Umræðan

Af hverj­­u kaup­­a fyr­­ir­t­æk­­i eig­­in hlut­­a­br­éf?

Helga Viðarsdóttir og Jökull Jóhannsson skrifar

Algengt og eðlilegt er fyrir fyrirtæki sem skila hagnaði að greiða umframfjármagn til hluthafa. Það má gera með því að greiða hluthöfum arð eða með því að fyrirtækið kaupi eigin hlutabréf.

Ástæðan fyrir því að greiða út arð er einföld. Félag hefur umfram fjármagn og það liggur ekki fyrir fjárfestingarþörf sem skapar umframvirði fyrir fyrirtækið. Þá er hagstætt að hluthafar geti nýtt það umframfjármagn.

Ástæðan fyrir því að fyrirtæki kaupi eigin hlutabréf í stað þess að greiða út arð eða ásamt því að greiða út arð er hins vegar ekki jafn einföld. Það hefur verið töluverð aukning á því á síðustu árum að skráð félög á Íslandi kaupi eigin bréf. Lítið hefur þó verið fjallað um hvers vegna félög kaupa frekar eigin bréf í stað þess að greiða út arð.

Þegar skráð félög skuldbinda sig til að greiða núverandi hluthöfum arð er eðlilegt að hlutabréfaverð félagsins lækki strax sem nemur greiðslunni. Félagið er minna virði sem nemur greiðslunni og útgefin hlutabréf jafn mörg.

Lykilmunur er að ólíkt arðgreiðslum geta kaup eigin bréfa bæði skapað og dregið úr virði fyrir hluthafa skráðra félaga. Felst það í því hvaða verð er greitt fyrir eigin bréf félagsins.

Þegar skráð félög kaupa eigin hlutabréf er hins vegar eðlilegt að hlutabréfaverð félagsins standi í stað. Þó að útgefnum hlutabréfum fækki er eign núverandi hlutahafa jafn verðmæt. Má segja að hluthafar eigi aðeins stærri hlut í aðeins minni köku.

Það er þó mikilvægur munur að þegar greiddur er arður stofnast réttur til arðgreiðslu á fyrirfram ákveðnum degi, en þegar skráð félag kaupir eigin bréf er algengt að þau séu keypt yfir ákveðið tímabil.

Lykilmunur er þó að ólíkt arðgreiðslum geta kaup eigin bréfa bæði skapað og dregið úr virði fyrir hluthafa skráðra félaga. Felst það í því hvaða verð er greitt fyrir eigin bréf félagsins.

Það að félag kaupi eigin bréf hefur þau áhrif að eigendum fækkar og hver hlutur veitir því meiri eign í félaginu og hagnaður félagsins á hlut hækkar því að öðru óbreyttu.

Ef við tökum dæmi um skráð félag:

  • Markaðsgengi hlutabréfa félagsins er 100. Ef félagið greiðir út arð alls 10 kr. á hlut má gera ráð fyrir að markaðsgengi bréfanna verði 90 að öðru óbreyttu og hluthafar jafn vel settir.
  • Ef sama félag í stað þess að greiða út arð kaupir eigin bréf fyrir sömu upphæð mun hver hluthafi eignast 11% stærri hlut í félaginu, eigið fé lækkar sem því nemur og gengi bréfanna helst því 100 fyrir og eftir kaupin. Rekstur félagsins helst þó óbreyttur og er því hagnaður á hvern hlut um 11% hærri.

Það verð sem félagið greiðir þegar það kaupir eigin bréf skiptir lykilmáli.

Ef markaðsvirði félagsins hækkar, eykst virði bréfa hvers hluthafa 11% meira í dæminu hér á undan ef félagið kaupir eigin bréf. Það er vegna þess að hver hluthafi á 11% stærri hlut í félaginu.

Að sama skapi ef markaðsvirði félagsins lækkar, verður virði bréfa hvers hluthafa 11% minna ef keypt eru eigin bréf í stað þess að greiða út arð, þar sem hver hluthafi á 11% stærri hlut í félaginu.

Félag sem telur að markaðsvirði sitt sé of lágt nýtir því betur fjármagn sitt ef það kaupir eigin bréf en ef það greiðir sömu upphæð út í arð.

Þegar félag kaupir eigin bréf má oft túlka þá ákvörðun annars vegar á þann veg að forsvarsmenn fyrirtækisins telja ekki til staðar umfangsmikil hagkvæm fjárfestingatækifæri til vaxtar og hins vegar að forsvarsmenn fyrirtækisins telja að virði félagsins sé hærra en markaðsverð. Það sé því hagkvæmara fyrir fyrirtæki að kaupa eigin bréf í þeim aðstæðum heldur en að greiða út arð.

Í þessu samhengi má taka stöðu Símans sem dæmi. Félagið lauk nýverið tugmiljarða sölu á dótturfélagi sínu Mílu. Án þess að taka afstöðu til markaðsverð félagsins þá var ljóst að félagið hefði ekki fyrirliggjandi hagkvæm fjárfestingatækifæri í tugmilljarða umfangi í farvatninu. Var því ákveðið að greiða umframfjármagn til hlutahafa félagsins, meðal annars í formi kaupa á eigin bréfum.

Höfundar stýra Spaki Invest sem fjárfestir í hlutabréfum virðisfyrirtækja. Sjóðurinn leggur áherslu á að fjárfesta í félögum sem kaupa eigin hlutabréf.


Tengdar fréttir

Eru hlut­a­bréf verð­tryggð?

Verðbólga hefur mjög mismunandi áhrif á virði hlutabréfa. Þó hlutabréf séu ekki beintengd við vísitölu neysluverðs líkt og verðtryggð skuldabréf þá hefur hófleg verðbólga sem slík ekki bein neikvæð áhrif á virði hlutabréfa.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.