Jól

Nýtt jóla­lag frá Klöru: Vonar að lagið færi fólki frið frá öllu jóla­stressinu

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Klara gaf út lagið Desember nú í dag. Þá verður hún með sérstaka hátíðartónleika þann 18. desember í Sundhöll Hafnarfjarðar.
Klara gaf út lagið Desember nú í dag. Þá verður hún með sérstaka hátíðartónleika þann 18. desember í Sundhöll Hafnarfjarðar. Óli Már

„Við vissum að við vildum gera jólalag og vorum sammála um að gera ekki enn eitt jólalagið um alla pakkana og kertin og allt þetta dót sem skiptir engu máli þegar upp er staðið,“ segir tónlistarkonan Klara Elias um nýja lagið Desember sem kom út í dag.

Lagið og textann samdi hún ásamt pródúsentinum Þormóði Eiríkssyni, sem hefur samið og útsett fyrir marga af fremstu tónlistarmönnum landsins. Þormóður útsetti lagið ásamt því að sjá um gítarleik.

„Það bara komu ekki jól því ég var ekki með fjölskyldunni“

Lagið fjallar um desember mánuð, að hann sé í raun bara eins og hver annar mánuður.

„Hann er dimmur og kaldur og fyrir marga er hann ekkert spes. En mín upplifun er sú að það sem gerir þennan mánuð hlýjan og fallegan eru ekki bara jólaljós og kerti heldur fólkið sem maður deilir honum með,“ segir Klara í samtali við Vísi.

Klara segist sjálf hafa alist upp við hlý og hamingjurík jól. Í hennar huga eru það fjölskyldustundir, afslöppun og góð bók sem skilgreina sanna jólagleði.

„Ég var til dæmis úti að vinna tvö jól þegar ég bjó ennþá erlendis og þá bara komu ekki jól því ég var ekki með fjölskyldunni. Það var eins og jólin hefðu ekki skeð. Það var samt nóg skreytt, ég fékk nóg af gjöfum og borðaði jólamat en það var ekki neitt án þeirra sem skipta mig mestu máli.“

„Sum jólalög gera mig bara stressaða“

Klara segist vel geta skilið að margir upplifi kvíða í kringum þennan árstíma. Enda hafi jólin í síauknum mæli farið að snúast um veraldlega hluti og efnishyggju nú í seinni tíð - Fullkomnar gjafir, tandurhreint heimili og að vera með allt á hreinu.

„Sum jólalög gera mig til dæmis bara stressaða. En ég tók meðvitaða ákvörðun fyrir nokkrum árum síðan að hætta því rugli og reyna muna hvað skiptir máli - og ég vona að þetta lag spegli það smá. Að bæði textinn og útsetningin búi til smá frið frá ágengu jólastressi eða þreyttum jólalögum og minni okkur á það hvað raunverulega skiptir máli í þessum mánuði,“ segir Klara.

Klippa: Klara Elias - Desember

Blæs til hátíðartónleika og hefur frítt inn

Nú um helgina er Klara er á leið til sinnar gömlu heimaborgar, Los Angeles, þar sem hún mun dvelja í nokkrar vikur.

„Ég kem svo heim rétt fyrir jól og ætla að halda tónleika í Sundhöll Hafnarfjarðar þann 18. desember. Þetta verða órafmagnaðir litlir tónleikar með mínum uppáhalds hátíðarlögum í þessu stórkostlega fallega húsi.“

Tónleikarnir verða haldnir í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ, heimabæ Klöru, og verður frítt inn á tónleikana. Það þarf þó að ná sér í miða inni á Tix.is þar sem takmarkaður fjöldi kemst að. Miðasala hefst í hádeginu.

„Ég reyni svo að taka mér frí um jólin. Það tekst alls ekki alltaf en ég ætla að reyna eins og ég get þessi jól eftir þetta annríka ár,“ segir Klara að lokum.

Það verður frítt inn á tónleika Klöru í Sundhöll Hafnarfjarðar, en það þarf þó að ná sér í miða á tix.is.Óli Már

Tengdar fréttir

Klara söng á meðan Kim Kar­dashian gekk inn á veitinga­stað í Mílanó

Glöggir áhorfendur The Kardashians raunveruleikaþáttanna máttu heyra kunnuglega rödd óma í tveimur atriðum í nýjasta þættinum. Það er engin önnur en hin íslenska tónlistarkona Klara Elíasdóttir eða Klara Elias sem syngur í þessum heimsfrægu þáttum - og það ekki í fyrsta sinn.

Klara í The Kardashians

Söngkonan Klara Elias hefur verið að gera öfluga hluti í tónlistarheiminum að undanförnu. Ásamt því að syngja Þjóðhátíðarlagið í ár og koma fram víða í sumar má heyra rödd Klöru syngja í nýjustu Kardashian raunveruleikaþáttunum. Blaðamaður fékk að taka púlsinn á Klöru og forvitnast um samstarfið við eina frægustu fjölskyldu í heimi.

Klara í fyrsta sæti íslenska listans

Söngkonan Klara Elias situr í fyrsta sæti íslenska listans þessa vikuna með Þjóðhátíðarlagið Eyjanótt. Lagið kom út 7. júní síðastliðinn og hefur óðfluga hækkað sig upp listann að undanförnu.

Klara Elias er höfundur og flytjandi Þjóðhátíðarlagsins í ár

Höfundur og flytjandi Þjóðhátíðarlags Vestmannaeyja 2022 er Klara Elias söngkona og lagahöfundur. Aðeins einu sinni áður hefur hið opinbera þjóðhátíðarlag verið samið og flutt af konu og var það lagið og var það lagið Sjáumst þar eftir Röggu Gísla árið 2017.








×