Undanfarið hefur mikil vinna verið lögð í að endurmóta vöruframboð The Coca-Cola Company á heimsvísu og er það stefna fyrirtækisins að einbeita sér að þeim vörumerkjum sem eru hvað vinsælust. Því ætlar fyrirtækið að hætta framleiðslu á safafernunum Svala.
Hér má sjá Svala-auglýsingar sem gerðar voru með Jóni Páli Sigmarssyni.
„Við höfum átt farsæla áratugi í fylgd Svala en hann er engu að síður barn síns tíma og við erum á annarri vegferð í dag. Kröfur neytenda og smekkur fólks þróast í sífellu og samhliða því þurfum við að fara yfir árangur og stöðu vörumerkja okkar reglulega,“ er haft eftir Einari Snorra Magnússyni, forstjóra Coca-Cola á Íslandi, í tilkynningu.
Með þessu ætlar fyrirtækið að styrkja þau vörumerki sem eftir eru, skapa rými fyrir nýsköpun og vera betur í stakk búin til að bregðast við þörfum viðskiptavina.
„Við kveðjum því Svala að svo búnu og þökkum honum samfylgdina!“ segir Einar.
Hér eru fleiri auglýsingar. Í einni þeirra var HLH-flokkurinn fenginn til að aðstoða.