Klinkið

Pétur og Sigurður Óli til Landsbankans

Ritstjórn Innherja skrifar
Sigurður Óli Sigurðarson og Pétur Kristinn Guðmarsson.
Sigurður Óli Sigurðarson og Pétur Kristinn Guðmarsson.

Landsbankinn hefur stækkað teymi sitt í verðbréfamiðlun með ráðningu á tveimur nýjum starfsmönnum, samkvæmt upplýsingum Innherja.

Pétur Kristinn Guðmarsson hefur þannig gengið til liðs við bankann en hann hefur undanfarin ár starfað hjá Dohop, meðal annars sem rekstrar- og fjármálastjóri. Þá vann í um tíu ár hjá Arion banka og Kaupþingi, bæði í eigin viðskiptum og í fyrirtækjaráðgjöf.

Þá hefur Sigurður Óli Sigurðarson einnig tekið til starfa sem greinandi við miðlun hjá Landsbankanum en hann hafði áður verið um langt skeið hjá ráðgjafafyrirtækinu PwC, síðast sem sviðsstjóri fyrirtækjaráðgjafar.

Bæði Pétur og Sigurður Óli eru meðal annars með meistaragráðu í fjárfestingarstjórnun frá Háskólanum í Reykjavík.

Í síðasta mánuði var Landsbankinn með rúmlega 9 prósenta hlutdeild á meðal Kauphallaraðila í hlutabréfaviðskiptum á markaði. Í skuldabréfum var hlutdeild bankans hins vegar tæplega 16 prósent. Í samanburði við hina stóru bankana – Arion og Íslandsbanka – þá var Landsbankinn með nokkru minni hlutdeild.

Verðbréfamiðlun Landsbankans heyrir undir sviðið Eignastýring og miðlun. Í nýbirtu uppgjöri Landsbankans kom fram að hreinar þjónustutekjur hefðu aukist um 14,3 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra, einkum vegna meiri umsvifa í eignastýringu og markaðsviðskiptum.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.


×