Innherji

Vikan fram­undan: Mun fast­eigna­verð lækka annan mánuðinn í röð?

Ritstjórn Innherja skrifar
Fasteignamarkaðurinn lækkaði um 0,4 prósent í ágúst og septembermælingarinnar er beðið með eftirvæntingu.
Fasteignamarkaðurinn lækkaði um 0,4 prósent í ágúst og septembermælingarinnar er beðið með eftirvæntingu. Vísir/Vilhelm

Þróun fasteignamarkaðar, uppgjör Icelandair og stjórnarkjör á hluthafafundi Sýnar er meðal þess sem markaðurinn mun fylgjast með í vikunni.

  • Þjóðskrá birtir vísitölu fasteignaverðs miðvikudaginn 18. október. Birtingarinnar er beðið með nokkurri eftirvæntingu, en vísitalan lækkaði í ágúst í fyrsta sinn frá árinu 2019. Fram að því hafði vísitalan hækkað um tæplega fjórðung árinu áður. Skýr merki um kólnun fasteignamarkaðarins voru komin fram áður en tölurnar fyrir ágúst voru birtar þar sem verulega var farið að draga úr miklum verðhækkunum á húsnæði. 
  • Fjöldi eigna til sölu á höfuðborgarsvæðinu hefur tvöfaldast á tveimur mánuðum. Þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi svo gott sem boðað endalok vaxtahækkana í bili, þá bendir margt til þess að fasteignaverð gæti haldið áfram að lækka.
  • Á miðvikudag munu Hagar einnig birta uppgjör fyrir annan fjórðung rekstrarárs félagsins. Hagar hækkuðu afkomuspá sína fyrir yfirstandandi rekstrarár í júní síðastliðnum með vísan í betri afkomu Olís en lagt var upp með.
  • Fimmtudagur verður sennilega viðburðaríkasti dagur vikunnar. VÍS og Icelandair birta uppgjör eftir lokun markaða. Verðbréfamarkaðir hafa ekki verið fjárfestum sérstaklega hagfelldir á undanförnum mánuðum sem gæti litað uppgjör VÍS. Í síðustu viku sendi tryggingafélagið einnig frá sér afkomuviðvörun þar sem breyttar verðbólguvæntingar Seðlabankans og tjónaþyngri þriðji ársfjórðungur veldur því að áætlað samsett hlutfall VÍS á árinu hækkar úr 95-97% í 98-100%.
  • Vísbendingar um kröftuga viðspyrnu ferðaþjónustunnar, sem birtast meðal annars í mikilli erlendri kortveltu hér á landi, gætu boðað gott fyrir uppgjör Icelandair. Farþegum hefur fjölgað mikið hjá Icelandair síðustu misseri en á nýliðnum þriðja ársfjórðungi flutti félagið rúmlega tvöfalt fleiri farþega í ár miðað við þriðja ársfjórðung 2021. Þá var farþegafjöldinn á fjórðunginum tæp 88% af fjöldanum á sama tímabili 2019. Miklar sveiflur í olíuverði gætu hins vegar sett mark sitt á uppgjör flugfélagsins. 
  • Fimmtudagurinn hefst þó á hluthafafundi Sýnar þar sem hópur fjárfesta undir forystu Gavia Invest freistar þess að ná meirihluta í stjórn félagsins.

Innherji er undir hatti Sýnar hf.


Tengdar fréttir

Vikan framundan: AGS uppfærir spá sína um hagvöxt í heimshagkerfinu

Í vikunni mun Seðlabankinn meðal annars birta nýjar mánaðartölur um kortaveltu en á liðnu sumri var heildarvelta erlendra greiðslukorta í hæstu hæðum. Á erlendum vettvangi ber hæst að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun á morgun, þriðjudag, koma með uppfærða hagspá sína. Fastlega er gert ráð fyrir að þar verði boðaður enn minni hagvöxtur á heimsvísu en áður var spáð og eins meiri verðbólgu.  



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×