Klinkið

Skúli hættir hjá Kviku eignastýringu og fer yfir til LSR

Ritstjórn Innherja skrifar
Skúli Hrafn Harðarson mun taka til starfa á eignastýringarsviði LSR.
Skúli Hrafn Harðarson mun taka til starfa á eignastýringarsviði LSR.

Skúli Hrafn Harðarson, sjóðstjóri hlutabréfasjóða hjá Kviku eignastýringu síðustu ár, hefur sagt upp störfum hjá félaginu. Mun Skúli Hrafn í kjölfarið hefja störf hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR), stærsta lífeyrissjóði landsins, síðar á árinu, samkvæmt upplýsingum Innherja.

Skúli Hrafn tekur við störfum á eignastýringarsviði LSR með áherslu á innlend hlutabréf og skuldabréf.

Hann hefur starfað innan Kviku samstæðunnar allt frá árinu 2008 og var áður meðal annars sjóðstjóri blandaðra sjóða hjá Kviku eignastýringu frá 2015 til 2019. Þá var Skúli Hrafn, sem er með BA-gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands ásamt því að hafa lokið prófi í verðbréfaviðskiptum, forstöðumaður eigin viðskipta MP banka um nokkurra ára skeið.

Í árslok 2021 var LSR, sem er á meðal stærstu hluthafa í flestum innlendum félögum í Kauphöllinni, með eignir í stýringu að fjárhæð um 1.350 milljarða króna. Sjóðurinn var með um 10 prósenta hreina raunávöxtun í fyrra en síðustu fimm ár hefur raunávöxtun LSR verið að meðaltali um 8,3 prósent.

Fyrr í haust var Halla Kristjánsdóttir ráðin sem nýr forstöðumaður eignastýringar LSR, eins Innherji greindi fyrst frá, en hún tók við starfinu af Birni Hjaltested Gunnarssyni sem hafði stýrt sviðinu allt frá árinu 2015.

Brotthvarf Skúla Hrafns frá Kviku eignastýringu kemur skömmu eftir að Þorkell Magnússon hætti sem forstöðumaður sjóðastýringar félagsins og réð sig yfir til SIV eignastýringar, nýs sjóðastýringarfélags sem var stofnað af VÍS, í september síðastliðnum. Þá hætti einnig Agnar Tómas Möller, sem hafði farið fyrir skuldabréfasjóðum Kviku eignastýringar, störfum hjá félaginu síðasta sumar.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.


Tengdar fréttir

Agnar hættir hjá Kviku og skulda­bréfa­sjóðnum slitið

Agnar Tómas Möller mun láta af störfum sem sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu samkvæmt heimildum Innherja. Í kjölfarið verður sérhæfða skuldabréfasjóðnum Kvika – Iceland Fixed Income Fund (IFIF) slitið og fjármunum skilað til hlutdeildarskírteinishafa.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.×