Umræðan

Má gagnrýna Skattinn?

Bjarnfreður Ólafsson skrifar

Í aðsendri grein í Kjarnanum í síðastliðinni viku telur Aðalsteinn Hákonarson, sem starfar fyrir Skattinn, að samstarfsfélagi minn gangi of langt gagnvart Skattinum í skrifum sínum um skattamál. Hið sama telur hann eiga við um mín fyrri skrif þó hann nefni mig ekki með beinum hætti. Þá telur Aðalsteinn að við séum báðir með áróður fyrir viðskiptavini okkar og að við reynum með skrifum okkar að gera lítið úr Skattinum.

Umrædd grein mín birtist í Innherja síðastliðið sumar. Af lestri hennar má sjá að hún er almenns eðlis og fjallar um að skattalög þurfi að vera skýr svo hægt sé að byggja á þeim og að túlkanir Skattsins á skattalögum þurfi að vera aðgengilegar og framkvæmd embættisins fyrirsjáanleg. Þá er vakin athygli á því að réttaróvissa á sviði skattamála hér á landi sé raunverulegt og alvarlegt vandamál.

Með engu móti, hvorki í fyrri skrifum né þessum orðum sem hér eru rituð, er ætlunin að veitast að starfsfólki Skattsins. En þar með er ekki sagt að ekki megi gagnrýna skattyfirvöld, hvaða sjónarmið ráði þar för og hvort bæta megi lagaumhverfið og starfsaðferðirnar. Hér skiptir líka máli að skattborgarar, og sér í lagi þeir sem sakaðir eru um skattundanskot eða skattsvik, eiga sér ekki marga málsvara.

Niðurstöður skattyfirvalda verða ávallt að leiða af skýrum lagatexta og vera þannig fyrirsjáanlegar.

Eitt helsta vandamál skattaréttar að mati undirritaðs er tvíþætt. Annars vegar ónógum eða óljósum lagaákvæðum um grundvallaratriði sem ítrekað reynir á í framkvæmd. Úr þeim vanda verður löggjafinn að bæta. Hins vegar að vel þekkt lögskýringarsjónarmið í skattarétti, þ.e. að eingöngu er hægt að leggja á skatta samkvæmt skýru orðalagi laga, virðist ekki alltaf eiga upp á pallborðið hjá skattyfirvöldum. Stundum komast þessi sjónarmið í raun ekki að fyrr en við dómstólameðferð - þá jafnvel um áratug eftir að mál hófst á stjórnsýslustigi.

Það er af og frá að hægt sé að leggja á skatta út frá sjónarmiðum sem byggja á því hvað Skattinum kann að finnast rétt og sanngjarnt hverju sinni. Niðurstöður skattyfirvalda verða ávallt að leiða af skýrum lagatexta og vera þannig fyrirsjáanlegar.

Með hliðsjón af kröfum stjórnarskrár og lögmætisreglu um skýrleika skattalaga er brýnt að löggjafinn, dómstólar og framkvæmdavaldið, þar með talið Skatturinn, fylgi þessum kröfum og beiti hinum þekktu lögskýringarsjónarmiðum við störf sín. Þessi lögskýringarsjónarmið eru staðfest í fræðaskrifum og sérstaklega ítrekuð í dómum Hæstaréttar á undanförnum árum.

Ef lög eru ekki nægilega skýr þá þarf Alþingi einfaldlega að taka ákvörðun um hvort rétt sé að breyta þeim.

Það gefur auga leið að ef skattborgarar og ráðgjafar þeirra beita öðrum lögskýringarsjónarmiðum en kann að tíðkast hjá Skattinum þá er eitthvað að. Fjöldi deilumála og kröfur um réttaröryggi á þessu sviði leiða til þess að það þarf að athuga hvort kenning um mismunandi viðhorf til lögskýringa sé mögulega rétt og hvort það kunni að vera skýring á fjölda dómsmála sem snúast fyrst og fremst um lögskýringar í skattarétti.

Það þarf að gilda almenn sátt um hvaða lagastuðning skattlagning þarf að hafa og hvernig á að lesa lögin, þ.e. hvaða lögskýringarsjónarmið ráða för við lesturinn. Fræðimenn og dómstólar virðast vera samstíga um hvaða kröfur ber að leggja hér til grundvallar. Sjónarmið Skattsins skipta því í raun litlu máli við lögskýringar heldur hvað má með réttum aðferðum lesa út úr settum lögum af Alþingi.

Á lögmætiskröfum við skattlagningu má aldrei veita afslátt. Það er tryggt í stjórnarskrá. Ef lög eru ekki nægilega skýr þá þarf Alþingi einfaldlega að taka ákvörðun um hvort rétt sé að breyta þeim.

Skattframkvæmd þarf almennt að vera agaðri og fyrirsjáanlegri. Þetta er rökstudd skoðun en ekki áróður fyrir neinu öðru en bættu réttaröryggi

Vinna við skattamál getur verið vandasamt verk sem krefst lögfræðilegs aga á stjórnsýslustigi. Erfitt getur verið að ná fram slíkum aga nema raunverulegu aðhaldi sé gætt, t.d. með stjórnsýsluúttektum og stofnanasamningum. Í það minnsta einhvers konar úttekt óháðs aðila á árangri deilumála Skattsins. Þannig mætti taka út hvaða deilumál Skattsins, þ.m.t. niðurstöður Skattrannsóknarstjóra, unnust og hver töpuðust, en einnig út frá því hvort deilumálin kalli á skýrari lagasetningar til að koma í veg fyrir fleiri slík langvarandi deilumál, hvort breyta eigi áherslum eða verklagi o.s.frv. Slíkar úttektir ættu að vera öllum í hag, ekki síst ríkissjóði.

Þannig telur undirritaður að skattframkvæmd þurfi almennt að vera agaðri og fyrirsjáanlegri eins og einnig er fjallað um í grein minni í Innherja frá því fyrr í sumar. Þetta er rökstudd skoðun en ekki áróður fyrir neinu öðru en bættu réttaröryggi. Þá er umræða um skattframkvæmd nauðsynleg en á sama tíma er æskilegt að hún sé eins málefnaleg og kostur er.

Höfundur er lögmaður og meðeigandi á LOGOS.


Tengdar fréttir

Skýrari skattalög

Hvergi kemur nú fram í einkennisorðum Skattsins að leggja eigi skatta á með réttum hætti eða lögum samkvæmt. Þess í stað er nefnt að stofnunin sé „framsækin“? Og hvernig fer stofnunin að því að stuðla að jafnræði og virkri samkeppni? Það getur varla verið á verksviði Skattsins enda heyra þessi verkefni undir allt aðra aðila. Og í hverju felast orðin um vernd samfélagsins? Þetta er allt frekar torskilið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×