Innherji

Kim Kardashian nær sáttum við fjármálaeftirlit Bandaríkjanna

Þórður Gunnarsson skrifar
Kim Kardashian má ekki auglýsa fjárfestingar í rafmyntum næstu þrjú árin, samkvæmt ákvörðun bandaríska fjármálaeftirlitsins.
Kim Kardashian má ekki auglýsa fjárfestingar í rafmyntum næstu þrjú árin, samkvæmt ákvörðun bandaríska fjármálaeftirlitsins. Getty/NINO

Raunveruleikastjarnan Kim Kardashian hefur náð sáttum við bandaríska fjármálaeftirlitið (SEC) vegna auglýsinga á samfélagsmiðlum hennar um fjárfestingar í rafmyntaafurðum. SEC féll frá ákæru eftir að Kardashian náði samkomulagi um greiðslu upp á 1,26 milljónir dollara, eða sem nemur ríflega 180 milljónum króna.

Samkvæmt tilkynningu SEC láðist Kardashian að taka fram að rafmyntafyrirtækið EthereumMax hefði greitt Kardashian um 250 þúsund dollara fyrir að auglýsa ákveðnar fjárfestingaafurðir tengdar rafmyntum á samfélagsmiðlum. 

Á miðlum Kardashian var hlekkur á vefsíðu EthereumMax með leiðbeiningum um hvernig ætti að fjárfesta í afurðum fyrirtækisins.

Samkvæmt Gary Gensler, forstjóra SEC, er sáttagjörðin við Kardashian áminning um að þó áhrifavaldar kynni ákveðna fjárfestingakosti þá þýði það ekki að þessir sömu fjárfestingakostir henti öllum. „Mál Kardashian sýnir einnig að lög mæla um að áhrifavaldar þurfi að lýsa því yfir gagnvart almenningi að þeir séu að fá greitt þegar þeir kynna verðbréfafjárfestingar,“ sagði Gensler.

Greiðsla EthereumMax til Kardashian ásamt vöxtum (260 þúsund dollarar) var gerð upptæk af SEC, auk þess sem áhrifavaldurinn samdi um að greiða eina milljón dollara í sekt. Að auki má Kardashian ekki kynna fjármálaafurðir tengdar rafmyntum næstu þrjú árin.

Fréttatilkynning SEC.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×