Klinkið

Sigurður hættir hjá Akta sjóðum

Ritstjórn Innherja skrifar
Sigurður hefur verið meðal hluthafa Akta sjóða með um 5,4 prósenta hlut.
Sigurður hefur verið meðal hluthafa Akta sjóða með um 5,4 prósenta hlut.

Sigurður Kr. Sigurðsson, sem hefur verið hjá Akta frá árinu 2019, er hættur störfum hjá sjóðastýringarfyrirtækinu. Hann starfaði á eignastýringarsviði félagsins, sem var komið á fót fyrr á þessu ári, sem sérfræðingur í fjárfestatengslum og viðskiptaþróun.

Sigurður hefur verið í hópi hlutahafa í Akta með um 5,4 prósenta eignarhlut og er með yfir 16 ára starfsreynslu á fjármálamörkuðum. Hann vann áður meðal annars hjá GAMMA Capital Management og MP banka í einkabankaþjónustu.

Nokkuð hefur verið um mannabreytingar hjá Akta að undanförnu en í gær sagði sjóðastýringarfélagið frá því að Edda Guðrún Sverrisdóttir hefði verið ráðin sem yfirlögfræðingur og regluvörður. Tekur hún við starfinu af Rósu Kristinsdóttir. Edda var áður um tíu ára skeið lögfræðingur hjá Kviku banka og sat einnig í stjórn Akta á árunum 2020 til 2021.

Edda Guðrún Sverrisdóttir er nýr yfirlögfræðingur Akta sjóða.

Þá hætti Helena Brynjólfsdóttir, sem var fjárfestingatengill á eignastýringarsviði Akta sjóða, störfum fyrr í haust og réð sig yfir til Arion sem viðskiptastjóri í einkabankaþjónustu.

Eignir í stýringu Akta, sem hafa margfaldast á undanförnum árum, lækkuðu um tæplega 19 milljarða á fyrstu sex mánuðum ársins og námu um 45,2 milljörðum króna í lok júní. Þá drógust tekjur félagsins saman um liðlega 87 prósent miðað við sama tímabil í fyrra og voru samtals 235 milljónir. Hagnaðurinn nam um 2,5 milljónum króna miðað við 1,3 milljarða hagnað á sama tíma fyrir um ár.

Ólíkt öðrum helstu sjóðastýringarfyrirtækjum landsins er Akta að langstærstum hluta í eigu starfsmanna auk þess sem Kvika banki fer með tæplega 19 prósenta. Örn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Akta, er stærsti hluthafinn með um 45 prósenta hlut en aðrir starfsmenn eiga á bilinu 2 til 10 prósenta hlut.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.


Tengdar fréttir

Eignir í stýringu Akta lækka um þriðjung, miklar innlausnir í stærstu sjóðunum

Mikill samdráttur einkenndi rekstur og afkomu sjóðastýringarfyrirtækisins Akta, sem hefur vaxið mjög hratt á skömmum tíma, á fyrri helmingi þessa árs samhliða erfiðum aðstæðum á fjármálamörkuðum. Akta hagnaðist aðeins um 2,5 milljónir, borið saman við 1,3 milljarða hagnað á sama tíma fyrir ári, og margra milljarða króna útflæði var úr helstu fjárfestingarsjóðum í stýringu félagsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×