Umræðan

Húsnæðisverð lækkar

Halldór Kári Sigurðarson skrifar

Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,4% í ágúst en það hafði hækkað samfellt síðustu 32 mánuðina þar á undan. Lækkunin er í takt við væntingar Greiningardeildar Húsaskjóls og skýrist fyrst og fremst af vaxtahækkunum og minna aðgengi að lánsfé.

Heimildir: Þjóðskrá Íslands, HMS og Greiningardeild Húsaskjóls.

Eitt skýrasta merki viðsnúnings á íbúðamarkaði undanfarna mánuði hefur einfaldlega verið aukið framboð af eignum til sölu. Um þessar mundir eru á bilinu 1300-1400 eignir til sölu á höfuðborgarsvæðinu sem er tvöfalt meira en fyrir tveimur mánuðum. Það er því ljóst að íbúðir eru að koma mun hraðar inn á markaðinn en þær seljast.

Það er þekkt að þegar samningsstaða kaupenda og seljenda snýst svona hratt getur skapast ákveðin sölutregða. Kaupendur bjóða undir ásettu verði en seljendur sætta sig ekki við tilboðin. Þetta skýrir e.t.v. hraða aukningu í framboði um þessar mundir.

Ofan á þetta bætist að það má gera ráð fyrir töluverðri aukningu í framboði á nýbyggingum á næstu mánuðum.

Íbúðaspá HMS og SI gerir ráð fyrir að rúmlega 400 nýjar íbúðir komi inn á mánuði það sem eftir lifir árs þegar horft er á landið í heild sinni sem er tvöfalt meira en í meðalmánuðinum það sem af er ári.

Heimildir: Samtök iðnaðarins, HMS og Greiningardeild Húsaskjóls.

Peningastefnunefnd ákvað þann 5. október að hækka vexti um 25 punkta og standa meginvextir bankans nú í 5,75%. Það sem er áhugaverðast er hins vegar ekki vaxtahækkunin heldur mjúkur tónn nefndarinnar og ummæli Seðlabankastjóra um að mögulega væri stýrivaxtahækkunarferli Seðlabankans lokið í bili.

Heimildir: Samtök iðnaðarins, HMS og Greiningardeild Húsaskjóls.

Horft fram á við er ljóst að húsnæðisverð mun halda áfram að lækka að nafnvirði á næstu mánuðum. Það skýrist af nokkrum þáttum. Fyrir það fyrsta má nefna að vísitala íbúðaverðs er 3 mánaða hlaupandi meðaltal undirritaðra kaupsamninga. Nýjasta mælingin byggir því á kaupsamningum sem voru undirritaðir í sumar og því ljóst að vaxtaáhrifin eru aðeins komin inn að hluta. Tregða seljenda til að aðlaga sig að breyttum aðstæðum hefur síðan leitt til þess að íbúðaframboð hefur tvöfaldast á tveimur mánuðum. Þannig getur markaðurinn ekki gengið til lengdar og seljendur munu á næstu mánuðum þurfa að sætta sig við nýjan veruleika. Loks má nefna að Samtök iðnaðarins og HMS spá miklu innflæði af nýbyggingum inn á markaðinn á næstu mánuðum.

Þrátt fyrir að steypan sé uppáhalds fjárfesting Íslendinga getur íbúðaverð lækkað líkt og annað eignaverð og það er einmitt það sem er framundan.

Höfundur er hagfræðingur Húsaskjóls.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×