Innherji

Upp­­skeru­brestur í Flórída ýtir verði á appel­sínu­safa í met­hæðir

Þórður Gunnarsson skrifar
Framleiðsla á appelsínusafa í Flórída má muna fífil sinn fegurri og hefur dregist saman um tæp 90 prósent frá hámarki sínu árin 1997-1998
Framleiðsla á appelsínusafa í Flórída má muna fífil sinn fegurri og hefur dregist saman um tæp 90 prósent frá hámarki sínu árin 1997-1998

Verð á appelsínusafa í Bandaríkjunum hefur aldrei verið hærra vegna þess uppskerubrests sem er nú í kortunum. Fellibylurinn Ian sem gekk yfir Flórída í Bandaríkjunum fyrir tæpum mánuði síðan er helsta ástæðan, að því er fjölmiðlar vestra greina frá. Nánast öll appelsínuframleiðsla Bandaríkjanna á uppruna sinn í sólskinsríkinu Flórída.

Flórída á sér langa sögu í framleiðslu appelsínusafa. Framleiðslan náði hámarki á árunum 1997 til 1998 þegar um 244 milljónir askja af appelsínum voru seldar á markað. Síðan þá hefur appelsínurækt dregist statt og stöðugt saman.

Plágur á alla bóga

Í upphafi þessa árs reiknaði bandaríska landbúnaðarráðuneytið með því að framleiðslan á uppskerutímabilinu 2022 til 2023 yrði 44,5 milljónir askja. Var það ekki síst vegna þess að plága hafði herjað á appelsínubændur í Flórída. Plágan lýsti sér þannig að appelsínurnar féllu til jarðar af trjánum áður en þær höfðu náð fullum þroska. En á heilbrigðu appelsínutré hanga ávextir þess þar til þeir hafa náð fullum þroska og svo týndir af trjánum. Eins og áður sagði þá gjöreyðilagði fellibylurinn Ian stóran hluta þess hluta uppskerunnar sem þó var í lagi. Í ofanálag hafa ræktendur í Flórída glímt við kaldara loftslag í haust en þeir eiga að venjast.

Framvirkt verð á appelsínusafa var þegar á uppleið framan af ári vegna bágrar uppskeru. Fellibylurinn Ian gerði illt verra.ICE

Uppskera þessa árs í Flórída hefur nú verið endurskoðuð aftur niður á við í 28 milljónir askja. Verð á framvirkum samningum með appelsínusafa sem ICE-kauphöllin hefur á sínum snærum hefur í kjölfarið rokið upp. Framvirki samningurinn með appelsínusafa gengur kaupum og sölum í 15 þúsund punda einingum, eða sem nemur um 6,8 tonnum. Samningurinn er nú kominn yfir 200 Bandraríkjadali fyrir 6,8 tonn af appelsínusafa til afhendingar í næsta mánuði. Hefur verðið nú hækkað um 55 prósent á einu ári.

Brasilía í betri málum

Þróunin í Flórída er vatn á myllu Brasilíu sem er stærsti framleiðandi appelsínusafa í heiminum. Þvert á það sem er að eiga sér stað í Bandaríkjunum er því spáð að framleiðslan í Brasilíu á yfirstandandi uppskeruári aukist um meira en 20 prósent. Það þýðir að heildarframleiðsla Brasilíu er áætluð um 317 milljónir askja, samkvæmt mati Fundecitrus, samtaka framleiðenda sítrusávaxta þar í landi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×