Umræðan

Óhaldbær rök sjálfbærnistjórans

Þórður Gunnarsson skrifar

Sjálfbærnistjóri Orkuveitu Reykjavíkur hafði sitthvað að athuga við ritstjórnargrein Innherja sem birtist fyrir skemmstu. Í ritstjórnargreininni var bent á þá augljósu staðreynd að sú stefna Orkuveitu Reykjavíkur að auka ekki raforkuframleiðslu rímaði hreint ekki við stefnu stjórnvalda og atvinnulífs um að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.

Full orkuskipti fela meðal annars í sér að hætta innflutningi jarðefnaeldsneytis. Sem stendur að baki 40 prósentum orkunotkunar á Íslandi, ef húshitun er undanskilin. Ómögulegt er að útvega orkuna sem til þarf svo hætta megi notkun jarðefnaeldsneytis hér á landi, eingöngu með bættri nýtingu starfandi virkjana á Íslandi. Að stilla áskoruninni upp með þessum hætti er ekki ein sviðsmynd af mörgum, líkt og sjálfbærnistjórinn staðhæfir. Heldur er þetta hreinlega markmiðið sem stjórnvöld hafa sett sér.

Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélög hennar hafa hingað til komið að ýmsum verkefnum sem snúa að orkuskiptum. Sjálfbærnistjórinn telur nokkur þeirra upp. Vetnisvagnaverkefni um síðustu aldamót, aðveitustöðvar fyrir hleðslu „stórra skipa,“ vetnisframleiðsla á Hellisheiði, uppbygging hleðslustöðvanets fyrir fólksbíla og fleira.

Allt eru þetta góð og uppbyggileg verkefni. Þau eiga það vitaskuld öll sameiginlegt að hafa kallað á, eða munu kalla á, aukna raforkuframleiðslu. Fólksbílaflotinn myndi ekki nota svo mikla af raforku til sín eftir fulla rafvæðingu. Öðru máli gegnir um téð „stór skip.“ 

Orkunotkun íslenska skipaflotans er um fjórar teravattstundir á ári. Hvað sem líður uppbyggingu aðveitustöðva við Sundahöfn þá er alveg ljóst að slíkt orkumagn er langt frá því að vera á lausu um þessar mundir á Íslandi. Hvort sem heldur í formi óseldrar raforku eða rafeldsneytis. 

Það gætir reyndar ákveðinnar mótsagnar í umfjöllun sjálfbærnistjórans. Vetnisvagnaverkefni og framleiðsla rafeldsneytis eru talin Orkuveitu Reykjavíkur til tekna. En í næstu efnisgrein kemur svo útskýring á því að orkuþéttni rafeldsneytis er léleg – miðað við jarðefnaeldsneyti og núverandi rafhlöðutækni. Það sé í raun fráleitt að láta sér detta það í hug að framleiða meira af hreinum orkugjöfum.

Allar samfélagslegar, efnahagslegar og tæknilegar framfarir hafa alltaf átt það sameiginlegt að eiga sér úrtölumenn. Það sama átti meira að segja líka við um hitaveituna á sínum tíma.

Auðvitað er það rétt að orkuþéttni til að mynda ammoníaks og metanóls er minni en jarðefnaeldsneytis. Það er líka rétt að núverandi tækni við framleiðslu og flutning vetnis svarar ekki kostnaði - miðað við jarðefnaeldsneyti. En ef stjórnvöldum og atvinnulífi er alvara með að hætta notkun jarðefnaeldsneytis, þá verður einfaldlega að finna leiðir til að lifa með því eða bæta núverandi tækni. Annars getum við alveg eins haldið áfram að brenna olíu. Ekki er ég viss um að sjálfbærnistjórinn sé ólmur að kvitta upp á slík endalok sögunnar.

Það var skarplega athugað í grein sjálfbærnistjórans að útbreiðsla og innleiðing hitaveitu á Íslandi voru stærstu og fyrstu orkuskiptin á Íslandi. En allar samfélagslegar, efnahagslegar og tæknilegar framfarir hafa alltaf átt það sameiginlegt að eiga sér úrtölumenn. Það sama átti meira að segja líka við um hitaveituna á sínum tíma. Erfitt er að trúa því að sjálfur sjálfbærnistjóri Orkuveitu Reykjavíkur ætli að tylla sér þeim megin borðsins í þessu mikilvægasta verkefni samtímans. 

Höfundur er viðskiptablaðamaður á Innherja.


Tengdar fréttir

Vantar raddir í virkjana­kórinn?

Það var áhugaverð spurning sem Innherji setti fram í gær. Ætlar Orkuveita Reykjavíkur að skila auðu í orkuskiptunum, spurði nafnlaus blaðamaðurinn, sem virðist hafa verið utan þjónustusvæðis um hríð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×