Innherji

Algalíf skráð á markað eftir tvö ár

Þórður Gunnarsson skrifar
Orri Björnsson, forstjóri Algalífs.
Orri Björnsson, forstjóri Algalífs. visir

Líftæknifyrirtækið Algalíf stefnir á skráningu á markað 2025. Þá var Baldur Stefánsson, framkvæmdastjóri og einn eiganda ráðgjafafyrirtækisins Hamrar Capital Partners, kjörinn stjórnarformaður Algalífs.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu. Algalíf ræktar örþörunga á Ásbrú í Reykjanesbæ og framleiðir úr þeim andoxunarefnið astaxanthín. Yfirstandandi stækkun á verksmiðju Algalífs er komin vel á veg. Heildarstærð verksmiðju Algalíf verður 12.500 fermetrar þegar verkinu lýkur seint á næsta ári, en stækkunin nemur 7500 fermetrum . Framleiðslugeta félagsins mun fjórfaldast frá því sem nú er. Fjárfesting vegna stækkunarinnar er um 4,5 milljarðar króna.

„Stækkunin hefur gengið í samræmi við áætlanir og fyrstu kerfin er þegar virk. Nýja verksmiðjan mun hjálpa Algalíf að styrkja sig í sessi sem eitt fremsta fyrirtæki í heimi í framleiðslu og markaðssetningu á náttúrulegu astaxanthíni. Til viðbótar mun bætt aðstaða gefa ný tækifæri til að leggja aukna áherslu á rannsóknir og þróun og sækja inn á nýja markaði,“ er haft eftir Orra Björnsyni, forstjóri Algalífs.

Slitnaði upp úr viðræðum 

Fyrr í haust slitnaði upp úr viðræðum um sölu á öllu hlutafé Algalífs til hóps fjárfesta undir forystu Stoða og Alfa Framtaks. Heimildir Innherja herma að slitnað hafi upp úr þeim viðræðum, meðal annars vegna þess að sölutölur ársins 2022 voru ekki í samræmi við áætlanir. Því hafi kaupendahópurinn viljað endursemja um verðið til lækkunar. Þær viðræður báru ekki árangur. 

Ef áætlanirnir hefðu gengið eftir hefðu Stoðir átt á milli 40 til 45 prósent í Algalífi. Aðrir íslenskir fjárfestar, meðal annars íslenskir lífeyrissjóðir, horfðu til þess að kaupa samanlagt um 55 til 60 prósenta hlut á móti Stoðum, en sá hópur var leiddur af nýjum framtakssjóði í rekstri Alfa Framtaks.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×