Innherji

„Við þurfum að­eins að vakna,“ segir fjár­mála­ráð­herra sem styður Seðla­bankann

Hörður Ægisson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri voru gestir á Peningamálafundi Viðskiptaráðs í morgun.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri voru gestir á Peningamálafundi Viðskiptaráðs í morgun.

Seðlabankastjóri svaraði fast fyrir þá gagnrýni sem hann hefur fengið frá aðilum vinnumarkaðarins vegna hækkunar vaxta á Peningamálafundi Viðskiptaráðs í morgun og sagði að það skipti ekki neinu „að lemja á“ Seðlabankanum fyrir að framfylgja lögbundnu hlutverki sínu. Fjármálaráðherra lýsti því yfir að hann styddi ákvörðun Seðlabankans. „Raunverulega vandamálið“ sagði hann vera vinnumarkaðinn og benti á að það væri enginn samhljómur í kröfugerð helstu stéttarfélaganna.

„Við þurfum aðeins að vakna,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra í umræðum á Peningamálafundi Viðskiptaráðs – undir yfirskriftinni: Hver ber ábyrgð á verðbólgunni? – og nefndi að þótt vaxtahækkun Seðlabankans í gær hafi „verið köld vatnsgusa“ fyrir suma þá kunni hún að hafa send nauðsynleg skilaboð til aðila vinnumarkaðarins.

„Vandamálið er ekki Ásgeir Jónsson,“ sagði ráðherrann, heldur fremur hversu lítill samhljómur væri á milli þeirra aðila sem sitja við samningaborðið um gerð kjarasamninga. Þannig væri af hálfu verkalýðsfélaganna núna bæði verið að krefjast mikilla krónutöluhækkana og eins prósentutöluhækkana, og kröfugerðirnar tækju aðeins mið af „punktstöðunni“ um þessar mundir en verðbólga mælist núna 9,4 prósent. Við sem þjóð værum föst í því að „biðja alltaf um aðeins meira“ en þjóðarbúið stæði undir hverju sinni.

Við getum ekki búið til okkar eigin veruleika hér á Íslandi.

„Þetta eru bara óraunhæfar hugmyndir,“ sagði Bjarni.

Vaxtahækkun Seðlabankans – úr 5,75 prósentum í 6 prósent – fór illa í forystufólk verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, lét þannig hafa eftir sér að vegna þessa stefni allt í að þær viðræður sem hafa staðið yfir við fulltrúa atvinnurekenda á borði Ríkissáttasemjara verði slitið og í kjölfarið gripið til harðra aðgerða. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagðist sömuleiðis ósammála vaxtaákvörðun Seðlabankans. Hún setji kjaraviðræðurnar í „uppnám“ og trúverðugleiki bankans hafi beðið „hnekki“ við þessa vaxtahækkun.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra boðaði aðila vinnumarkaðarins til fundar í Stjórnarráðinu klukkan 9:30 í morgun vegna stöðunnar sem upp er komin í kjarasamningum.

Á fundi Viðskiptaráðs sagði Ásgeir að þessi hvassa gagnrýni fulltrúa verkaýðsfélaga og atvinnurekenda við vaxtaákvörðun Seðlabankans hafi sumpart komið honum á óvart. „Það gott að þeir hafi sameinast gegn mér og Seðlabankanum,“ sagði Ásgeir í léttum tón.

Seðlabankastjóri ítrekaði rökstuðning bankans fyrir því af hverju hefði verið nauðsynlegt að hækka vexti – tíunda fund peningastefnunefndar í röð – og sagði öllu máli skipta að huga að ytri stöðu þjóðarbúsins. „Við getum ekki búið til okkar eigin veruleika hér á Íslandi,“ sagði hann, og nefndi í því samhengi að Seðlabankinn hefði áhyggjur af mikilli einkaneyslu sem væri farin að valda viðskiptahalla og setja þrýsting á gengi krónunnar.

Þannig útskýrði Ásgeir að ef neyslan heldur áfram að aukast – útlit er fyrir að vöruskiptahallinn fari að nálgast tíu prósent af landsframleiðslu – og viðskiptakjörin að versna á sama tíma að þá þurfi Seðlabankinn að grípa til frekari aðgerða til að draga úr eftirspurn í kerfinu. „Bankinn verður þá að bregðast við af enn meiri hörku,“ undirstrikaði seðlabankastjóri.

Í viðtali við Innherja, sem birtist í morgun, sagði seðlabankastjóri aðspurður hvort hann hafi ekki verið of fljótur á sér að boða toppinn í vaxtahækkunarferlinu fyrr í haust að þróunin að undanförnu hafi ekki verið eins hagfelld og bankinn hafi vonast eftir. „Þetta getur þess vegna orðið erfiðara verkefni en við bjuggumst við,“ nefndi Ásgeir, og bætti við:

„Það skiptir líka máli að aðilar vinnumarkaðarins trúi því að okkur muni takast að ná niður verðbólgunni og það þurfi þess vegna ekki að semja um launahækkanir til að bæta upp fyrir þá verðbólgu sem mælist núna.“

En er ekki hættan sú að með þessari vaxtahækkun sé búið að hleypa öllu í bál og brand á vinnumarkaði?

„Vonandi ekki. Við höfum það lögbundna hlutverk að tryggja verðstöðugleika og teljum að við séum að styðja við kjarasamninga með aðgerðum okkar. Það yrði til einskis að semja um þannig launahækkanir að þær myndu brenna upp í verðbólgufári. Seðlabankinn álítur þess vegna að hann sé að hjálpa til við að tryggja að svo verði ekki,“ sagði Ásgeir.

Í nýjasta hefti Peningamála, riti Seðlabankans sem var birt samhliða vaxtaákvörðuninni í gær, kemur meðal annars fram að verðbólguhorfur gætu reynst of bjartsýnar ef yfirstandandi kjaraviðræður leiða til þess að laun hækki meira en grunnspá bankans gerir ráð fyrir. Þá yrði aukin hætta á að víxlverkun launa og verðlags fari af stað þar sem vísbendingar eru um að kjölfesta verðbólguvæntinga í verðbólgumarkmiði bankans hafi veikst.

Undirliggjandi verðbólga, sem mælist núna 6,9 prósent, hefur haldið áfram að aukast sem endurspeglast meðal annars í því að yfir helmingur undirliða vísitölu neysluverðs hækkaði um meira en sex prósent milli ára í október. Á fyrri helmingi ársins jókst einkaneysla um 11,4% milli ára. Þessi mikli vöxtur endurspeglar, að því er fram kemur í Peningamálum, almennt sterka stöðu heimila þar sem kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist töluvert og hreint virði heimila farið vaxandi.

Samkvæmt þjóðhagsspá bankans er útlit fyrir að halllinn á viðskiptum við útlönd verði um og yfir 3 prósent fram á árið 2025.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.