Innherji

Ásgeir: Mögulega toppi náð í vaxtahækkunum

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
„Mögulega, ef allt gengur eftir, erum við búin að gera nóg,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
„Mögulega, ef allt gengur eftir, erum við búin að gera nóg,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Vísir/Vilhelm

„Mögulega erum við komin á toppinn í þessu vaxtahækkunarferli.“ Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundi í morgun þegar stýrivaxtaákvörðun var kynnt. „Mögulega, ef allt gengur eftir, erum við búin að gera nóg.“

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 0,25 prósentur í morgun í 5,75 prósent. Bankinn hefur að undanförnu hækkað vexti hratt til að ná böndum á vaxandi verðbólgu. Frá því í byrjun maí hafa stýrivextir hækkað um þrjú prósentustig. Verðbólga mældist þá 7,6 prósent og jókst í 9,9 prósent júlí en lækkaði í 9,3 prósent í september.

Við erum að sjá gríðarlega mikinn árangur af því sem við höfum gert.

„Við erum að sjá gríðarlega mikinn árangur af því sem við höfum gert,“ sagði Ásgeir á fundinum. Ákveðið var að hækka vexti mjög skarpt til að bregðast við vaxandi verðbólgu. „Við tökum hart á þessu. Alltaf þegar verið er að eiga við verðbólgu er betra að hækka fyrr en seinna. Verðbólga er byrjuð að lækka og horfur eru á að hún geri það áfram,“ sagði hann. 

Til að bregðast við efnahagsþrengingum sem rekja má til Covid-19 heimsfaraldursins voru stýrivextir lækkaðir í 0,75 prósent í ársbyrjun 2021 en þeir hafa nú á nokkuð skömmum tíma hækkað í 5,75 prósent, eins og fyrr segir.

Ásgeir sagði að Seðlabankinn sé reiðubúinn að hækka stýrivexti frekar ef þurfa þyki. „Það veltur á því hvernig verðbólga mun þróast og hvernig næstu kjarasamningar verða,“ sagði hann. Að eiga við verðbólgu sé samvinnuverkefni atvinnulífs, vinnumarkaðar og ríkisfjármála.

„Við erum að gefa boltann upp. Seðlabankinn er að ná árangri. Við höfum hækkað vexti og áhrifin eru komin fram. Ætla vinnumarkaðurinn, ríkisstjórnin og atvinnulífið að taka við boltanum af okkur? Ef það gengur eftir þurfum við mögulega ekki að beita vaxtatækinu mikið meira. Það er skýrt ef þetta gengur í aðra átt verðum við að gera það. Það er enginn efi í okkar huga að við verðum að ná þeim markmiðum sem okkur eru sett samkvæmt lögum,“ sagði Ásgeir og á þar við að markmið Seðlabankans er að verðbólga sé 2,5 prósent.

Ásgeir sagði að allt benti til þess að stýrivaxtahækkanirnar leiði til þess að verðbólga muni hjaðna og það búi undir mjúka lendingu í hagkerfinu.

Hann vakti athygli á því að rétt eins og verðbólga hafi komið hratt fram vegna hækkandi húsnæðisverðs geti sá þáttur verðbólgunnar farið hratt út aftur. „Það er að fara gerast.“


Tengdar fréttir

Gefur Seðla­bankanum færi á að hægja á vaxta­hækkunar­taktinum

Lækkun íbúðaverðs í ágúst kom greinendum og fjárfestum á óvart, sem endurspeglaðist í skarpri lækkun óverðtryggðra ríkisbréfa í dag, en eftir þær tölur er ljóst að nýjasta spá Seðlabankans er að ofmeta verðbólguna talsvert næsta kastið. Þótt ástandið sé enn viðkvæmt þá þýðir kólnandi fasteignamarkaður að útlit er fyrir að lítið sé eftir að vaxtahækkunarferli Seðlabankans, að sögn viðmælenda Innherja á fjármálamarkaði.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.