Umfjöllun og viðtöl: Sel­­foss - FH 32-37 | Áttundi sigur FH í röð stað­reynd

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
FH-ingar unnu torsóttan fimm marka sigur á Selfoss í kvöld.
FH-ingar unnu torsóttan fimm marka sigur á Selfoss í kvöld. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

FH gerði góða ferð á Selfoss og vann þar fimm marka sigur í Olís deild karla í handbolta, 32-37. FH hefur þar með unnið átta leiki í röð, en Selfyssingar hafa tapað fjórum af seinustu fimm.

Fyrri hálfleikur bauð upp á mikla skemmtun þar sem mikið jafnræði var á með liðunum stærstan hlutann. Selfyssingar byrjuðu þó mun betur og skoruðu fyrstu fjögur mörk leiksins þar sem gestirnir náðu ekki einu einasta skoti að marki.

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH-inga, hafði engan húmor fyrir því að sjá sína menn svona andlausa og tók leikhlé eftir aðeins fjögurra mínútna leik. Við það batnaði sóknarleikur FH-inga, en liðið átti þó í miklum vandræðum með að skora úr uppstilltum sóknum.

Eftir því sem leið á hálfleikinn unnu gestirnir sig betur og betur inn í leikinn þar til liðið náði loks forystunni í fyrsta skipti í stöðunni 9-10.

FH-ingar leiddu svo það sem eftir lifði fyrri hálfleiks, en Selfyssingar voru þó aldrei langt undan. Liðin skiptust á að skora og gestirnir fóru með eins marks forystu inn í hálfleikshléið, staðan 17-18.

Síðari hálfleikurinn var ekki síðri skemmtun en sá fyrri. Liðin skiptust á að skora stærstan hluta hálfleiksins og lengst af gat sigurinn fallið hvorum megin sem er.

Gestirnir í FH-náðu þó upp fjögurra marka forystu snemma í síðari hálfleik þegar liðið breytti stöðunni úr 19-19 í 21-25 á skömmum tíma.

Selfyssingar vöknuðu þó til lífsins á ný og unnu sig jafnt og þétt aftur inn í leikinn. Heimamenn skoruðu fimm mörk gegn aðeins einu marki gestanna næstu mínútur og aftur var staðan orðin jöfn.

FH-ingar náðu svo aftur upp þriggja marka forskoti þegar um tíu mínútur lifðu leiks, en aftur tóku Selfyssingar við sér og jöfnuðu leikinn á ný þegar um fimm mínútur voru til leiksloka, 31-31.

Það voru þó FH-ingar sem reyndust sterkari á lokamínútunum og liðið raðaði inn auðveldum mörkum þegar Selfyssingar neyddust til að taka áhættur undir lok leiks. FH-ingar unnu því að lokum fimm marka sigur, 32-37, en það má segja að lokatölurnar gefi ekki alveg rétta mynd af leiknum.

Af hverju vann FH?

Eftir erfiða byrjun náðu FH-ingar forystunni um miðjan fyrri hálfleik og létu hana aldrei af hendi eftir það. Selfyssingar fóru oft illa að ráði sínu þegar liðið átti möguleika á því að ná forystunni, en FH-ingar héldu haus og kláruðu verkefnið af mikilli fagmennsku.

Hverjir stóðu upp úr?

Einar Bragi Aðalsteinsson átti flottan leik fyrir FH-inga og skoraði átta mörk úr níu skotum. Þá skilaði Ásbjörn Friðriksson sínum gömlu góðu átta mörkum og Jón Bjarni Ólafsson átti sömuleiðis góðan dag með fjögur mörk, ásamt því að vera öflugur varnarlega.

Í liði Selfyssinga var Einar Sverrisson markahæstur með tíu mörk. Varnartröllið Sverrir Pálsson getur einnig gengið stoltur frá sinni frammistöðu, en hann skilaði sjö löglegum stöðvunum, einu marki og tveimur stoðsendingum.

Hvað gekk illa?

Selfyssingum gekk illa að taka réttar ákvarðanir þegar liðið fékk tækifæri til að komast yfir í leiknum. Ótímabær skot, tapaðir boltar og slæm færanýting átti það til að einkenna sóknarleikinn þegar heimamenn fundu lyktina af forystunni.

Hvað gerist næst?

Bæði Selfoss og FH mæta liðum sem þau töpuðu sannfærandi fyrir í fyrstu umferð vetrarins næst þegar liðin mæta á parketið. Selfyssingar fá Fram í heimsókn næstkomandi laugardag og FH sækir Stjörnuna heim á mánudaginn.

Þórir: Þurfum að eiga fullkominn leik til að sigra FH

Þórir Ólafsson, þjálfari Selfoss.Vísir/Diego

„Þetta hefði nú getað dottið hvorum megin sem er og það munaði kannski bara einhverjum einum mistökum eða einum töpuðum bolta hérna í lokin,“ sagði súr og svekktur Þórir Ólafsson, þjálfari Selfyssinga, að leik loknum.

„Svo reyndum við aðeins að brjóta þetta upp og koma aðeins framar, en það bara gekk ekki.“

Selfyssingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og skoruðu fyrstu fjögur mörk leiksins. Eftir það unnu FH-ingar sig þó hægt og bítandi inn í leikinn og Þórir segir að sínir menn þurfi að eiga fullkominn leik til að halda út á móti liði eins og FH.

„Við gáfum allt í þetta og strákarnir margir hverjir tjónaðir á annarri löppinni. Menn gáfu sig alla í þennan leik og það eru allir tómir núna, en FH er bara hörkulið og við þurfum að eiga fullkominn leik til að sigra þá. Það bara náðist ekki alveg í dag.“

Eins og fram hefur komið áttu Selfyssingar í stökustu vandræðum með að komast fram úr FH-ingum þegar liðið náði að jafna metin. Þórir segir að líklega hafi ákvarðanatakan ekki verið nægilega góð hjá sínum mönnum þegar á hólminn var komið.

„Það er kannski eitthvað sem við þurfum að skoða. Það voru kannski einhverjar sendingar inn á línu eða ákvarðanatökur með skot sem eru ekki góðar. En það er bara eitthvað sem við þurfum að skoða. Við förum yfir það og reynum að bæta það.“

Selfyssingar taka á móti Fram næstkomandi laugardag, en Selfossliðið tapaði stórt þegar þessi lið mættust í fyrstu umferð. Þórir var með nokkuð einfalda lausn á því hvernig hann ætlaði að koma mönnum í gírinn fyrir leikinn gegn Fram.

„Við skoðum bara þann leik og þá gírast menn upp,“ sagði Þórir að lokum.

Einar: Gæti trúað að þetta sé eins og að spila í Austur-Evrópu

Einar Bragi Aðalsteinsson skilaði sínu í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Einar Bragi Aðalsteinsson var frábær í liði FH í kvöld og skoraði átta mörk fyrir liðið.

„Þetta var eiginlega bara ótrúlega skemmtilegt að spila hérna í kvöld. Það var vel mætt og mikil læti. Ég gæti trúað að þetta sé eins og að spila í Austur-Evrópu þannig ég verð eiginlega bara að hrósa Selfyssingunum fyrir það,“ sagði Einar Bragi léttur að leik loknum.

„Þetta var jafn leikur. Lokatölurnar kannski segja ekki allt, en við bara sigldum þessu heim í lokin og það er það sem skiptir máli.“

Þá segir Einar um slæma byrjun FH í leiknum að liðið hafi bara aðeins þurft að finna taktinn gegn æstum Selfyssingum.

„Við erum bara að mæta góðu liði og þeir eru að mæta hérna á sinn heimavöll dýrvitlausir til að byrja með. Í dag þurftum við bara smá tíma til að finna taktinn. Við fengum alveg fín færi til að byrja með og svo var Einar Sverris bara að bomba honum í vinkilinn, en svo kom þetta hægt og rólega. Það þurfti bara þolinmæði.“

FH-ingar hafa nú unnið átta leiki í röð í Olís-deildinni og Einar segir það ekki vera leiðinlegt að vera FH-ingur þegar svona gengur.

„Ég þekki nú ekkert annað en að vera FH-ingur í þennan stutta tíma þannig að jú, það er mjög gaman að vera FH-ingur í dag.“

Þá segist Einar hlakka gríðarlega til að mæta Stjörnunni næstkomandi mánudag.

„Ég er eiginlega bara mjög spenntur að spila þennan leik. Leikurinn í byrjun tímabils situr allavega svolítið í mér og Stjarnan er með eitt best mannaða lið deildarinnar þannig við þurfum að mæta eins og menn og gera þetta almennilega. Þá bara vinnum við,“ sagði Einar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.