Körfubolti

„Venjulega er Grindavík með meiri baráttu en þetta“

Andri Már Eggertsson skrifar
Pétur Ingvarsson var ánægður með sigur á Grindavík
Pétur Ingvarsson var ánægður með sigur á Grindavík Vísir/Hulda Margrét

Breiðablik vann sannfærandi 29 stiga sigur á Grindavík 93-122. Pétur Ingvarsson, þjálfari Breiðabliks, var afar ánægður með öruggan útisigur. 

„Við þurftum bara fjórar sekúndur til að venjast aðstæðum í Grindavík. Við byrjuðum leikinn vel og Grindavík missti kraft þegar við gáfum þeim svona mikla mótspyrnu,“ sagði Pétur Ingvarsson og hélt áfram.

„Ég sagði í viðtali fyrir leik að ég taldi Grindavík ekki geta skorað hundrað stig. Um leið og við vorum komnir nálægt hundrað stigum þá var ég orðinn rólegur þar sem ég vissi að þeir hafa ekki kraftinn í það.“

Breiðablik fékk tvisvar á sig 70 stig í fyrri hálfleik á síðasta tímabili en í kvöld voru Blikar nálægt því að vera hinu megin við borðið og gera 70 stig í fyrri hálfleik. Breiðablik var körfu frá því og gerði 68 stig.

„Ég var ekki að spá í að við náðum ekki að gera 70 stig í fyrri hálfleik út af hvað gerðist á síðasta tímabili. Við erum ekki það góðir að við leyfum okkur að hugsa svoleiðis heldur erum við sáttir með alla sigra. Venjulega er Grindavík með meiri baráttu en þetta og við vorum undirbúnir fyrir það. Í seinni hálfleik byrjaði Grindavík á að gera tíu stig í röð á okkur og þeir eru hættulegir.“

Pétur viðurkenndi að leikurinn væri ekki fullkominn heldur var þriðji leikhluti Breiðabliks eitthvað sem hann vill laga og gera betur.

„Maður lítur alveg jafn illa út þegar maður er með gott forskot og tapar því niður eins og maður lítur vel út þegar vel gengur.“

„En ég var ánægður með leikinn í heild sinni og við kláruðum þetta fagmannlega og þetta var öruggur 29 stiga sigur,“ sagði Pétur Ingvarsson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×