Innherji

Stokkað upp í stjórnendateymi Kviku og Sigurður tekur við sem aðstoðarforstjóri

Hörður Ægisson skrifar
Sigurður Viðarsson tekur við sem aðstoðarforstjóri Kviku af Ármanni Þorvaldssyni eftir að hafa stýrt TM, dótturfélagi Kviku, frá árinu 2007.
Sigurður Viðarsson tekur við sem aðstoðarforstjóri Kviku af Ármanni Þorvaldssyni eftir að hafa stýrt TM, dótturfélagi Kviku, frá árinu 2007. Aðsend mynd

Gerðar hafa verið umfangsmiklar breytingar á skipuriti og framkvæmdastjórn Kviku banka. Þær fela það meðal annars í sér að Ármann Þorvaldsson, sem hefur verið aðstoðarforstjóri bankans, lætur af því starfi og mun einbeita sér að uppbyggingu á starfsemi Kviku í Bretlandi og við stöðunni hans tekur Sigurður Viðarsson en hann hefur verið forstjóri TM samfellt frá árinu 2007.

Ármann verður áfram stjórnarformaður í dótturfélögum Kviku í Bretlandi auk þess að sinna afmörkuðum verkefnum fyrir Kviku. Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kviku Securites, mun koma nýr inn í framkvæmdastjórn samstæðu Kviku.

Þá hefur Eiríkur Magnús Jensson verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármálasviðs Kviku en hann hefur verið hjá Arion banka og forverum hans frá árinu 1998, síðast sem forstöðumaður fjárstýringar. Ragnar Páll Dyer, sem hafði gegnt starfi fjármálastjóra Kviku banka, hefur óskað eftir að láta af störfum en mun áfram sitja í stjórnum TM og Kviku Securities í London.

Í tilkynningu er haft eftir Marinó Erni Tryggvasyni, forstjóra Kviku, að samruni bankans og TM hafi gengið vonum framar og fjárhagslegur ávinningur náðst mun fyrr en gert var ráð fyrir. „Það er eðlilegt að vöxtur samstæðunnar og sú reynsla sem fengist hefur frá samrunanum kalli á breytingar á því skipulagi sem lagt var upp með í aðdraganda samrunans. Ég er mjög ánægður með þær breytingar sem fyrir liggja og tel þær gera okkur enn betur í stakk búin til að halda áfram að ná árangri,“ segir Marinó.

Eiríkur Magnús Jensson kemur frá Arion þar sem hann hefur verið yfir fjárstýrstýringu bankans.

Hluti af breytingunum hjá Kviku er einnig að Baldur Stefánsson, sem hefur verið framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Kviku síðustu ár, mun láta af störfum á næstu vikum og hefja eigin rekstur. Gengi hefur verið frá viljayfirlýsingu þess efnis að Kvika komi að þeim rekstri. Samkvæmt heimildum Innherja munu þeir Bjarki Logason og Sveinn Guðjónsson, sem báðir hafa starfað í fyrirtækjaráðgjöf Kviku, einnig koma að hinu nýja félagi ásamt Baldri.

Erlendur Davíðsson hefur verið ráðinn í stað Baldurs sem forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Kviku. Síðustu ár starfaði hann sjálfstætt við fyrirtækjaráðgjöf og þar á undan meðal annars sem sjóðstjóri og forstöðumaður hlutabréfasjóða hjá forvera Kviku eignastýringar og í fyrirtækjaráðgjöf Arion banka.

Hluti viðskiptabankasviðs og fjárfestingabankasvið Kviku mun mynda nýtt tekjusvið, fyrirtæki og markaðir. Nýtt tekjusvið er sagt eiga að skerpa á sérstöðu Kviku í þjónustu við fyrirtæki og fjárfesta og auðvelda félaginu að nýta aukinn fjárhagslegan styrk til bættrar þjónustu við viðskiptavini.

Ármann Þorvaldsson verður áfram stjórnarformaður í dótturfélögum Kviku í Bretlandi auk þess að sinna afmörkuðum verkefnum fyrir Kviku.

Eftir breytingarnar verða tvö tekjusvið rekin í Kviku banka, viðskiptabanki annars vegar og fyrirtæki og markaðir hins vegar. Því til viðbótar eru þrjú tekjusvið rekin í dótturfélögum: TM, Kvika eignastýring og Kvika Securites í Bretlandi.

Framkvæmdastjóri fyrirtækja og markaða verður Bjarni Eyvinds Þrastarson, sem hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra fjárfestingabankasviðs. Sviðið verður samsett úr fjórum deildum: Verðbréfa- og gjaldeyrismiðlun, fyrirtækjaráðgjöf og fyrirtækjalán. Aðstoðarframkvæmdastjóri sviðsins og forstöðumaður fyrirtækjalána verður Magnús Guðmundsson, sem hefur gegnt stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs.

Í tilkynningu er haft eftir Sigurði Viðarssyni að hann takist „fullur tilhlökkunar á við nýja áskorun hjá Kviku banka. Í kjölfar samruna TM og Kviku hefur sífellt vaxandi þáttur í mínum störfum tengst málefnum samstæðunnar og ég tel þetta skref því vera rökrétt, bæði fyrir mig og félagið.“

Marinó segist vænta þess að með því að skerpa á verkaskiptingu tekjusviða geti náðst aukinn árangur. Nýtt svið, fyrirtæki og markaðir, muni geta nýtt fjárhagslegan styrk bankans til þess að þjónusta fyrirtæki og markaðsaðila enn betur. Á viðskiptabankasviði verði áhersla áfram á sjálfvirkar lausnir. Vinna eigi að þróun ýmissa nýjunga sem muni auka verulega samkeppni á banka- og greiðslumiðlunarmarkaði.

„Það er mikill fengur fyrir Kviku að fá til liðs við okkur Eirík Magnús, sem er einn öflugasti og reynslumesti sérfræðingur landsins í fjármögnun banka. Veruleg tækifæri eru til að bæta fjármögnunarkjör félagsins, sem styrkir stöðu Kviku í samkeppni við aðrar fjármálastofnanir. Ég vænti einnig mikils af Erlendi, hann er reynslumikill sérfræðingur og tekur við góðu búi í fyrirtækjaráðgjöfinni.

Baldur Stefánsson, sem hefur verið framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Kviku síðustu ár, mun láta af störfum á næstu vikum og hefja eigin rekstur sem Kvika mun einnig koma að.

Ég vil þakka Ármanni fyrir störf hans fyrir félagið. Við Ármann hófum störf hjá Kviku á sama tíma árið 2017, hann sem forstjóri og ég sem aðstoðarforstjóri. Tveimur árum síðar höfðum við svo stólaskipti. Það hafa verið forréttindi að starfa með Ármanni og án hans væri félagið vart á þeim stað sem það er í dag. Reynsla Ármanns er verðmæt og hann hefur kennt mér mikið. Ég er mjög ánægður með að Ármann gegni áfram mikilvægu hlutverki fyrir samstæðuna og hlakka til þess að starfa áfram með honum í nýju hlutverki.

Ragnar hefur starfað lengi fyrir Kviku og tekið virkan þátt í uppbyggingu félagsins, fyrst sem framkvæmdastjóri Júpíter (nú Kvika eignastýring) og svo sem fjármálastjóri. Hann hefur gegnt stöðu fjármálastjóra síðan ég tók við sem forstjóri og þann tíma verið minn nánasti samstarfsmaður. Ragnar hefur verið öflugur starfsmaður, stjórnandi og vinur. Ég er honum þakklátur fyrir hans góðu störf og ánægður með að hann muni áfram gegna stjórnarstörfum innan samstæðunnar.

Það er mikill fengur fyrir Kviku að fá til liðs við okkur Eirík Magnús, sem er einn öflugasti og reynslumesti sérfræðingur landsins í fjármögnun banka.

Baldur er einn af fyrstu starfsmönnunum sem ég tók þátt í að ráða til félagsins. Baldur hefur náð góðum árangri í að byggja upp starfsemi fyrirtækjaráðgjafar bankans og á hans vakt hefur ráðgjöfin komið að, og lokið, fjölmörgum verkefnum. Eitt verkefni stendur upp úr í samstarfi okkar Baldurs, en það var þegar við unnum saman í ráðgjöf til stjórnenda Icelandair í endurfjármögnun félagsins eftir að Covid-19 faraldurinn skall á.

Við Sigurður höfum átt einstaklega gott samstarf frá sameiningu Kviku og TM og ég hlakka til þess að vinna enn nánar með honum. Sigurður er reynslumikill stjórnandi sem hefur náð miklum árangri í sínum störfum og ég veit að reynsla hans og hæfni verða mikilvæg við þróun félagsins áfram.“


Tengdar fréttir

Stoðir stækka stöðu sína í Kviku banka

Fjárfestingafélagið Stoðir, langsamlega stærsti einkafjárfestirinn í hluthafahópi Kviku, hefur stækkað stöðu sína í bankanum um nærri tíund. Kaupin í Kviku koma um einu ári eftir að félagið minnkaði hlut sinn um liðlega þriðjung þegar hlutabréfaverð bankans var í hæstu hæðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×