svo að sú mynd sé ein sú vinsælasta sinnar tegundar, hefur hún fengið á sig sinn skerf af gagnrýni síðustu ár fyrir það að vera andfeminísk, rasísk, transfóbísk og innihalda fitufordóma.

„Gefum við jólamyndum meiri séns? Erum við bara tilbúin að fyrirgefa þeim alls konar rugl?,“ spyr útvarpskonan Lilja Katrín og svarar Brynhildur því játandi. 

„Það má samt ekki gleyma því að Love Actually er barn síns tíma. Ég held að allir sem eru á feminískum nótum eigi sitt uppáhalds hrollatriði úr þessari mynd,“ en Brynhildur segir sitt uppáhalds „hrollatriði“ vera með klámleikurunum sem verða að svo að sjálfsögðu ástfangnir.

„Á þessum tíma er verið að normalísera klám mjög víða, til dæmis í Friends. Ég held að Love Actually hafi ekki verið hugsað sem plot til þess að grafa undan kvenréttindum og réttindum minnihlutahópa, heldur var þetta bara svolítið stemningin,“ segir hún.

Brynhildur Björnsdóttir, ástarsérfræðingur, ræddi um jólamyndir og ástina í viðtali í Bítinu í morgun.

„Á jólunum snýst allt um hefðir“

Það halda margir í þá hefð að horfa alltaf á sömu myndirnar fyrir jólin og er Love Actually sú mynd fyrir mörgum. Brynhildur telur það þó frekar skýrast á því að fólk tengi ákveðnar minningar og tilfinningar við myndina.

„Á jólunum snýst allt um hefðir og það er kannski þess vegna sem við dettum í að fá þessa notalegu tilfinningu sem við fáum úr því að horfa á þessa mynd sem við sáum fyrir 20 árum, þó hún tali kannski ekkert við okkur í dag.“

Hér að neðan má hlusta á viðtalið við Brynhildi Björnsdóttur úr Bítinu í heild sinni.








×