Jólamolar Vísis munu birtast reglulega fram að jólum. Þar fáum við að kynnast þjóðþekktum einstaklingum í nýju ljósi og komast að því hvað það er sem kemur þeim í jólagírinn. Jólamolunum er ekki síður ætlað að koma lesendum Vísis í hið eina sanna hátíðarskap.
Hvort myndirðu skilgreina þig sem Elf eða The Grinch?
„Hahaha. Ég hef ALDREI fengið þessa spurningu áður. Ég verð þá frekar að hallast að Elf - halda í þennan barnslega spenning yfir jólunum. Það er alltaf spennandi að sjá hvað er í pökkunum.“
Hver er þín uppáhalds jólaminning?
„Ég var alltaf mikil afastelpa þegar ég var lítil og frá því ég man eftir mér þá fórum við afi saman í aftansöng á aðfangadag klukkan 18 og sungum jólin inn saman. Mér þykir mjög vænt um þessa minningu.“
Hver er eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
„Maðurinn minn Jökull Jörgensen, gaf mér yndislega gjöf fyrir nokkrum árum. Hann er nokkuð handlaginn og hefur gaman að gera lítil listaverk. Þarna hafði hann hafði fengið gamla skó af mér frá því að ég var lítil hjá mömmu, stillti þeim upp á steinplatta og raðaði nokkrum litlum steinum í kring - og kallaði þetta „Fyrstu skrefin“ - ég bara táraðist. Inni í skónum var svo lítið ljóð sem hann orti:
Varlega tiplar milli steina
Við vorsins fagra hljóm
Hafnfirsk huldu meyja
Hermir eftir afa á nýjum skóm“
Hver er versta jólagjöf sem þú hefur fengið?
„Já það kemur stundum fyrir að maður fær vondar gjafir en oftast er nú góður hugur á bak við þær. En ég fékk einu sinni alveg hræðilegan lampa sem fór BEINT í nytjagáminn um leið og opnaði.“
Hver er uppáhalds jólahefðin þín?
„Það eru svo sem ekki margar hefði sem ég held beint í. Auðvitað er aðfangadagur mjög hefðbundinn hjá okkur.
Gera aðventukrans, baka smákökur, hitta vini , hitta fjölskylduna, vera þakklát, syngja fyrir ykkur - þetta eru mínar hefðir.
Jú bíddu hæg, það eru auðvitað jólakortin - Jólakortin alltaf.“
Hvert er þitt uppáhalds jólalag?
„The Christmas Song (Chestnuts roasting) með Nat King Cole. Elska að hlusta á Mahaliu Jackson og svo elska ég jólin með Peggy Lee. Helga Möller og Borgardætur ekki langt undan.“
Hver er þín uppáhalds jólamynd?
„Ég held mikið upp á A Christmas Carol með Jim Carrey (teiknimynd). Líka Michael Caine og prúðuleikararnir og George C. Scott. Að sjálfsögðu er Love Actually alltaf einhvers staðar þarna og Home Alone og Wonderful Life, Die Hard og Lord of the Rings (já það er jólamynd fyrir mér). Þegar ég var krakki þá elskaði ég norska ævintýramynd sem heitir Leitin af jólastjörnunni, vá hvað ég var heilluð af henni.“
Hvað borðar þú á aðfangadag?
„Við erum alltaf með eitthvað spennandi í jólamatinn, yfirleitt eitthvað rautt kjöt og ég held að það verði hægelduð hrossalund í ár ásamt einhverju geggjuðu meðlæti…og já ég elda.“
Hvers óskar þú þér í jólagjöf í ár?
„Mig langar í úr (ég vona að Jökull lesi þetta), ALLTAF til í skó og plís ekki snyrtivöru í ár.“
Hvað er það sem hringir inn jólin fyrir þér?
„Bakstur ….Á bara allskonar. Ég baka biscotti að minnsta kosti tvær eða þrjár týpur af því. Svo baka ég auðvitað „jollakúlur“ sem eru smákökur sem maðurinn elskar. Nú ætla ég líka að henda í ljósa randalínu því ég á svo mikið af sultu sem ég geri sjálf. Svo ætla ég að gera lucia bollur og svo …Já einmitt ég er kannski aðeins of metnaðarfull.“
Er eitthvað skemmtilegt á döfinni hjá þér núna fyrir jólin?
„Það er margt að gerast í desember hjá mér. Ég verð með Friðrik Ómar í Salnum og Hofi í tónleikarröðinni hans Heima um jólin. Ég er að stjórna Kvennakór Kópavogs og við vorum með tónleika 4. desember.
Svo rétt fyrir jólin, 21. desember, verð ég með mína eigin tónleika í Fríkirkjunni í Hafnarfirði, eins og ég hef gert síðustu ... mhm…örugglega 10 ár núna. Þar spila með mér Börkur og Daði Birgissynir og Þorgrímur Jónsson. Sérstakur gestur þar verður vinur minn Egill Árni tenórsöngvari. Og... Ég er ekki búin... Því svo ætla ég að syngja með Björgvini Halldórs 23. desember í Bæjarbíó, það verður þvílíkt næs.“
