Neytendur

Lítill munur á verði á jólamat milli Bónuss og Krónunnar

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Bónus var með lægsta verðið í 83 tilvikum en í mörgum tilfellum var þó einungis einnar krónu munur á verði milli Bónuss og Krónunnar
Bónus var með lægsta verðið í 83 tilvikum en í mörgum tilfellum var þó einungis einnar krónu munur á verði milli Bónuss og Krónunnar Vísir/Vilhelm

Bónus var oftast með lægsta verðið í nýlegri verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ á jólamat. Könnunin var gerð í átta matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu. Tilboð eru víða í matvöruverslunum nú fyrir hátíðarnar, verðbreytingar tíðar og hvetur ASÍ neytendur til að vera vel vakandi vilji þeir gera hagstæð innkaup á jólamatnum.

Í verðkönnun ASÍ var kannað verð á 137 matvörum í Bónus, Krónunni, Nettó, Iceland, Fjarðarkaupum, Kjörbúðinni, Heimkaupum og Hagkaupum.

Bónus var með lægsta verðið í 83 tilvikum en í mörgum tilfellum var þó einungis einnar krónu munur á verði milli Bónuss og Krónunnar.

Heimkaup var oftast með hæsta verðið, eða í 51 tilviki af 137.

Algengast var að undir 20 prósent munur væri á hæsta og lægsta verði á matvöru eða í 40 prósent tilfella.

Í 35 prósent tilfella var 20-40 prósent munur á hæsta og lægsta verði og í 25 prósent tilfella var yfir 40 prósent munur.

Mikill munur á hæsta og lægsta kg verði á kjöti

Oft var mikill munur á hæsta og lægsta kg verði á kjöti. Sem dæmi má nefna 42 prósent eða 711 kr. mun á hæsta og lægsta kg verði af vinsælasta jólamat Íslendinga, hamborgarhrygg.

Lægsta verð á hamborgarhrygg m. beini, óháð vörumerki, var í Bónus, 1.679 kr. en það hæsta í Heimkaup, 2.390 kr. Verð á ódýrasta hamborgarhryggnum í Krónunni var þó einungis einni krónu hærra en í Bónus.

Þá var 36 prósent eða 600 kr. munur á kg verði á heilum frystum kalkún en miðað við fimm kg kalkún gerir það 3.015 kr. verðmun. Lægsta verðið var í Nettó, 1.696 kr. en hæsta verðið í Heimkaup, 2.299 kr.

Þá var 24 prósent eða 1.109 kr. munur á hæsta og lægsta kg verði á úrbeinuðu Kea hangilæri. Lægst var verðið í Heimkaup, 4.590 kr. en hæst í Hagkaup, 5.699 kr.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×