Atvinnulíf

„Það er alltaf ástin sem leiðir mig hvert ég fer“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Brynja Tomer fæddist í Danmörku, ólst upp á Íslandi, hefur búið á Spáni, Ítalíu, á Íslandi og nú í Kólumbíu þaðan sem hún starfar sem þýðandi. Heimili Brynju er eins og útgáfa af einhvers konar höll við rætur Andersfjalla og úti er stór garður með ótrúlega litríkum og fjölbreyttum plöntum. Í Kólumbíu fann Brynja þá útgáfu af sjálfri sér sem hún helst vill vera en alltaf hefur það verið ástin sem hefur leitt hana áfram hvert hún fer.
Brynja Tomer fæddist í Danmörku, ólst upp á Íslandi, hefur búið á Spáni, Ítalíu, á Íslandi og nú í Kólumbíu þaðan sem hún starfar sem þýðandi. Heimili Brynju er eins og útgáfa af einhvers konar höll við rætur Andersfjalla og úti er stór garður með ótrúlega litríkum og fjölbreyttum plöntum. Í Kólumbíu fann Brynja þá útgáfu af sjálfri sér sem hún helst vill vera en alltaf hefur það verið ástin sem hefur leitt hana áfram hvert hún fer.

„Það er alltaf ástin sem leiðir mig hvert ég fer. Þannig hefur það alltaf verið,“ segir Brynja Tomer og hlær. Fædd í Danmörku, alin upp á Íslandi, búsett á Spáni, á Ítalíu, á Íslandi en nú Kólumbíu.

„Mamma var svona líka, hálfgerð sígaunakerling eins og ég,“ segir Brynja eins og til útskýringar. Og það er stutt í hláturinn.

Þegar samtalið er tekið, má sjá Brynju ýmist úti eða inni við á heimili sínu. Sem staðsett er í kaffihéraði við rætur Andesfjalla. 

Og það má sjá að húsið er stórt. Og garðurinn enn stærri. 

Enda heimili Brynju á um fjórtán þúsund fermetra lóð. Í myndaspjallinu sýnir Brynja lítið sjötíu fermetra gestahús sem stendur rétt við.

„Já ég hef meira að segja verið að velta fyrir mér að selja helminginn af eigninni til Evrópubúa, jafnvel Íslendinga. Náttúruunnenda því hvergi í heiminum er jafn fjölbreytt náttúru- og dýralíf og hér,“ segir Brynja og bætir við að með eignarhaldi með öðrum væri hægt að ráðast í þannig framkvæmdir að hægt væri að byggja upp fleiri tækifæri á staðnum. Svo sem til útleigu á eign og eins til að auka á verðgildið þar sem mikil vakning er á uppbyggingu á svæðinu og hækkandi verð. Enda rétt við náttúruverndarsvæði.“

Og hvað myndi svona hús kosta?

„Ekki neitt neitt. Helmingurinn af þessari eign væri eins og hálft gott hesthús heima,“ segir Brynja.

Brynja starfar sem þýðandi. Og hefur vanist fjarvinnu löngu fyrir tíma Covid. En það er ekki bara það því allan starfsferil Brynju hafa störf og verkefni Brynju einkennst af hugsjón, ástríðu eða ásetningnum um að starfa í flæði og sveigjanleika. Standa þó við sitt.

Þó helst utan þess tíma sem hún var búsett á Íslandi.

„Þá var ég bara í þessu helv…. lífskapphlaupi eins og allir aðrir.“

Það var eins og að skyggnast inn í litla höll að sjá umhverfið á bakvið Brynju þegar viðtalið var tekið. Enda stendur heimilið hennar á um fjórtán þúsund fermetra lóð, húsið er stórt og meira að segja litla gestahúsið, sem sjá má á einni  myndinni hér, eru sjötíu fermetrar.  Að kaupa helmingin á móti Brynju í þessari eign segir Brynja samsvara kaupum á um hálfu góðu hesthúsi hér heima.

Stórir vindlar og avacado hárnæring

Þegar samtalið hefst við Brynju er hún að reykja risastóran vindil. Svo stóran reyndar að blaðamaður minnist þess varla að hafa séð Havanavindil af þessari stærð.

„Já ég tek nokkra svona á dag,“ segir Brynja og hlær. Vindlastubbana notar hún síðan til að útbúa eitur fyrir plöntur og ávaxta- og grænmetisræktun í garðinum. Því hún vill ekki nota verksmiðjuframleitt eitur eins og almennt er gert. Í garðinum eru alls kyns plöntur og ræktun. Meira að segja tóbaksplöntur.

„Allur lífrænn úrgangur fer í ræktunina úti í garði. Og ég nota líka allt sem ég get úr garðinum. Ekki bara til að borða heldur líka ef eitthvað er. Til dæmis nota ég avocado í hárið sem næringu og ef það er kvef eða eitthvað að pirra mig, nota ég það sem náttúran færir mér.“

Brynja segir viðhorfið í Kólumbíu þó vera þannig að þar þyki það tákn upp ríkidæmi að versla í súpermörkuðum.

„Ég til dæmis versla alltaf ávexti og grænmeti á mörkuðum. Eins og maður gerði á Ítalíu og Spáni. Hérna þykir það frekar lummó hjá ríka fólkinu. Það þykir flottara að fara í súpermarkaðinn og kaupa epli í plastbakka með plasti yfir.“

Dagarnir hjá Brynju eru í flæði. Hún miðar ekki vinnutímann sinn við ákveðinn tíma yfir daginn á ákveðnum dögum. Heldur vinnur þegar það hentar og passar fyrst og fremst upp á að skila verkefnunum sínum á tíma.

„Það á ekki að skipta máli hvenær eða hvernig maður vinnur verkin. Svo lengi sem maður stendur við sitt og gerir það vel,“ segir Brynja.

Brynja hefur alltaf verið framtakssöm og hugmyndarík. Setti meira að segja á laggirnar bar á Spáni aðeins um tvítugt. Á Íslandi var hún gift manni í 25 ár og segist þá hafa verið í sama lífskapphlaupi og allir aðrir. Alltaf að vinna og alltaf að leggja sig fram við að vera rosalega dugleg. Í Kólumbíu hefur hún hins vegar lært mikið um sjálfsrækt og að slappa af.

Litrík starfsævi

Brynja ólst upp við mjög gott atlæti í vesturbænum í Reykjavík. Stjúpfaðir hennar var yfirkennari í Verslunarskólanum og því lá beinast við að hún færi í bókfærslu- og hagfræði þangað. Sem henni fannst drepleiðinlegt.

„Ég var reyndar alltaf pínu á skjön. Líka sem barn. Fann mig ekki og hef alla tíð haft þessa ofboðslegu þrá í að kynnast einhverju öðru. Svona eins og ungi sem vill komast úr egginu og taka flugið sjálfur. Þess vegna öfunda ég enn í dag samnemendur úr Versló sem kláruðu stúdentinn, fóru í viðskiptafræði og hafa starfað í sinni reglubundnu vinnu æ síðan. Hreinlega með allt sitt á hreinu. Þetta kalla ég hugrekki,“ segir Brynja og óvíst að hún átti sig á því hversu marga dreymir frekar um að lifa ævintýralegu lífi eins og hún.

Því Spánn var fyrsta útlandið hennar fyrir alvöru. Enda fór hún strax sem unglingur að ferðast ein um heiminn.

„Árið 1978, þegar ég var 15 ára og búin að vera talsvert á Spáni, fannst mér vonlaust að kunna ekki spænsku. Ég labbaði niður í Háskóla Íslands og fékk leyfi til að sitja þar í málfræðitímum, bara sem áhorfandi,“ segir Brynja.

Brynja bjó líka í nokkur ár á Spáni. Enda ástfangin þar eins og víða annars staðar í heiminum. Því ástin er jú rauði þráðurinn í lífi Brynju….

„Tvítug opnaði ég bar og veitingastað á Spáni, í Puerto de la Duquesa, höfn fyrir listisnekkjur þar sem voru aðallega efnaðir Bretar. Staðurinn var fjórir veggir þegar ég fékk hann afhentan, ég vann nótt sem nýtan dag við að pússa upp gömul húsgögn og koma staðnum í gang og í lok sumars var þetta orðinn lang vinsælasti staðurinn á svæðinu og oft tekinn frá fyrir listamenn sem voru að skemmta í Marbella og nágrenni.“

Ástarævintýrinu lauk þó á Spáni og Brynja flutti aftur til Íslands. Þar datt henni í hug að sækja um starf á Mogganum.

Mig vantaði vinnu og þar sem mér fannst ég sjálf vera mjög fyndin og klár í tungumálum datt mér í hug að það væri tilvalið fyrir Moggann að ráða mig til að þýða brandara. 

Þannig að ég hringdi í Styrmi Gunnarsson ritstjóra og bar hugmyndina undir hann á fundi,“ 

segir Brynja og bætir við:

„Eitthvað hefur hann séð forvitnilegt við mig því stuttu síðar hringdi hann í mig og sagðist vilja bjóða mér vinnu sem blaðamaður. Blaðamaður? hváði ég og þá útskýrði hann að Mogginn væri með sérblað á föstudögum og þar vantaði blaðamann. Já er það þá blaðið með bröndurunum svaraði ég…“

Umrætt blað var sérblaðið Daglegt líf sem til margra ára naut mikilla vinsælda hjá Mogganum. Enda fjallaði það um ýmis mannleg og skemmtileg mál. Jafnvel áhugamál. Eða skemmtileg.

„Og ég var svo dásamlega heppin með yfirmenn á Mogganum að þeir reyndu ekkert að beisla mig niður í að vinna einhverja fyrirfram ákveðna átta tíma á dag. Ég fékk ákveðið frelsi og sveigjanleika. Svona eins og ég þarf til að þrífast best.“

Aftur dró ástin hana þó til útlanda. Í þetta sinn til Ítalíu. Þar sem Brynja giftist ,,moldríkum“ Ítala og eignaðist sitt fyrsta barn.

„Já hann var moldríkur. Við meira að segja leigðum út hluta hússins til erlendra fótboltamanna hjá Juventus og Torino.“

Þegar Brynja vaknar á morgnana, fer hún með kaffið sitt út í garð, fær sér vindil, fer með bænir og möntru og hlustar á páfagauka, engisprettur og froska. Brynja vill ekki nota verksmiðjuframleitt eitur og býr því sjálf til eitur fyrir plönturnar sínar og ræktun með vindlastubbum og lífrænum úrgangi. Hún nýtir líka garðinn vel. Til dæmis notar hún avocado sem hárnæringu.

Lífið í kapphlaupi: Ísland

Aftur flutti Brynja til Íslands.

„Þar bjó ég með hreinlega dásamlegum manni og eignaðist með honum tvö börn. Við bjuggum saman í 25 ár og skildum ekki vegna þess að hann væri ekki enn dásamlegur. Heldur frekar að það var komin innri órói og ólga í mig,“ segir Brynja og bætir við að undir lokin hafi hún ekki verið á góðum stað sjálf.

Árin á Íslandi segir hún þó hafa verið góð. Oft hafi fjölskyldan ferðast um heiminn og þá oft í óhefðbundnar ferðir. Eins og til Asíu eða í safaríferð til Kenya.

Öll þessi ár var ég bara mjög settleg og í þessu kapphlaupi eins og aðrir. Það gekk allt út á að vera bara ógeðslega dugleg í vinnu og svona. Og ég lagði líka mjög mikla áherslu á það. Afboðaði mig í saumaklúbba og svona vegna þess að ég þyrfti að vinna. Svona eins og til að leggja áherslu á hvað ég væri rosalega dugleg.“

Margir muna líka eftir Brynju sem áberandi í hundarækt. Enda er hún vægast sagt mjög mikill dýravinur. Á meðan samtalinu stendur eru til dæmis fjórir smáhundar allt í kringum Brynju. Þar af ein hvolpafull tík sem er við það að fara að gjóta.

„Allt frá því að ég var lítið barn og mamma var að vinna í Áburðarverksmiðju ríkisins hef ég elskað náttúruna og dýrin. Þegar ég fór með mömmu í vinnuna stalst ég oft út og á hestbak þar um svæðið því þá voru hestar þar. Reið berbak og hef alltaf leitast við að vera nálægt dýrum. Enda geta þau kennt okkur svo margt og gefa okkur svo margt,“ segir Brynja og bætir við:

„Sérðu nú bara hundinn sem er kannski búinn að vera einn heima allan daginn og dauðleiðist. Þegar við komum heim, hoppar hann samt og skoppar svona eins og til að segja Gaman að sjá þig! Þetta er bara æðislega gefandi.“

Svo vel hefur Brynju gengið í hundaræktinni að tveir hundar frá henni, seldir til Rússlands, hafa orðið unnið til fyrstu verðlauna á heimsvísu.

Heima var Brynja mjög virk í Hundaræktafélagi Íslands. En einnig frumkvöðull ýmissa annarra verkefna.

Til dæmis er verkefni Rauða krossins, Hundavinir, hugmynd Brynju en það gengur út á að farið er með hunda í heimsóknir til fólks sem er á dvalarheimilum eða spítölum.

Þá kom Brynja að verkefninu Vigdís, en það verkefni gengur út á að ung grunnskólabörn lesa fyrir hunda þegar þau eru að læra lestur.

Alltaf fannst Brynju þó erfitt að vera á Íslandi yfir vetrartímann. Og þegar hún skildi var hún orðin óþolinmóð eftir því að komast út og helst í sól og birtu.

Enda ekki sjálf á góðum stað eins og hún sagði sjálf. Kólumbía var næsti áfangastaður og þar gerðust undur og stórmerki:

Hér hef ég unnið mikið í minni sjálfsrækt. 

Og er í dag komin hvað næst því að vera sú útgáfa af Brynju sem mig langar fyrir alvöru að vera.“

Brynja segir afar fallegt í Kólumbíu enda hvergi í heiminum jafn fjölbreytt plöntu- og dýralíf. Hún segir Kólumbíu henta vel fyrir náttúruunnendur, það sé allt annað að fara á staði eins og Tenerife eða Benedorm. Margir tengja Kólumbíu við eiturlyf og skæruliða en sjálf segir Brynja fólk ekkert verða vart við það almennt. Ekkert frekar en að Reykvíkingar kynnist allir undirheimum borgarinnar.

Innri friður og sjálfið: Kólumbía

Þegar Brynja flutti til Kólumbíu starfaði hún við tryggingasölu. Sem henni fannst lítið mál að gera þaðan en vinnuveitandinn var ekki á sama máli og því fór sem fór.

Í kjölfarið fór hún að starfa sem þýðandi, sem henni finnst verkefnalega henta mjög vel.

„En það eru skítalaun greidd fyrir þýðingar. Það sem bjargar því er að það er svo miklu ódýrara að búa í Kólumbíu miðað við Ísland að það gerir gæfumuninn. Ég er til dæmis með konu sem þrífur og garðyrkjumann sem kemur nokkrum sinnum í viku. Þetta er svo langt frá þeim lífstíl sem þýðendalaun gætu boðið upp á heima. Þar sem maður vinnur og vinnur og er kannski með rosalega há laun, en samt allt svo dýrt að það er erfitt að vera ekki með allt niður um sig.“

En hvað með þessa sjálfsrækt?

Þegar ég kom hingað áttaði ég mig á því að ég hafði alla tíð verið eins og með vopn og að berjast. Var alltaf til í að berjast við fólk eða berjast fyrir einhverju. 

Mér fannst ég rosalega klár, var mjög góð í rökræðum og þurfti alltaf að hafa síðasta orðið. 

Það er ekki fyrr en eftir að ég kom hingað og var búin að vinna mikið í sjálfri mér sem ég áttaði mig á því að auðvitað var ég ekkert svona klár. Það var bara hitt fólkið sem hafði meira vit en ég og þess vegna var mér leyft að hafa síðasta orðið.“

Brynja segist sannfærð um að þessa innri ró sem hún sótti í Kólumbíu hefði hún ekki getað öðlast heima á Íslandi.

Þar sem erillinn og stressið og kapphlaupið er svo mikið alla daga, allan ársins hring.

Á meðan allt virðist á hægagangi í Kólumbíu. Enn hægar ef miðað er við til dæmis Ítalíu eða Spán.

En hvernig náðir þú þessari sjálfsrækt og innri ró?

„Þetta kom nú bara til mín. Eins og gerist svo oft. Því þegar maður er tilbúinn til þess að opna hjartað eða hugann koma lausnirnar og allt það góða til manns. Hér kynnist ég fólki sem leiddi mig áfram. Kenndi mér hluti sem fékk hausinn á mér loksins til að skilja að þessir endalausu conflictar og kapp eru ekki málið. Hér var mér hreinlega kennt að slaka á, leggja vopnin niður, finna mildina og anda rólega.“

Enda ekki annað hægt en að öfundast aðeins út í daga Brynju. Sem hefjast á því að fara með morgunbollann sinn út í garð, anda að sér ilminn af plönturíkinu, hlusta á fugla, froska og engilsprettur.

„Hérna sit ég á morgnana, fæ mér kaffi og vindil, fer með bænirnar mínar og möntrur og tengist þeirri alvöru manneskju sem ég vill helst vera,“ segir Brynja og er greinilega sátt.

Einu sinni í viku kennir Brynja handavinnu í grunnskóla nálægt þar sem hún býr, sem sjálfboðaliði. Enda ekki kennd handavinna í skólanum. Heima á Íslandi eru þekkt verkefni sem Brynja kom af stað á sínum tíma. Til dæmis Hundavinaverkefni Rauða krossins þar sem farið er á dvalarheimili og spítala með hunda í heimsókn til fólks. Og verkefnið Vigdís, sem gengur út á að grunnskólabörn lesa fyrir hunda þegar þau eru að læra lestur.

Til viðbótar við þýðingarverkefnin, kennir Brynja handavinnu einu sinni í viku.

„Hér er talsverð fátækt og í nágrenni við mig er barnaskóli með þrjátíu börnum í bekk. Framtíð þeirra er ekki beisin og mér datt í hug að ef börnin lærðu handverk, að hekla og prjóna, hefðu þau tækifæri til að búa til verðmæti og selja, sér til framdráttar. Nokkrar yndislegar konur á Íslandi studdu mig með því að gefa börnunum garn, prjóna og heklunálar. Einu sinni í viku er ég með handavinnutíma hjá krökkunum og þetta eru uppáhalds dagarnir þeirra.“

Lífið virðist líka einfalt. Til dæmis á Brynja ekki sjónvarp. En þykir þó lifa mjög flott því hún er með heitt vatn í öllum krönum í húsinu sem er mjög óalgengt. Og á þvottavél, þurrkara og uppþvottavél.

Brynja segir veður og loftslag mjög gott þar sem hún býr. Raki í loftinu og hiti að jafnaði 18 til 20 gráður. Þá blæs hún á þá ímynd að Kólumbía sé hættulegur staður að búa á.

Brynja segir skítalaun greidd fyrir þýðingar. Hins vegar verði miklu meira úr laununum úti, enda er Brynja með konu sem kemur að þrífa, garðyrkjumann sem kemur nokkrum sinnum í viku, er með heitt vatn í öllum krönum í húsinu sem þykir frekar óhefðbundið og á auk þess þvottavél, þurrkara og uppþvottavél sem alls ekki er algengt á svæðinu. Brynja segir fjarvinnu valkost í boði svo víða í dag og þegar það eigi við, eigi það ekki að skipta neinu hvar eða hvenær fólk vinnur verkin, svo lengi sem það skili sínu.

„Mér finnst sorglegt hvað Kólumbía nýtur ekki sannmælis. Fólk heldur að hér gangi allt út á eiturlyf og skæruliða. En ég bjó nú lengi í Reykjavík. Þar eru undirheimar. Ég kynntist þeim þó aldrei sjálf þó maður viti af þeim. Það sama er upp á teningnum hér. Auðvitað veit maður af þessu. En ég hef aldrei orðið vör við neitt.“

Árstíðirnar eru ekki fjórar þarna eins og við eigum að venjast. Heldur er talað um meiri rigningu eða minni rigningu. Þeir mánuðir sem Brynja mælir með til að heimsækja Kólumbíu eru helst janúar fram í mars og síðan maí til lok júní. Þá mælir Brynja með því að fólk leigi sér ekki bíla né keyri sjálft. Ódýrt sé að greiða fyrir akstur og vera með einkabílstjóra.

„Að koma hingað er ekki eins og að fara til Tenerife eða Benidorm. Þetta land er fyrir náttúruunnendur. Plönturíkið hér er eins og apótek alheimsins eitt og sér, svo litríkt og gjöfult er það.“

Þurfti alltaf að hafa síðasta orðið. Brynja segir allt orðið svo breytt. Fjarvinna er orðinn valkostur fyrir fólk svo víða í heiminum. Og einföld. Þess vegna skipti líka máli fyrir fólk að vera vakandi yfir búsetusvæðum sem eru í senn yndisleg og líkleg til að vaxa í eftirspurn og eign.

Ég veit svo sem ekkert hvað verður í framtíðinni. Ég hef alltaf passað mig á að vera ekki með yfirlýsingar um að nú sé ég búin að koma mér fyrir hér eða þar fyrir lífstíð. 

Enda hefur ástin alltaf leitt mig á einhverjar nýjar slóðir og hvað veit ég hvað gerist hjá mér.“

Rétt í þessum orðum flýgur kólibrífugl inn í húsið til Brynju.

„Já þeir koma oft til mín hingað inn. Og hér er sagt að þegar kólibrífugl flýgur inn í húsið þitt þá séu þeir að koma með skilaboð til þín,“ segir Brynja.

Hver þau skilaboð eru í þetta sinn, mun tíminn eflaust leiða í ljós.


Tengdar fréttir

Hamingjubúbblur og Ítalía: „Ég segi bara sí sí við öllu“

„Ég segi bara sí sí við öllu, flóknara þarf það ekki að vera,“ segir Rakel Garðarsdóttir athafnarkona og skellir uppúr. Rakel og eiginmaðurinn hennar, Björn Hlynur Haraldsson, fluttu til Flórens á Ítalíu í haust. Þaðan starfa þau bæði. Eða ferðast á milli eftir því hvað verkefni og vinna kalla á.

„Ég man hvað sjokkið var mikið, að sjá hvað hafði raunverulega átt sér stað“

„Ég man mjög vel eftir fyrsta vinnudeginum. Við vorum nokkur að byrja og embættið byrjað að skoða nokkur mál þótt það væri ekki opinbert enn. En ég man hvað sjokkið var mikið, að sjá hvað hafði raunverulega átt sér stað og hversu stórar upphæðir þetta voru,“ segir Eiríkur Rafn Rafnsson þegar hann rifjar upp fyrsta vinnudaginn sinn sem lögreglufulltrúi hjá Embætti sérstaks saksóknara.

Hoppaði beint út í bullandi „vertíð“ skemmtiferðaskipa

„Það var smá áfall að hafa kynnst miklu work-life balance hjá Dönum í Wonderful Copenhagen og fara svo út í vertíðar brjálæði á Íslandi hjá Gáru. En ég dáist af íslenska „þetta reddast“ andanum, það er ekki gefist upp, bara spýtt í lófana,“ segir Gyða Guðmundsdóttir, nýráðin sérfræðingur í samfélagsþjónustu hjá AECO, samtaka  útgerða leiðangursskipa á Norðurslóðum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×