Innherji

Ráðherra „mótmælir harðlega“ að slit á ÍL-sjóði líkist greiðslufalli ríkissjóðs

Hörður Ægisson skrifar
„Ég mun ekki samþykkja að við veltum vandanum á undan okkur. Með því verða komandi kynslóðir að bera allt að 150 milljarða byrðar umfram lagalega skyldu ríkisins," segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra,
„Ég mun ekki samþykkja að við veltum vandanum á undan okkur. Með því verða komandi kynslóðir að bera allt að 150 milljarða byrðar umfram lagalega skyldu ríkisins," segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Vísir/Vilhelm

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segist „mótmæla harðlega“ þeirri skoðun sem stjórnarmaður í lífeyrissjóði hefur sett fram að ef ÍL-sjóður, áður gamli Íbúðalánasjóðurinn, verði settur í slitameðferð jafngildi það greiðslufalli ríkissjóðs sem er í ríkisábyrgð fyrir skuldbindingum sjóðsins.

Að sögn Bjarna ætti engum að koma á óvart að kröfuhafar, sem eru að langstærstum hluta íslenskir lífeyrissjóðir, vilji „ekkert vita af þessu máli og einfaldlega fá fullar efndir ÍL-sjóðs á skuldum,“ skrifar ráðherrann í færslu sem hann birtir á Facebook í morgun, og bætir við:

„Vandinn er bara sá að sjóðurinn á ekki fyrir skuldum.“

Þá bendir hann á að möguleg slit ÍL-sjóðs myndu gjaldafella allar kröfur á sjóðinn. Við það virkjast ríkisábyrgðin sem tryggir uppgjör höfuðstóls og áfallinna vaxta. „Ríkið mun því undir öllum kringumstæðum axla ábyrgð á skuldbindingum sínum gagnvart kröfuhöfum sjóðsins, í samræmi við skilmála og lög. Þetta heita efndir á ríkisábyrgðinni. Efndir eru andstaða greiðslufalls,“ segir Bjarni.

Óvissa og óþarfa skuldaaukning dregur á hinn bóginn úr trausti. Að halda öðru fram líkist því að telja lánstraustið vaxa með hærri skuldum.

Tilefni skrifa Bjarna er viðtal við Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum og hagfræði við Háskóla Íslands og stjórnarmann í Almenna lífeyrissjóðnum, í Kastljósi í gærkvöldi en í máli hans þar kom meðal annars fram að fari stjórnvöld þá leið – eins og fjármálaráðherra hefur boðað – að setja ÍL-sjóð í greiðsluþrot jafngildi það greiðslufalli ríkissjóðs.

„Í raun og veru, ef að sjóðurinn er settur í þrot, þá í mínum huga, þá er þetta ekkert annað en greiðslufall hjá ríkissjóði. Þetta er mín persónulega skoðun. Ríkissjóður er í raun að senda skilaboð til fjárfesta að hann noti öll ráð sem í boði eru til að koma sér undan skuldbindingum sínum,“ sagði Már.

Til að reka ÍL-sjóð út líftíma hans þyrfti ríkissjóður að leggja honum til 450 milljarða króna, eða um 200 milljarða að núvirði. Ef sjóðnum yrði hins vegar slitið nú og eignir seldar til að greiða skuldir væri staðan neikvæð um 47 milljarða króna, samkvæmt skýrslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þar segir að hefjast verði handa við að leita leiða til að slíta ÍL-sjóði sem fyrst nema ef kröfuhafar hans séu reiðubúnir að gangast undir samkomulag um uppgjör eigna og skulda á næstu vikum. Gera má ráð fyrir að með hverjum mánuði sem líður aukist kostnaður ríkissjóðs við uppgjör um 1,5 milljarð króna á mánuði.

Þá hafnar Bjarni einnig þeirri skoðun Más sem hélt því fram í Kastljósi að ef til slita sjóðsins kæmi og uppgjörs á ríkisábyrgðinni myndi það skaða lánstraust ríkissjóðs. Það standist ekki skoðun, að sögn fjármálaráðherra.

„Með því að eyða óvissu um uppgjör ÍL-sjóðs og standa við ríkisábyrgðina, sem er svokölluð einföld ábyrgð, er komið í veg fyrir frekari uppsöfnun vandans og gagnsæi og jafnræði tryggt. Slíkt eykur jafnan traust. Óvissa og óþarfa skuldaaukning dregur á hinn bóginn úr trausti. Að halda öðru fram líkist því að telja lánstraustið vaxa með hærri skuldum,“ segir Bjarni.

Hann vonist hins vegar til þess að farsæl lausn fáist í málið með viðræðum ríkisins, sem Steinþór Pálsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans leiðir, og kröfuhafa sjóðsins þar sem útgangspunkturinn verður að vera lagaleg staða málsins.

„Ég mun hins vegar ekki samþykkja að við veltum vandanum á undan okkur. Með því verða komandi kynslóðir að bera allt að 150 milljarða byrðar umfram lagalega skyldu ríkisins. Það væri bæði óábyrgt og rangt. Sama hvað þeir sem horfa eingöngu á málið út frá þröngum hagsmunum kröfuhafans segja,“ skrifar fjármálaráðherra.

ÍL-sjóður skuldar höfuðstól þeirra skuldabréfa sem hafa verið gefin út – lífeyrissjóðir eiga meðal annars slík bréf fyrir um 640 milljarða króna – auk vaxta og verðbóta til uppgjörsdags. Ábyrgð ríkissjóðs taki þannig til þessara stærða, samkvæmt lögfræðiálitinu sem fjármálaráðuneytið lét vinna fyrir sig vegna málsins.

Forsvarsmenn sumra stærstu lífeyrissjóða landsins hafa gagnrýnt áform stjórnvalda. Framkvæmdastjóri Birtu sagði þannig við Innherja á föstudag að „ávinningur ríkissjóðs af aðgerðunum muni breytast í tap fyrir lífeyrissjóði.“ Forstöðumaður eignastýringar Gildis talaði á sömu nótum í viðtali við Morgunblaðið daginn eftir og sagði að ríkissjóður væri með þessu að reyna fara í vasa almennings. „Þetta er tilraun til þess að ganga í sparnað almennings.“

Fjármálaráðherra hefur svarað fyrir þessa gagnrýni og sagt hana „ótrúlega afbökun“ á stöðu málsins.

ÍL-sjóður varð til við uppskiptingu gamla Íbúðalánasjóðsins. Hann heldur utan um lánasafn Íbúðalánasjóðs en stofnunin sjálf sameinaðist Mannvirkjastofnun í Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Um mitt ár var eigið fé sjóðsins neikvætt um 213 milljarða króna. Uppsafnaður fjárhagsvandi sjóðsins er tilkominn vegna uppgreiðslna á útlánum sjóðsins sem hófust á árinu 2004 og hefur lækkun vaxta síðustu ára ýtt enn frekar á uppgreiðslu útlána.

Þar sem sjóðurinn er hættur útlánastarfsemi er uppgreiðslum ráðstafað í innlán og skuldabréf sem bera í dag lægri vexti en eru á skuldum sjóðsins. Skuldir sjóðsins eru aftur á móti óuppgreiðanlegar og bera fasta verðtryggða vexti.


Tengdar fréttir

Óvissa um uppgjör ÍL-sjóðs setur „allan skuldabréfamarkaðinn í uppnám“

Tillögur fjármálaráðherra um hvernig leysa megi upp ÍL-sjóð voru „nokkuð óvænt útspil“ en verði það gert á grundvelli svonefndrar einfaldrar ábyrgðar ríkissjóðs, þar sem tæknilega er hægt að greiða upp skuldabréf sjóðs á pari í dag frekar en yfir líftíma þeirra allt til ársins 2044, mun það þýða „umtalsvert“ tap fyrir þá sem halda á bréfunum, að sögn sérfræðings á skuldabréfamarkaði. Langsamlega stærstu eigendur skuldabréfanna eru lífeyrissjóðir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×