Innherji

Af­koma ríkis­sjóðs 60 milljörðum betri en gert var ráð fyrir í fjár­lögum

Þórður Gunnarsson skrifar
Heildarjöfnuður ríkissjóðs, sem tekur fjármagnskostnað ríkissjóðs inn í myndina, verður neikvæður um tæpa 126 milljarða, samanborið áætlun sem hljóðaði upp á 186 milljarða.
Heildarjöfnuður ríkissjóðs, sem tekur fjármagnskostnað ríkissjóðs inn í myndina, verður neikvæður um tæpa 126 milljarða, samanborið áætlun sem hljóðaði upp á 186 milljarða.

Heildarafkoma ríkissjóðs á árinu 2022 verður ríflega 60 milljörðum betri en lagt var upp með í fjárlögum yfirstandandi árs. Frumtekjur ríkissjóðs verða um 111 milljörðum hærri en áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir á meðan frumútgjöld eru áætluð 17,5 milljörðum hærri.

Þetta kemur fram í frumvarpi til fjáraukalaga sem birt hefur verið á vef Alþingis. Frumjöfnuður ríkissjóðs verður neikvæður um tæpa 38 milljarða, sem er tæplega 94 milljörðum skárra en fjárlög ársins gerðu ráð fyrir. Frumútgjöld sem keyrðu umfram áætlun eru helst tengd heilbrigðismálum, endurmat á launaforsendum vegna kjarasamningsbundins hagvaxtarauka og sérstakra aðgerða til að bæta hag tekjulægri heimila vegna verðbólguskotsins í ár. Einnig hefur verið tekið tillit til kaupa ríkissjóðs á Norðurhúsi við Austurbakka af Landsbankanum.

Heildarjöfnuður ríkissjóðs, sem tekur fjármagnskostnað ríkissjóðs inn í myndina, verður neikvæður um tæpa 126 milljarða, samanborið áætlun sem hljóðaði upp á 186 milljarða.

Ríkissjóður Íslands fór ekki varhluta af mikilli verðbólgu á árinu, en vaxtajöfnuður ríkissjóðs verður neikvæður um 88 milljarða, sem er 33 milljörðum verri afkoma en gert var ráð fyrir. „Þá aukningu má fyrst og fremst rekja til mun hærri gjaldfærslu á verðbótum á rekstrargrunni en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir en gjaldfærðar verðbætur aukast um 36 milljarða króna á yfirstandandi ári vegna hárrar verðbólgu,“ segir í greinagerð sem fylgir fjáraukalögum.

Skuldar 500 verðtryggða milljarða

Umfang verðtryggðra lána ríkissjóðs er nú um 500 milljarðar króna. Því leiðir hvert aukið prósentustig verðbólgu til fimm til sex milljarða af bókfærðum verðbótum. Þegar fjárlög 2022 voru samþykkt var reiknað með 2,8 prósent verðbólgu í árs lok, en sú tala hefur nú verið uppfærð í 8,8 prósent. „Ljóst er að umfang verðbóta hefur tekið stakkaskiptum samhliða auknu umfangi verðtryggðra lána í skuldasafni ríkissjóðs og í beinu samhengi við aukna verðbólgu,“ segir í greinagerð með fjáraukalögum.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.